Into the Woods

Ég er allur opinn fyrir skrautlegum og söngóðum ævintýrabræðingum, en ég hef absolút engan skilning á því hvernig er hægt að gera mynd sem vefur prýðilega saman Rauðhettu, Öskubusku, Garðabrúðu og Bauna-Jóa og gera hana svona miskunarlaust leiðinlega. Og þetta kemur frá manni sem kallar sig söngleikjadruslu!

Músíkin er vitanlega smekksatriði en þetta snýst minna um það að kannski 10% söngnúmerana eru annaðhvort eða bæði eftirminnileg og skemmtileg (dúett prinsanna er tær hápunktur! eftir það versnar myndin með hverjum kafla). Auðvitað setur það fullt af strikum í kladdann fyrir söngleik og þar missir Into the Woods marks. En það sem hrjáir hana meira er hversu töfralaus og fókuslaus hún er, með alltof marga bolta á lofti og afbrigðilega þurr í visjúal-stíl.

INTO THE WOODS

Hvar eru litirnir? hvar er lífið? hvar er sjarminn? og umfram allt, hvar er dökka, umtalaða bitið sem gerði Broadway-sýninguna svo fræga? Meira að segja á Disney-kvarðanum er þetta ósköp milt, fyrir utan einhverja smávægilega pedó-strauma frá vonda úlfinum (sem Johnny Depp leikur… ekkert alltof vel, og syngur verr). En án þess að hún hafi gripið mig sérstaklega heldur sagan þolanlegum dampi þangað til að hún lætur eins og allt sé að líða að lokum, og þá taka við 40 grimmt óspennandi mínútur þar sem efniviðurinn er að tefja endinn með brútal hörku. Lokaþriðjungurinn er það sem tekur allra mest á.

Leikstjórinn Rob Marshall hefur aldrei verið upp á marga fiska, og versnar því meira sem myndirnar hans stækka. Ég var enginn aðdáandi Chicago, né Memoirs of a Geisha eða Nine, en þær myndir að minnsta kosti geisluðu á einn hátt eða annan. Eftir að Marshall fór að láta Disney stjórna sér er alveg sama hve miklum peningum hann hendir í fallega búninga og umgjörð, þá er áferðin svo flöt og óheillandi að það er eins og sé búið að sjúga hálft andrúmsloftið úr skjánum. Ég minni á að þetta er sami leikstjórinn og gerði Pirates-myndina sem fæstir muna eftir og enginn bað um.

inherent-vice-image-joaquin-phoenix-katherine-waterston

Það er erfitt að setja út á neinn leikara, að frátöldum Já-manninum Depp. Flestir eru nokkuð góðir og þokkalega raddtjúnaðir. Rauðhetta ber af ásamt Chris Pine sem hinn unaðslega sjálfumglaði og ákveðni prins „Charming“. Meryl Streep flýr ekki undan oflofinu sem hún hefur fengið fyrir voða dýptarlaust og þreytandi hlutverk sem hún hefur hér, en hún spinnur það besta sem hún hefur úr því.

Ég kann annars alltaf við Önnu Kendrick og Emily Blunt. James Corden og Blunt leika bakara og eiginkonu hans sem þræða saman sögurnar frá sinni miðju. Þau eru fín, viðkunnanleg og smellpassa þar sem þau eru en ef myndin hefði stoppað skyndilega hefði mér ekkert legið lífið á að klára hana. Það er átak út af fyrir sig að reyna að sýna persónum umhyggju þegar lögin þeirra getað næstum því rotað mann til svefns.

Ef senurnar eru algjörlega líflausar á skjánum þá er það ekki fólkinu að kenna heldur textanum líklegast, eða leikstjóranum. Into the Woods hlýtur að vera aðeins ætluð Sondheim- eða prinsessufíklum, og engum öðrum.

fjarki

Besta senan:
„Agonyyyyyy“

Sammála/ósammála?