What We Do in the Shadows

Þegar Kananum hefur margsinnis tekist að klúðra sínum vampírum upp á síðkastið er fínt að reiða á önnur lönd til að kryfja myþólógíuna best. Fyrir stuttu var ég kominn með hina geggjuðu Only Lovers Left Alive í sólid uppáhald en hin nýsjálenska What We Do in the Shadows kemur og trompar hana. Húmor, satíra, „spúf“ og vináttusaga að mínu skapi. Subbulega skemmtileg.

Myndin byggir á einfaldri, sketsalegri hugmynd, og tekur hversdagslegan vinkil á sambúð fjögurra mismunandi vampíra sem eru hverjar aðrar ólíkari. Klisjur eru krufðar, hefðum er óspart gert grín að og hinum merkilegustu spurningum er svarað (útskýringin á mýtunni um dálætið á meyjarblóði gekk alveg frá mér…).

Með Spinal Tap-legri „mockumentary“ nálgun, meiriháttar kemistríu og samspili leikara og sér í lagi brjálæðislega fyndnu handriti (+ spuna?) eftir félagana Taika Waititi og Jermaine Clement smellur öll myndin saman. Hún rétt dansar við línuna að teygja lopann á efninu en heldur sér á floti því karakterarnir eru dásemd og þegar myndin virkar þá er hún brilliant fyndin og allan tímann kætandi. Einstaka sinnum furðu hjartnæm. Grínlaust.

What-We-Do-In-the-Shadows

Waititi leikstýrir og stelur að mínu mati allri myndinni sem rómantískt blóðsugusnobb frá viktoríutímabiliu. Hann myndi faktískt ekki gera flugu mein ef blóðfæða hans myndi ekki krefjast subbuskapsins. Clement er óborganlegur sem „potarinn“ Vlad, sem er eins konar bugaður Drakúla. Við þetta kombó bætist síðan rokkstjörnuleg nasistablóðsuga með (hvað annað?) attitjúd, kostulega leikinn af Jonathan Brugh, og Nosferatu-kópering, Peter að nafni. Aukalega bætast við nýgræðingur og mennskur félagi hans sem kennir gamlingjunum að vera í takt við nútímann og glittir í skítfyndna varúlfa sem greinilega eru í sjálfskipaðri bræðis-þerapíu („Werewolves, not Swearwolves!“).

What We Do in the Shadows er mynd sem þú horfir ekki á nema í góðra félaga hópi, því hún er stutt, einföld og eðalstemmari út í gegn ef þú ert farin/n að hlæja eftir opnunaratriðin. Hún gengur ekki upp sem heilsteypt kvikmynd nema rétt svo, þökk sé þess að hvað er gaman af þessum elskulegu, yfirnáttúrulegu vitleysingum. Svo nýtir hún sömuleiðis indí-gildið sitt óskaplega vel. Sennilega betra að búast við hreinræktaðri sketsamynd, því þá er guaranterað að hún muni koma á óvart.

atta

Besta senan:
Kötturinn.

Sammála/ósammála?