Insurgent

Besta hrósið sem ég get gefið Insurgent (og þar sem ég er af öðru kyni og töluvert eldri heldur en tilsettur markhópur tel ég það til MIKILS hróss) er, að eftir að hafa séð hana, munar nú um hársbreidd að ég sé líklegri til þess að sýna framhaldinu áhuga heldur en þegar Divergent endaði. En síðan man ég að lokamyndirnar verða tvær… upp úr einni bók.

Ég kann margt að meta við þennan heim en erfitt er að stimpla þetta sem annað en metnaðarfullt metnaðarleysi. Insurgent er hin dæmigerða miðjusaga í framlengda unglingaþríleiknum byggðan á úthugsuðu en samt örlítið vansköpuðu kóperingu Veronicu Roth. Serían byggir svolítið á predikun en felur slatta af jákvæðum gildum í sér, í því hvernig hún dílar við sjálfstæði, sjálfsfyrirgefningu og uppgötvun aðalpersónu sinnar (Ekki-Katniss, eins og ég kalla hana), og rís alveg og fellur með henni, því þó rómantík, veraldarbygging, ádeilupælingar og ágreiningar fylgi með, þá er allt svo fókuslaust að það ýtist til hliðar sem aukaatriði.

Insurgent01

Innri sem ytri ströggl hinnar dyggðaríku Tris eru stundum spennandi. Shilene Woodley kemur pressunni og togstreitunni prýðilega til skila (og gaman að sjá leika á móti tveimur öðrum gæjum sem hafa áður leikið kærasta hennar…), auk þess að leikkonan er löngu búin að æfa sig vel í því að gráta eins sannfærandi og hún getur, en fyrir utan nýja klippingu er lítið nýtt eða spennandi við hana. Það er meira heimurinn, hraðinn og kannski hasarinn sem stýra þessum kafla ögn betur. En hvaða kemistría sem þau Theo James höfðu áður fyrr er algjörlega horfin.

Kate Winslet er orðin mátulega stíf en aldrei ógnandi og hefur ekki úr miklu að moða í hlutverkinu. Octavia Spencer fær alltof lítið að gera og Naomi Watts er eingöngu til staðar til þess að láta vita af sér þangað til kemur að næsta kafla. Dæmigert, og sóun á annarri stórfínni leikkonu. Sem betur fer virðist vera púls í krúttlúðanum Jai Courtney og Miles Teller (nú orðinn talsvert frægari, og ekki eingöngu sem pöddufulli kæróinn hennar Woodley í Spectacular Now) er á blússandi siglingu með skíthælatakta sína. Hann kemur bestur út úr þessu öllu, enda sá eini sem virðist gera eitthvað meira úr því litla sem hann hefur. Ansel Elgort er fínn þó, en karakter hans er illa svikinn á blaði, eins og flestir, og ekki í fyrsta sinn.

la-et-mn-the-divergent-series-insurgent-trailer

Vanmetna leikstjóranum Neil Burger hefur verið skipt út hinum hæfileikaríka en gjarnan áttavillta Robert Schwentke (þessi nöfn…). Ég myndi segja að Burger hafi mun betur farið með leikarana sína og stílinn en Schwentke – nýstiginn upp eftir viðbjóðinn R.I.P.D. – heldur miklu betra rennsli og hasar, auðvitað á kostnað þess að sé skimað yfir haug af upplýsingum og persónusamskiptum, en hvort eð er flestar svo grunnt uppteiknaðar að manni verður alltof sama alltof fljótt.

Tæknilega séð eru allar heimsins bíómyndir tilgangslausar en Divergent-serían þykir mér persónulega vera sértýpa af óþörfum glamúr-gritt sci-fi unglingaskáldskap þegar Hungurleikarnir eru handan við hornið og tækla svipuð þemu og skilaboð svo margfalt betur. Fyrir hálfum áratugi síðan hefði kannski Roth tekist að skrá sig víðar inn í kúltúrinn, en eins og stendur núna er ólíklegt að þessi sería eigi varla lengra líf í sér á hvíta tjaldinu heldur en vampíruglimmer. Ég hef samt séð það leiðinlegra og myndin er óneitanlega með smá rafstuð í sér.

En sjáðu hana bara ef þú virkilega elskar bækurnar, eða fyrri myndina – og telur niður dagana niður í að geta notið Allegiant í fjóra klukkutíma.

fimm

Besta senan:
Lestaflóttinn.

Sammála/ósammála?