Mad Max (1-4)

Óði Óðinn, Geðveiki Eiki, Snorri Snar, Sturlaði Sturla, Brjálaði Brjánn… alveg sama hvað við kjósum að kalla hann á fullkominni, ímyndaðri RÚVsku geta flestir verið sammála um að díselpönk-eftirheimsendabrenglun hafi markað stærstu fótspor sín með honum Max Rockatansky og óttalausa ástralanum George Miller (sem yfirgaf læknisferil fyrir bíógerðina) auk hans teymi.

Það sem hófst fyrst sem oggulítil, hræódýr „Ozploitation“-mynd (sjáið Not Quite Hollywood – núna!) að nafni Mad Max þróaðist svo í dýrari, meira mainstream hasarklassík, The Road Warrior, sem ófáir kvikmyndagerðarmenn og tölvuleikir hafa sótt mikinn innblástur í.

Mad Max sem heild er pjúra bíó og adrenalín með einhverju að segja inn á milli einfaldleikans. Þangað til 2015 hefur „serían“ lengi haldist þríleikur í eigu og umsjón Mel Gibson, áður en Miller sjálfur stuðaði nýju lífi í gamla, sígilda sandpittinn sinn með stórkostlega krúi sínu. Hver mynd er svipuð en með gerólíku sniði; sjálfstæð og ekki háð of sterkum tengingum við forvera sína og er það aðeins upprunalega myndin sem mótar þrívíða persónu úr honum Max. Seinna meir þróaðist Max í myþíska erkitýpu; einfarann, andhetjuna, bjargvættinn, stóíska eilífðartöffarann, ástralska árásaraflið?…

Mad-Max-1979-04
MAD MAX (1979)thessi

Í dag eru margir aspektar við þessa frumraun Millers sem ekki alveg smella, en ég get ekki ímyndað mér hversu öflug upplifun það hefur verið að sjá þessa ryðja sig inn í kúltúrinn á sínum tíma og gefa glænýjan tón fyrir eftirheimsendamyndir, bílastönt og fleira, og sjá þarna Mel Gibson stíga fyrstu skref sín. Gibson er hér aðeins 21 árs og í dúndurfínum gír. Hann er sólid hetja og á nokkur ljúf og róleg móment á milli götuhasarins til að eyða með konu sinni. Max Rockatansky varð endanlega aldrei sami karakter eftir þessa mynd og má segja að hún sé sú svartasta í seríunni. Næstu myndir voru heldur ekki sagðar beint frá hans sjónarhorni. Heimurinn er heldur ekki alveg skroppinn niður í sand enn, en hann er að molna. Frumraunin er meistaralega gerð miðað við fjármagn, töff og glæsilega „trashy“,  vestri.

 

Mad-Max-2-Bloody-Max
THE ROAD WARRIOR/MAD MAX 2 (1981)atta

Meira fjármagn, meiri hraði, meiri geðveiki. Með The Road Warrior ákvað Miller að byggja eitthvað allt annað og brenglaðra úr þeim klikkaða grunni sem hann lagði með Mad Max. Í rúm þrjátíu ár hefur þessi mynd verið réttilega talin ein af hápunktum hasarkvikmyndagerðar. Hún er einföld, einbeitt, með sál, púls, stíl og hér um bil gallalausa keyrslu og það er að frátöldum áhættuatriðunum, expert eltingarleikjunum (sérstaklega í klæmaxinum) og þögla töffaranum í forgrunninum. Ég hef horft á hana svo oft að ég get ekki hætt að taka eftir því hvað himininn er oft í miklu ósamræmi milli sjónarhorna í eltingarleikjunum (veit, ég er fífl), en jafnvel það nær ekki að draga mig úr öllu meiriháttar brjálæðinu og fjörinu sem öllu máli skiptir. Ómetanlegt stykki.

93553
thessiMAD MAX: BEYOND THUNDERDOME (1985)

Dýrara þýðir ekki alltaf betra, en Beyond Thunderdome fékk meira hatur á sig en hún á skilið. Ástæðurnar eru skiljanlegar: hún er PG-13, eftirfari hasarmyndar sem skrifaði sig sjálfa í sögubækur og inniheldur Tinu Turner sem illmenni og krakka sem líta út fyrir að hafa villst af Hook-settinu. Í seinni hlutanum er voðalegur Amblin/Spielberg-bragur á tóninum en það er áður en helflottur eltingaleikur (hvað annað?) bæti allsvakalega upp fyrir óspennandi miðbik. Fyrri hlutinn er sterkastur og þar ber helst að nefna senan í Thunderdome-leikvanganum. Það voru sögusagnir að Miller hafi ekki verið með hjartað alveg í seríunni lengur í ljósi þess að Byron Kennedy, meðframleiðandi hans frá upphafi, lést í þyrluslysi rétt fyrir framleiðslu. Miller deildi þess vegna leikstjóradjobbinu með George Ogilvie. En Beyond Thunderdome er einföld og skemmtileg afþreying sama þótt hún sé sísta myndin af þeim öllum. Hönnunin, Gibson’in, landslagið og furðudýrið með epíska nafnið MasterBlaster gefur þessu mikið krydd.

 

j37ouedonxk5lzjyl8nfwwjicbq470feo8pud2jjjtd9imgfdzyditizzcoz6vubniuMAD MAX: FURY ROAD (2015)

Ég held að, ef þú diggar Mad Max eða góðar, hraðskreiðar hasarmyndir eða kannt að meta það að sjá áhættuleikara og kvikmyndagerðarmenn framkvæma hina sturluðustu hluti á kameru… þá ætti ekki að vera líffræðilegur séns að þú hafir ekki séð Fury Road með galopinn kjaftinn meira en út hálfa lengdina. Miller ekki nema cirka sjötugur og gæti ekki betur komið með demó um hvað það er sem Hollywood-hasarmyndir hafa lengi gert vitlaust, og samtímis sprengt upp allt sem gerði Road Warrior svo geðveika, nema djúsað upp um 500 nautöfl. Einmitt þegar maður hefði haldið að gamli þjarkurinn hefði tapað þessari orku eftir tvær volgar mörgæsateiknimyndir í stað þess að ampa hana svona upp. Ég elska hvað framleiðslan hefur verið útúrplönuð, sparsöm á tölvubrellur og myndin einföld en manísk, skörp, með góð skilaboð, hjarta og karaktermóment og einna mest hvernig hún nær að vera stanslaust á ferð án þess að verða einhæf eða útþynnt. Harkan, adrenalínið, umhverfið, súbtextarnir, Charlize Theron, mótórhjólaömmurnar og barasta allt við Fury Road gerir hana að toppbíói ef sóst er eftir testósterónafþreyingu með femíniskri sál… með langflottasta hasar ársins 2015.

 

Sammála/ósammála?