Fúsi

Eftir að hafa séð Fúsa velti ég fyrir mér af hverju engum hefur áður dottið í hug að prufa að setja Gunnar „Gússa“ Jónsson áður í burðarhlutverk. Myndin rís alveg og fellur með honum í sérsniðri rullu, og brillerar hann sem lokaður og meinlaus mömmustrákur á fimmtudagsaldri sem lifir áhættulausu lífi í viðburðarlítilli rútínu. Tilgerðarlaus, fámáll maður með stóran búk og stærra hjarta. Frábær karakter en í aðeins volgri, meðalgóðri dramedíu, sem bæði dregur út það albesta og versta frá Degi Kára.

Virgin_Mountain_Still

Dagur Kári hefur verið svolítið fastur í því að draga sömu uppskriftina með sér. Myndirnar hans eiga það allar sameiginlegt að vera vel leiknar og kjaftfullar af þurrum sannleika en á móti grunnar, niðurdrepandi og yfirleitt ósannfærandi og ófullnægjandi í sögulokum sínum. Það kom mér líka nett á óvart hvernig framvindan og nokkrir lykilþræðir svipa óskaplega til París Norðursins. Stokkum aðeins í aðalpersónunum, bætum við smá einelti og flytjum sögusviðið og þá er þetta næstum sama myndin.

Þegar hugsað er til þess hvað íslensk kvikmyndagerð elskar að velta sér upp úr þunglyndi er erfitt að hugsa ekki til Dags Kára. En hann er að sama skapi einn af fáum leikstjórum sem leyfir sér líka að hafa húmor fyrir því. Hann er pínu ryðgaður þegar kemur að því að skrifa karakera sem eru ekki félagslega útundan, í aðalfókus og umkringdir depurð og þurru rútínuumhverfi, en samtölin eru þó oftar en ekki raunsæ og faglega höndluð.

Virgin_Mountain_Still

Fúsi stígur alltaf lengra og lengra út fyrir sitt þægindasvæði í sögunni en aldrei kemur mikill fókus á fólkið í kringum hans, t.a.m. mömmu hans (Margrét Fjóla), „besta vin“(Sigurjón Kjartans) eða sérstaklega hana Sjöfn (Ilmur Kristjáns), sem er óumdeilanlega næstmikilvægasta persóna myndarinnar. Dömurnar finnst mér oft hafa verið sérstaklega grunnt uppteiknaðar í myndum Dags Kára. Ilmur er meiriháttar góð með það sem hún hefur en ég keypti ekki alveg samband hennar við Fúsa. Allir leikarar standa sig annars vel og skilja eftir sig mikinn lit í litalausu atmói. Arnar Jóns ber þar af sem kærasti mömmu Fúsa, þangað til hann hverfur svo bara úr myndinni.

Myndin er soddan hálfbökuð karakterstúdía, með litla hlýju en þó mikla sál. Það er meiri tragík en kómík og oft ekki á réttum stöðum. En myndin, eins og hann Fúsi sjálfur, hefur sinn einlæga, viðkunnanlega sjarma; kammó, fyndin á tíðum, ögn fráhrindandi, stefnulaus og hefur ekki sérlega margt að segja. Notalegur gæi, sem hvorki má vanmeta né gera of háar væntingar til.

sexa

Besta senan:
Islands in the Stream.

Sammála/ósammála?