The SpongeBob Movie: Sponge out of Water

Hvílíkur léttir! Það er virkilega sjaldan þar sem maður sér bíótrailer sem fókusar almest á seinustu 20 mínúturnar í myndinni, en í þessu tilfelli er það mikil blessun. Annað en aðalsýnishornið gefur til kynna er SpongeBob (2?): Sponge out of Water miklu meira teiknimynd heldur en trendí og ófyrirgefanlega barnaleg „læv aksjón“ blanda. Þar að auki mun súrari heldur en fyrri myndin og e.t.v. Lego Movie samanlagðar. Fyrir utan flesta leiknu og pínlegu partana er þetta algjörlega svampurinn sem ég þekki!

Hin myndin, orðin rúmlega áratugagömul, á sér reyndar enga sérstaka tengingu við þessa, því í neðansjávarheimi þar sem eldar kvikna reglulega eða uppréttar fiskafígúrur geta skellt sér í heit böð skipta hlutir eins og ‘continuity’ ekki neinu einasta máli. Þessi tiltekna sýra stendur sumsé alveg sjálfstæð.

The-Spongebob

Persónulega fannst mér sú fyrri samt halda betri dampi í sprelli og (öh…?) „plotti“. Þessi aftur á móti þarf að gera ótalmargt meira til að remba sér áfram í þessa bíólengd, en kostulega ruglið sem kokkast upp í henni er ekkert síðra, því þar með er innifalið tímaflakk, syngjandi mávar, voldugur, rappandi höfrungur að nafni Bubbles með laser-geisla á höfðinu og fylgist með alheiminum, æpandi tilvísanir í tvenn Kubrick-verk, Douglas Adams, Sergio Leone, Mad Max ásamt bókstaflegu innliti í heilann á Svampi þar sem allt morar í kandíflossi og fígúrur æla regnbogum…

Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað það var sem aðstandendur reyktu þegar þeir sátu á hugmyndafundum, en ferill Kevins Smith hefði að minnsta kosti gott af því – eða DreamWorks.

bubbles-the-dolphin

Fyrir suma foreldra er þetta trúlega einhver grillsteikt martröð en gleðileg orkusprauta fyrir krakka, og líklegast partíbomba fyrir stónerana. Ég kemst ekki ennþá yfir þennan höfrung. Hann er dásemd.

Sömuleiðis tek ég alltaf vel í tilbreytinguna að stokka til í dýnamík karakterana, en út meirihluta myndarinnar tekur krossþroskahefti krossfiskurinn Patrick aftursætið og er meira spilað úr andstæðingnum. Það er kakkalakkafanturinn Plankton sem parar sig saman við Svampinn… í miðjum heimsenda… og hann fær m.a.s. örk sem karakter! Eða næstum því…

SpongeBob2_teasertrailer

Það er ekki fyrr en einmitt klæmaxinn flytur sig yfir í raunheiminn þar sem maður áttar sig á að SpongeBob er fyrst og fremst (en umdeilanlega!) gert fyrir smákrakka. Um leið og Svampur og félagar hans breytast í tölvugerðar fígúrur rampast upp nýtt level af ærslagangi og verður myndin þarna hvað mest flöt og ófyndin. Enginn getur þó neitað því að rapp-battlið í lokin kemur henni aftur á „hvað-er-ég-að-horfa-á?!“ rólið. Fíla’ða. Enn og aftur… þessi höfrungur!

Á þónokkrum stöðum var ég léttilega farinn að hlæja af mér hausinn úr hlátri og ég get ekki trúað því að neinn SpongeBob-pjúristi, hvort sem hann er í bleium eða með flissandi félögum í kjallaraíbúð, geti sagt annað. Jákvæðnin lekur af alls staðar í allri þessari öflugu sykurvímu og sýningartíminn líður ágætlega hratt. Það má vel vera að þetta sé eins og að horfa á nokkra þætti strengda saman, og ef svo er, þá mæli ég með þeim öllum, nema þeim leikna – með fullri virðingu fyrir hæper-flippuðum Antonio Banderas, þó mér hafi ekki beinlínis leiðst hann heldur.

thessi

Besta senan:
Höfrungurinn almáttugi í spreng.

Sammála/ósammála?