Paddington

Furðulegt er hvernig einum talandi, forvitnum, marmelaðióðum bangsa getur tekist að heilla af manni hattinn þegar tölvugerðar dýrafígúrur í fjölskyldumyndum eru í alflestum tilfellum íþyngjandi eða þreytandi. Það hljóta að vera augun.

Paddington sýnir hvernig þú gerir fjölskyldumynd sem almennilega virkar á hvern einasta fjölskyldumeðlim (en trikkí er það fyrir okkur þegar íslenska talsetningin þvælist fyrir, og dregur meðmælin niður um nokkur stig*). Hún er krúttleg, hlý, flippuð og endalaust kætandi.

Það sem mest lætur hann Paddington nefnilega skera sig fram úr öðrum myndum af svipaðri grein er fyrst og fremst markviss leikstjórn og fyndið handrit sem hiklaust finnur rétta milliveginn með skrípaleikann svo hann verði aldrei of barnalega flatur í augum eldri hópa. Paddington-bangsinn er ekki óþolandi, prumpandi og ropandi pixlaskrípi, heldur indæll og elskulegur og allir leikarar (frá bráðskemmtilegum Hugh Bonneville eða Sally Hawkins til Nicole Kidman) eru í frábærum gír.

PADDINGTON-e1421105937624

Myndin lítur virkilega vel út og brellurnar fínar, en það sem gæðir birninum mesta líf sitt, burtséð frá augunum eða greinilega útpælt unnum loðfeldi, er ljúfa, súper-viðkunnanlega raddsetningin frá Ben Whishaw. Enn þykir mér eiginlega hálfmagnað að Colin Firth – með fullri virðingu – hafi verið fyrst ráðinn í þá rödd áður en honum var skipt út.

Sem fjölskylduskemmtun er varla hægt að mæla nóg með henni, en ef ég myndi annars vegar krítísera af hverju myndin er ekkert stórkostleg þá er hún einfaldlega allt, alltof fyrirsjáanleg (m.a.s. innan sinna standarda…) sökum þess að handritið er límt pikkfast við ákveðin plott-gangverk sem eru ábyggilega eldri en bangsinn sjálfur. Allir eldri en 10 ára geta tímastillt formúlurnar en niðurstaðan sýnir hversu huggulegum árangri er hægt að ná þegar aðstandendur halda svona þéttu, umhyggjuríku taki á henni.

Svo ég muni eftir, hef ég aldrei áður myndað mér neina umræðuverða tengingu við þennan bangsa (guð hjálpi öllum ef Kærleiksbirnirnir hljóta einn daginn 3D-trítmentið!). Leikstjórinn, leikararnir og Harry Potter-framleiðendurnir hafa að vísu séð til þess að hver sem getur sagt annað, geti ekki neitað því að hann öðlist krúttlegt líf á skjánum. Má vera að hver einasti taktur í sögunni hafi verið klisjukenndur, en næst samt að kreista úr þessu sjarma, skítþolanlegu (ef eitthvað, bara kærkomnu…) slapstick-i, pró-innflytjenda súbtextum og klassísku ævintýra/barnabókalúkki sem myndi stórlega gleðja Wes Anderson.

Góð í safnið, betri um hátíðirnar.

thessi

Besta senan:
„Bear left“.

PS. Get ekki undirstrikað það nóg hvað enska þýðingin er mikið betri. Ég myndi sjálfur færa rök fyrir því að það sé undantekningalaust ALLTAF þannig, en það á sérstaklega við þegar haugur af hnyttnu orðagríni glatast alveg í þýðingunni.

Sammála/ósammála?