Babe: Pig in the City

George Miller er einn ruglaður, ævintýralega djarfur sögumaður. Gleymum öllu því í smástund sem hann hefur dundað sér að í sandinum með Mad Max-myndunum eða áróðurskenndu snjósýrunni sem hétu Happy Feet 1 og 2, sem báðar voru smábarnalega flöffí en í senn undarlega dökkar, en splæstu þessu tvennu ekki sérlega vel saman.

Babe: Pig in the City sýnir einna best að mínu mati hvað býr í þessum manni og er ein vanmetnasta, súrasta og fullorðinslegasta „krakkamynd“ allra tíma, auk þess að vera magnaðasta leikna mynd sem til er um talandi dýr. Og fæstar þeirra eru eitthvað til að hrópa húrra fyrir.

untitled1

Reyndar hafa báðar Babe-myndirnar alltaf þótt vera afberandi frábærar fjölskyldumyndir sem taka hreinskilna og hjartahlýja nálgun á eitthvað sem er í rauninni ósköp niðurdrepandi tilvera ólíkra dýra. Sú fyrri hlaut á sínum tíma verðskuldað lof og stórar Óskarstilnefningar, enda með sætt, huggulegt feelgood-gildi, og þó titilpersónan gangi í þessum það stress hálfa myndina að vera mögulega étin eru dekkri skuggar hennar ekki beint sálarskemmandi fyrir yngstu áhorfendur. Hinir fullorðnu sjá snjalla tæklun á alvarleikanum en umfram allt gengur hún sem notaleg lítil beikonvafin perla.

Miller er skarpur gaur, og leggur allt ímyndunarafl í að byggja ofan á forvera sinn og víkka hann út í stað þess að apa eftir honum. Seinast var Miller framleiðandi og annar handritshöfundur en settist svo öruggur í leikstjórastólinn til að tapa sér með peningana, gráu svæðin og hönnunardýrðina.

frame2

Fyrri myndin gerðist í býsna jarðbundinni veröld, ef svo má segja, en hún var yndisleg lítilmagnasaga. Í Pig in the City er stigið alveg til botns með fantasíu/barnabóka-fílinginn og spyr allt annarra hreinskilinna spurninga. Það vantar ekki samfélagsrýni eða kríteríu á manneskjulegt – og vissulega dýrslegt – eðli, aldrei samt matreitt með neinni predikun; bara extrím krúttleika, óforskammarlega ýktri frásögn.

En annað en með hina þá er misjafnt eftir krökkum hvort þeir höndli framhaldið án þess að fá sjokk yfir depurðinni þarna. Miller er þarna mjakandi sér upp úr myrkum þemum með vægðaleysi sem Disney-stúdíóið myndi aldrei nokkurn tímann þora (og hvað þá með mynd sem ber mildasta aldursstimpilinn úti, G – hvernig, veit ég ekki).

mainchimp

Allt það besta við þessa mynd er eitthvað sem maður finnur vanalega aldrei í myndum um talandi dýr. Babe 2 fangar mikla bíótöfra í dós með yfirdrifnu en ljúfu einlægni sinni. Hún er fullorðinslegt barna/dramaævintýri ætlað öllum aldurshópum, en fallegt, fallega ljótt, kjánalega heillandi, bráðskemmtilegt og með huggulegan boðskap sem vonandi skilar sér ef yngstu krakkarnir eru ekki grenjandi.

Miðað við aðsókn og umtalið í denn kemur alls ekki á óvart að fólk hafi tekið misvel í þessa mynd miðað við hvað depurðin og óttinn við t.a.m. allsleysi, solta eða dauða er gegnumgangandi. Til dæmis skulum við ekki gleyma senunni þar sem aðalkarakterinn er eltur af villtum hundi fram að ofþreytu, og þá taka þessi orð við…

[Sögumaður:] „Something broke through the terror – flickerings, fragments of his short life, the random events that delivered him to this, his moment of annihilation. As terror gave way to exhaustion, Babe turned to his attacker, his eyes filled with one simple question: …..Why?“

Förum aðeins yfir fáeina hluti… Hundur drukknar næstum því í nærmynd… á hvolfi, og öðrum, m.a.s. fötluðum er kastað á ferð og gægjist ört inn í hundahimnaríki. Eldur kviknar í miðri trúðasýningu, barnsapi hangir á rafmagnssnúru og sífellt traðkað á vonir persóna. Þessi öfluga tæklun gerir framvinduna óeðlilega spennandi og heildina áhrifaríkari þegar loksins happí endirinn kemur, eða fáeinir pósitífir sprettir inn á milli, áður en allt fer til fjandans stuttu síðar.

Miller beitir þessu vopni af og til, en gerir það svo vel að sagan vinnur tvímælalaust fyrir öllum sjarmanum sínum og glaðlyndum hápunktum. Myndin breytist reglulega í mikilfenglenga „cinematic“ sirkusupplifun. Í lokaþriðjungnum nær teiknimyndandinn hámarki (og með öllum teygjuhoppunum er Miller farinn að minna óspart á þekktustu senuna í Beyond Thunderdome) og hittir á allar réttar nótur í súra fjörinu og undrinu.

Sviðsmyndirnar eru meiriháttar flottar og poppandi. Miller tjúnaði barnsaugað sitt gegnum linsuna (og Andrew Lesnie heitinn (sem var aðaltökumaður á LOTR og Hobbit-myndunum) gerir mörg kraftaverk á þessari kameru) og ég elska ýktu bræðingana, eins og hvernig haugur af frægum mannvirkjum tilheyra öll sömu borginni, svosem Golden Gate-brúin, Eifell-turninn, Hollywood-skiltið, Empire State o.fl.

maxresdefault (1)

Eftir að hafa eignað sér fyrri myndina og fengið Óskarstilnefningu er hent James Cromwell til hliðar, en af undarlega fínni ástæðu, til að gera eitthvað nýtt! Hér er það bóndakonan, sem Magda Szubanski leikur. Hún tekur við að mestu og hræðist þess ekkert að gera sig að viðbjóðslega viðkunnanlegum en aumkunnarverðum aulabárð sem, sökum óbærilegrar ólukku, leyfir skítnum að rigna yfir sig út hálfa söguna.

Magda er frábær og orkumikil, en það eru aðallega fjórfætlingar, önd, simpasar og órangútan sem stela myndinni. Frammistaða sem og þjálfun dýranna er vægast sagt tilkomumikil og sum skotin sem leikstjóranum hefur tekist að ná eru með ólíkindum.

ourhero

Á vissan hátt er ég feginn að þessi mynd floppaði, því annars væri aldrei að vita hve mörgum aukaeintökum framleiðendur hefðu mjólkað úr þessu. Ef skoðað er þessa mynd sem það sem hún er má alveg kalla Babe: Pig in the City fullkomið framhald sem lokar heildarsögunni passlega með sinni framlengingu. Grísinn á samt skilið að halda lífinu í sér áfram fyrir ókomnar kynslóðir og ég skil ekki persónulega af hverju er aldrei meira talað um þessar tvær myndir í dag. Báðar ómetanlegar, en seinni er betri.
brill

Besta senan:
„Sanctuary’s End“ kaflinn.

AÐ LOKUM:
Fyrri myndin er býsna ásættanleg með íslensku tali ef þú ert eldri en 8 ára, en ekki sú seinni! Hjólið í frummálið, takk.

Sammála/ósammála?