Avengers: Age of Ultron

Þegar The Avengers kom út fyrir þremur árum síðan hafði lítið sést í líkingu við hana á bíótjaldinu, og helstu nördaklön veraldar ásamt krökkum og myndasöguunnendum náðu að froðufellast úr æsingi. Í dag tekur maður þessu sem sjálfsögðum hlut að sjá haug af pre-establisheruðum ofurhetjum snúa bökum saman og lemja allt frá sér í tvo tíma. En það er einmitt ástæðan af hverju það er viðbjóðslega erfitt að trompa hana eða a.m.k. kalla fram þessa sömu þrumuánægju í dós.

Gæðakvarðinn var heldur ekkert ofsalega hátt stilltur þegar Joss Whedon yfirtók allt hjá Marvel og fylgdi eftir misfínum upphitunarmyndum með allsherjar hasarblaðasamkomu, pipraðri með þessum sjálfmeðvitaða Whedon-isma og tókst honum glæsilega að þræða saman karaktera og nördaglaðninga í einfalda narratífu með helskemmtilegum hápunktum.

avengers-age-of-ultron-movie-review

Þessi svokallaða Phase 2 sveifla hjá Marvel hefur heppnast örlítið betur en sú fyrri – þótt minni/eða meiriháttar feilsporin og rútínurnar eru yfirleitt þær sömu. En nú höfum við fengið háan afþreyingarstandard með oft fjölbreyttu sniði; hvort sem það er ’90s-leg Shane Black-spennumynd (Iron Man 3), skotheldur samsæris/aksjónþriller (Captain America: The Winter Soldier) eða léttgrilluð geimópera (Guardians of the Galaxy). Fyrir minn pening fellur Avengers: Age of Ultron í skuggann á þeim öllum en tekst að vísu betur að múltítaska eins og hetja heldur en margar aðrar myndir af svipaðri tegund hafa reynt.

Eins og allar (beinar eða óbeinar) framhaldsmyndir kemur Age of Ultron í sannri súper-stærð. Age of Ultron er breiðari, hraðari, flottari, pakkaðri, óðari og endalaust upptekin. Meiri eyðilegging, fleiri ágreiningar, meira Hulk og ábyggilega helmingi hærri brellufjöldi.

hulkbuster

Fyrsta myndin gekk út á það að snara þessum ólíklegu hetjum saman og vinna út einhverja samvinnudýnamík á milli þeirra. Þessi snýst öll um að sjá hvað þarf til að stía þeim í sundur, þó auðvitað fylgir eitthvað af gömlu uppskriftinni með. Með Age of Ultron fær maður tilfinninguna að Whedon er hér að gera algjörlega þá mynd sem hann langaði fyrst til að gera, og í rauninni myndina sem hálfur ferill hans hefur leitt að til að hann geti kafað aðeins dýpra í sína styrkleika. En á sama tíma virkar eins og hann sé of bundinn framleiðslu-módelinu og er þess vegna erfitt að sjá hana sem annað en hina dæmigerðu „brúarmynd“.

Hún vill vera svo miklu, miklu meira en það og eftir allra bestu getu setur hún persónusköpun í forgrunn en hún er bundin við fullmikla kaótík, með alltof marga bolta á lofti til að hún fái að anda betur í litlu mómentunum. Ég gúddera ræmuna feykivel sem meira en fullnægjandi hasar(blaða-veislu-teikni)mynd, en þegar að baki er staðið fer maður óneitanlega að hugsa meira um hvert og hvað áframhaldið verður í stað þess að minnast Age of Ultron eitthvað últra-sérstaklega sem séreiningu. Teinarnir fyrir Civil War eru a.m.k. prýðilega lagðir.

avengers-age-of-ultron-trailer-screengrab-13-chris-hemsworth-chris-evans

Whedon er þó í þeirri þægilegu aðstöðu að það verður aldrei með neinu móti leiðinlegt að fylgjast með kunnuglegum, svölum og viðkunnanlegum ofurhetjum þrasa, slást eða vinna saman. Gullmolamagnið í Age of Ultron skákar ekki fjör-faktor fyrstu myndarinnar en hún er engu að síður troðfull af góðum atriðum eða línum.

Opnunarkaflinn er glansandi snilld – og þar rýkur myndin beint í stóra árás með snarbrjáluðu „óbrotnu“ skoti af hverjum hetjumeðlim að sinna sínu – og allur Hulkbuster parturinn er heil innsigluð ástæða fyrir öllu því sem má elska við svona myndir. Inn á milli eru frábærir sprettir, aðrir volgir og síðan misfyndnir brandarar. Einhvers staðar er þarna grafin inni virkilega góð saga um persónur og gervigreind með áhuga á spurningum um mannlega eðlið. En ofan á það er myndin svo endalaust hlaðin hasar, brellum, kaldhæðni, földum góðgætum til uppfyllinga, smávægilegum fílósófíum og litlum persónuörkum að það næst rétt svo að gefa þessu einhvern taum, en eitthvað verður eðlilega útundan.

