Inherent Vice

Þó Paul Thomas Anderson geri ekki alltaf snilldarmyndir þá er maðurinn samt sem áður snillingur. Með Inherent Vice er eins og hann hafi farið rétt að hér um bil öllu, en innihaldslega er meira til að annaðhvort dást eða hlæja að – og með – heldur en límast við. Fyrir hans gæðakvarða kalla ég það vönduð vonbrigði.

Skemmtanagildi hefur sjaldan verið í forgangi hjá þessum leikstjóra, og verður e.t.v. hver kvikmynd frá honum enn óaðgengilegri í mainstream-samhengi heldur en sú seinasta. Aðlögun á samnefndri skáldsögu eftir Thomas Pynchon ætti áreynslulaust að kljúfa áhorfendum Andersons í tvær fylkingar á ný. Með fullri virðingu fyrir Pynchon sem penna þá er framvinda efniviðarins ekki að öðlast neinn umræðuverðan púls í þessari aðlögun. Hún öðlast annars vegar mikið líf í vissum sprettum, eins langt og það er á milli þeirra.

Ástríðan sem leikstjórinn sýnir römmum, leikurum sínum og miskunarlausri smámunasemi fyrir andrúmslofti, tilfinningaspennu og umgjörð er alveg til staðar. Ég kann líka vel við tilbreytingu hans að leyfa sér að vera með léttan og sprellifandi húmor aftur (seinast var það Boogie Nights!). Hann bindir sig sömuleiðis grimmt við ritstíl, byggingu og rödd höfundarins Pynchon og býður hráefnið upp á flippaða, ruglingslega grashausa-noir sögu (m.ö.o. má blanda áferðina á The Long Goodbye saman við kómíska stefnuleysið úr Big Lebowski).

1412102722000-Inherent-Vice

Þetta er ein furðulega grilluð mynd, með mikinn karakter, ljúfan períódusjarma og lítinn haug af undarlegum uppákomum. Það sem hangir ekki saman er hvað hún er köld, óþarflega flækt (og merkilegt nokk… það er viljandi) og langdregin.

Það kemur út eins og PTA vilji að þú sjáir myndina undir tilsettum áhrifum en ég get ekki mögulega ímyndað mér annað en að myndin komi í staðinn þannig út sem stórspennandi svefnmeðal. Á tveimur og hálfum tíma er myndin óhrædd við að taka sinn tíma og labba í hringi með frásögnina og gera allt sem hún getur til að hún öðlist einhverja orku. En til að reyna að spegla áhrif aðalpersónunnar er ræman á tíðum dáleiðandi, nojuð og súrrealískt fyndin.

Bæði söguþráðurinn og stakar senur geta tekið hinar fríkuðustu random stefnur, og Joaquin Phoenix stendur sig tvímælalaust eins og hetja sem spæjarareykháfurinn Doc Sportello, sem þuklar sig í gegnum margbrotinn vef. Og þegar aðalkarakterinn í noir-sögu er ítrekað gaddfreðinn má vissulega gera ráð fyrir að hann eigi erfitt með að púsla hlutunum svolítið saman.

inherent-vice-joaquin-phoenix-benicio-del-toro-josh-brolin-desk

Phoenix er – eðlilega – í sínum eigin heimi út alla myndina, en fyrst öll myndin/Pynchon er hvort eð er í eigin heimi er það vel viðeigandi. Sportello er slakur, skemmtilegur, fyndinn (…þetta öskur!) og makalaust glórulaus karakter og Phoenix kemur miklu til skila milli hamagangsins, keðjureykinganna og undrunarsvips síns. Þetta gullfallega og þrælskemmtilega litla hlaðborð fjölda leikara er einmitt það sem gerir myndina.

Anderson gerir sitt besta til að sjá til þess að allir sérvitringarnir sem Phoenix rekst á er eins eftirminnilegur og tíminn leyfir, því margir mega þar kalla sig heppna ef þeir fá fleiri en eina til tvær senur. Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér hversu þurr myndin væri án t.d. Reese Witherspoon, Martins Short, Benicio Del Toro eða Hong Chau, sem stelur hreint og beint senunni sem atvinnunuddari, innan gæsalappa, sem er alltaf með svör sín á hreinu.

inherent-vice-image-joaquin-phoenix-katherine-waterston

Í stærri hlutverkunum er engin feilnóta slegin. Josh Brolin er endalaust fyndinn sem hrynjandi, hrokafull lögga með leikaraferil á niðurleið og Katherine Waterston gjörsamlega eignar sér myndina með einni senu. Og það hefur ekkert með það að gera að hún sé þar nakin í afar langri töku. Leikkonan er samt svo góð að það er hundfúlt að leyfist ekki meiri tími handa henni í þessum risastóra karakterhaug, sérstaklega þar sem hún er ekki bara ein heldur sú mikilvægasta. Auklega býður hún einnig upp á eina stystu ,,alvarlegu“ kynlífssenu sem ég hef séð í einum ramma þar sem performans gæjans vinnur ekki mörg kúl-stig. Við erum kannski að tala um svona 8 epískar sekúndur tótal. En hún kvartaði að vísu ekki…

Svo gæti það verið bara ég, en ég er heldur ekki svo viss um að Joanna Newsom sé besti þulurinn fyrir myndina. Það meikar sens að persóna hennar sé hlutlaus sögumaður en röddin hennar er svo róandi að hún svæfir, í mynd sem þegar nýtur þess að drolla.

En á meðan PTA hefur margt um persónur sínar og tímabilið að segja (enn og aftur syrgir hann og kveður ákveðið kúltúrs-era með mikilli fortíðarþrá), þá gagnast innihaldið ekkert á því að rammpakka svona miklum upplýsingum inn í söguna og „ráðgátuna“ þegar í ljós kemur síðan hve litlu allt plottið skiptir máli. Hér snýst það s.s. meira um trippuðu ferðina í stað áfangastaðarins eða fullnægjandi samantektar.

inherent-vice-owen-wilson-joaquin-phoenix

Ég skil að PTA vilji halla sér aftur og leyfa andanum og afslappaða farsagangnum að skolast yfir áhorfandann en upplýsingaorgían vinnur svolítið gegn því markmiði. En eins og allar myndirnar hans betlar þessi eftir öðrum séns eftir fyrstu meltingu, en út frá eigin reynslu breytti það litlu. Hver einasta sena er kjaftfull af litlum smáátriðum sem segja söguna betur en útkoman var samt alveg jafnvolg.

Stíllinn grípur, þó hann skorti meira ímyndunarafl til að skera sig út. Hann helst poppar út í períódunni þegar músíkvalið skreytir til. Robert Elswit hefur átt betri daga á kamerunni, en dregur það lítið frá því að hann merkir myndina alprýðilega með gullfallegum víðskotum, lýsingum og sterkum pallettum. Þarna koma orðin tvö aftur upp í hugann: vönduð vonbrigði.

-1361bddf-0f04-487b-8bbc-781f6f705837

Ef við tölum um Boogie Nights, Magnolia, Punch-Drunk Love, There Will Be Blood og 80% af The Master er ljóst að Inherent Vice stendur þeim langt að baki en á samt skilið sinn költaða hóp. Hún er athyglisvert og skemmtilega ruglað tímaflakk en Anderson á alveg að eiga meira grípandi efni í sér sem hann getur sjálfur frumsamið.

sexa

Besta senan:
Martin (ekki) Short á kókaíni.

Sammála/ósammála?