Seventh Son

Seventh Son var ekki verið í neinu flýti með að líta dagsins ljós; tekin upp 2012 og sett svo á hilluna tæplega tvö ár. En hvort sem hún hefði komið út í fyrra eða hitt í fyrra er enginn séns að hún hefði flúið undan þeim örlögum að vera ein misheppaðasta fantasíu-ævintýramynd til síðari ára sem svoleiðis betlar eftir heitum sessi á mörgum eitruðum botnlistum.

Þetta er klárlega rétta myndin fyrir alla sem leita að einhverju í líkingu við Eragon, Dungeons & Dragons (’01), The Sorcerer’s Apprentice og verstu partana úr Hobbit-þríleiknum, helst rúllað upp í einn ruglingslegan og viðbjóðslega ljótan CG-haug. Innihaldið, sem byggt er á bókinni The Spook’s Apprentice, ber öll þess merki um að hundómerkilegu handriti hefur verið slátrað í ræmur í eftirvinnslunni og leikararnir eru allir úti á túni.

seven

Það er sárt að sjá tvo af mínum uppáhaldsleikurum gera sig að algjörum bavíönum. Julianne Moore lifir sig inn í kjánalegheitin með bestu lyst en gerir samt ekkert fyrir hlutverkið og bókstaflega æpir eftir Razzie-athygli. Jeff Bridges er heldur ekkert skárri heldur en hann var í R.I.P.D. (sama hve mikið ég reyni að gleyma þeim horbjóði, þá gengur það ekki!) – því fyrst og fremst er hann í nákvæmlega sömu stillingu; mumblandi og þreytulega klikkaður; eins og Rooster Cogburn hafi dottið á hausinn og inn í ranga mynd. Óskiljanlega lék þessi snillingur í True Grit, R.I.P.D. og svo Seventh Son – allar í þessari röð.

Í aðalhlutverkinu, sem fallega, hárprúða hetjan með pírðu augun, er Ben Barnes – frægastur fyrir að leika Prince Caspian, með tveimur ólíkum hreimum. Barnes virðist lítið getað að því gert að vera einstaklega óspennandi, auðgleymdur og persónuleikalaus nærvera á skjánum. Alicia Vikander (sem næst mun sjást í hinni frábæru Ex Machina) er engu skárri og virðist bara poppa upp (bókstaflega) eftir þörfum í plottinu.

1280x720-16K

Svo bregður Kit Harrington fyrir… í svona tvær mínútur, trúlega því hann hefur miklu betri hluti að gera í Game of Thrones – og á meðan Seventh Son stóð hugsaði ég oftar en tvisvar sinnum hvað mig langaði miklu frekar að horfa á þá þætti í staðinn. Myndin er stundum svo þroskaheft lummuleg að það má hafa gaman af soragildinu í henni, en niðurdrepandi er hversu mikil sóun á orku, tíma og aurum hún er.

Leikstjórn Sergeys Bodrov lætur engar klisjur stoppa sig, og kemur út eins og hún nærist öllu heldur á þeim og tekur þeim öllum fagnandi. Hann reynir að gefa henni epískan „Miðgarðs-fíling“ en léleg klipping og ódýrar brellur – í ógeðfelldu magni – stíga svolítið á þá drauma. Seinast þegar hæfileikaríkur erlendur kom svona illa út úr Hollywood-kerfinu var þegar Oliver Hirshbiegel (Downfall) lét yfir sig vaða með The Invasion. Bodrov gerði t.d. frábæra hluti með stórmyndinni Mongol. Hvernig honum tókst að fara þaðan yfir í þetta er geðrænt púsl sem ég næ ekki að leysa…

SEVENTH SON

Tónlistin er ömurleg (það hljómar eins og Marco Beltrami sé að herma eftir James Horner, þegar hann hermir eftir sjálfum sér!) hasarinn er lélegur og leiðinlegur og þau fáu skipti sem maður finnur fyrir einhverjum votti af hugmyndaflugi þarf ekki skjárinn annað en að drukkna í brellum til að það snúist allt við. Yfirleitt er Newton Thomas Segel frábær kvikmyndatökumaður (hápunktur hans myndi vera Drive) en ekki í þetta sinn. Rammarnir hans eru oflýstir oft og landslagsskotin líta öll út eins og þau séu tekin af einhverjum lager.

Í rauninni er óskaplega fátt jákvætt við Seventh Son, fyrir utan viss móment sem hefðu eflaust getað skipt meiru máli ef myndin kæmi ekki öll út eins og peningauga með metnaðinn sinn í ruglinu. Hún m.a.s. nær hinu undarlegasta markmiði að láta Jupiter Ascending líta út eins og æfingu í frumleika og taumhaldi, og það er bara vegna þess að báðar hugsuðu (mis)stórt og feiluðu, báðar voru settar á hilluna, komu svo út sömu helgi og sýna Óskarsverðlaunahafa tapa sér í ýktum ofleik.

En þar ég efa ekki að The Dude og Maude Lebowski vilji ábyggilega eftir bestu getu gleyma tilvist þessarar hörmungar þá er lítil ástæða til þess að áhorfendur ættu ekki bara að gera það sama.

tveir

Besta senan:
Allt sem albínóorkinn Tusk gerir.

Sammála/ósammála?