It Follows

Hæp getur verið stórhættulegur hlutur, ennfremur þegar kemur að hrollvekjum og væntingum til slíkrar þegar einni tekst að skara langt fram úr þessum kasjúal-draugahússmyndum sem yfirtaka oft markaðinn og kalla sig horror. Í tilfelli It Follows er mjög auðvelt að gera ráð fyrir að hér sé komin einhver martraðarsprauta sem erfitt verður að jafna sig á, eins og margt hæperbólið hefur gefið til kynna. Það sem ég upplifði var voða sjaldan taugatrekkjandi, en sem múdí, John Carpenter-esk metafóra er myndin virkilega umræðuverð og vel gerð.

Fersklega indí, létt á gæsahúð en þung á tensjón-pælingum, táknrænni frásögn og stúderingu um ótta (og óumflýjanleika dauðans), en fyrir utan mesta lagi þrjár snöggar senur geta bregðufíklarnir látið sig dreyma um það að garga fremur en geispa yfir þessari.

It-Follows

Ef tilhugsunin um að eitthvað – í formi einhvers (náins eða ókunnugs) – elti þig hægt og rólega er margt til að fríka út yfir í It Follows. Plottið, hvað sem má kalla það, heldur í þá hundgömlu hefð í hryllingsmyndum þar sem kynlíf jafngildir alltaf dauða. Óttinn tengist undarlegri bölvun sem berst með samförum. Eina leiðin til að losna við hana er að „flytja“ hana yfir á einhvern annan, en ef þeirri manneskju mistekst að gera það sama – og ergó, deyja – þá skoppast bölvunin yfir á þig aftur staðinn. Hvaða furðufugl/demón/djöfull/trúður sem þetta er, hann labbar. Hægt. Þú veist af honum, þú getur ekki flúið undan honum (nema kannski með því að hoppa milli heimsálfa?).

it-follows-cannes-2014-4

Í fyrstu virkar þetta eins og skilaboða/fyrirlestrasaga um hvernig ýmsar kynferðislegu athafir og ákvarðanir geta fylgt lífi okkar lengi eða endanlega. En í staðinn er þetta hægur bruni um svo margt, margt meira, og matreitt með ferskum hætti, en engan veginn sérlega spennandi í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Fjármagnsleysið hjálpar annars vegar leikstjórnum mikið til með að hugsa út fyrir rammann með uppstillingu á óhugnaðinum. Hann forðast dæmigerðar lausnir, beitir kamerunni eins og vopn og teygir eins kvikindislega á þeim hráeinfalda gæðalopa sem hann hefur.

It Follows er sérlega minnisstæð því hún heldur svörunum algjörlega út fyrir sig og opnum til túlkunnar (mörgum ábyggilega til mikillar frústreringar…). Það er viss leti að mínu mati í þessari nálgun, því eins mikið og ég tek vel á móti óljósum svörum þá er aðeins of lauslega farið með tilsettar reglur í sögunni.

Auk þess velur hún líka nokkrar ódýrar leiðir upp á sjokk að gera (skotið af þakinu… af hverju?! og hvernig?). Það er sömuleiðis sérstakt hvernig hún sýnir kaldri óttadepurð persónanna mikinn áhuga og kryddar upp á vinasambandið meira en eðlilegt þykir í svona mynd. Það er raunsær straumur sem rennir þarna í gegn, en það þýðir ekki að það geri persónurnar endilega áhugaverðari.

Þær hanga bara að mestu, hér eða þar, og stara út í loftið – og engin ummerki um að þau eigi sér nokkuð líf. Þess vegna á ég bágt með að sjá nokkuð geta ræst úr afrakstrinum annað en sálfræðilega art-tilraun ef þessi GEGGJAÐA tónlist frá Disasterpeace myndi ekki algerlega bragðbæta hana í hel. Meira æfing í múdi og fagtökum af gamla skólanum (nota bene, hér eru engar tölvubrellur) heldur en nokkurn tímann saga, og með þessari raf-peppuðu ’80s músík þræðast saman bestu mótíf Carpenters og Halloween.

f1525a61-6167-4f2b-a92e-90618c69a6c9

Leikurinn er sannfærandi og fá margir tækifæri til þess að koma smáatriðum til skila um sjálfan sig án þess að þurfa að segja allt út. Það er líka tilbreyting út fyrir sig hvað vinahópurinn er fljótur að trúa aðalpersónunni þegar hún tekur allt í einu geðköst og er handviss um að yfirnáttúrulegur eltihrellir sé á eftir sér. Maika Monroe (úr hinni stórskemmtilegu The Guest) í aðalhlutverkinu er sérstaklega afberandi.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn David Robert Mitchell kemur hér með aðra myndina á eftir hinni frábæru og lítt séðu The Myth of the American Sleepover. Þá dílaði hann einnig mikið við unglinga og þroskaþemu. Með sinni fyrstu hrollvekju hér vill hann að þér líði eins og þú sért í óþægilega realískum og ýktum rússíbana, en skafar ekkert undan því að bömma þig verulega út með persónum sínum.

bp76ax3vviw2gjrtt27j

En rétt eins og „það“ sem eltir í myndinni er sagan í engu flýti með að fara á milli staða, annað en fórnarlömbin. Þetta gerir flæðið hálfdautt en effektívt þangað til að myndin svífur og á endanum skríður langt inn í lokahlutann og bókstaflega syndir í rólegheitum (lokaskotið er brilljant þó!) en það sem Mitchell er að gera á meðan hann heldur sniglahraðanum er að bora alls konar skilaboðum og hugsunum í undirmeðvitund þína.

Ef Mitchell hefur unnið vinnu sína rétt, þá hættir áhorfandinn ekki að hugsa um It Follows, þó svo hún hræði ekkert endilega úr þér vitið. Hún gerði lítið fyrir mig á þeim nótum en ég dáist helling að henni.

thessi
Besta senan:
Eitthvað stórt, í húsinu.

Sammála/ósammála?