Það er líka fljótt skimað yfir nokkra mikilvæga þætti í plottinu. Annaðhvort hefði myndin mátt vera 10-20 mínútum lengri og skipulagðari eða með aðeins meira þor fyrir dekkri nálgun. Ég fékk alltaf þá tilfinningu eins og Whedon vildi dekkja efnið sitt slatta en stöðugi húmorinn hans keyrir kannski upp léttleikann og fantasíugleðinana en kippir oft undan tilsetta dramanu – og hér þá sérstaklega. Það virkaði æðislega seinast fyrir þann tón, en nú er þetta bara eins og hver önnur rútínan þegar allir karakterar hljóma reglulega eins og hinn ofurhnyttni Whedon.

the-avengers-age-of-ultron-jeremy-renner-wallpapers_1662401700

Allir eru mættir aftur; lykilmenn, fastagestir og enn fleiri sem verða mikilvægir í stærri heildinni, og ótrúlega vill til að Hawkeye/Jeremy Renner beri af öllum í grúppunni í þessari lotu, þó Paul Bettany steli algjörlega öllum senum sínum sem langflottasti karakterinn, Vision, sem því miður er alls ekki nóg af. Lengi hefur annars verið kommentað á gagn og tilganginn hjá „gæjanum með bogann“ innan þessara ofurhetjuþursa og handritið spilar vel með það í persónusköpun hans, þó „bakgrunnur“ hans sé örlítið þvingaður í þessu tilfelli („I totally support your avenging!“ – virkilega?).

Scarlett Johansson leyfir opnari, blíðari hliðum sínum að njóta sín og deilir fáeinum áhrifaríkum senum með Mark Ruffalo, sem er eflaust besti leikari hópsins og hefur samtímis ekkert fengið að njóta sín á milli mynda. Engu að síður lætur hann vel um sig fara sem þjáðari Bruce Banner en síðast og aðeins meira heillandi. Hann hefði auðvitað átt að vera löngu búinn að fá sína eigin Hulk-mynd ef Universal-framleiðendur yrðu ekki svona nískir á réttinum á þessum karakter.

Robert Downey Jr. er fyrirsjáanlega frábær en gengur meira eða minna enn í gegnum sömu örk og seinast – og þar seinast. Chris-arnir tveir, Evans og Hemsworth, eru áfram sterkir en fá ekkert brjálað miklu bættu við. Captain America helst að öllu leyti óbreyttur (þó ég gefi honum öll mín harðhausastig fyrir að kasta mótorhjóli!) og plottið finnur sér reglulega ástæður til þess að leyfa Thor að hverfa og gera lítið merkilegt á sínum enda.

‘He’s fast, she’s weird’: AaronTaylor-Johnson and Elizabeth Olsen in Avengers: Age of Ultron.

Elizabeth Olsen og Aaron Taylor-Johnson (persónuleikalausu hjónin úr Godzilla) eru stórfínar viðbætur sem Maximoff-tvíburarnir, Scarlet Witch og (hinn) Quicksilver. Fleira af senum þeirra á milli hefði mikið hjálpað. Þau gera helling og oft sýnd bregðast við einu eða öðru en fá lítið tækifæri til þess að stimpla tengsl þeirra betur og baksögu.

Sem mikill James Spader-unnandi kann ég virkilega að meta nettkröftugu raddsetningu hans á Ultron en Whedon stenst svo innilega ekki mátið að dæla svo mikla kaldhæðni í skúrkinn að maður hefur gaman af honum á meðan erfitt er hægt að taka hann of alvarlega sem ógn, sama hvaða guðakomplexa kvikindið hefur. Að hluta til er það líka tölvudeildinni að þakka. Hönnunin er í lagi en hreyfingarnar (varirnar þá helst) svipa til meðalgóða Transformers-fígúru. Brellurnar í heildina, í sínu títaníska magni, eru góðar en ekkert alltof vel slípaðar á þónokkrum stöðum. Það hefði t.d. alveg mátt taka loka-renderingu á Hulk.

Avengers: Age of Ultron er ofurhetjuafþreying eins og þær gerast bestar og undarlega, í senn, holótt, af og til kjánaleg fantasíurútína með notagildi á pari með góðum ostborgara og léttu meðlæti. Ef við ímyndum okkur að hún hefði leyft sér aðeins meira að segja sína eigin sögu hnitmiðari hefði Ultron getað orðið yfirskyggilega frábær. En eins ábótavant og hún er, og þó við höfum í rauninni séð þetta allt áður, þá er hún allan daginn peningana virði og fínasta tröllaeintak í þessa endalaust rísandi Marvel-kanónu.

thessi

Besta senan:
Rumurinn laus.

Sammála/ósammála?