Mad Max: Fury Road

Vó…

Eitt sem er endalaust pirrandi við flestar nútímahasarmyndir er hversu auðveldlega þú sérð hvað þær munu eldast fljótt illa. Það er takmarkaður áþreifanleiki, tilfinning fyrir þyngdarafli og minni sannfæring þegar t.d. eltingarleikir í flestum tilfellum skotnir innandyra og fyrir framan græn tjöld. Á einmitt tímum þegar þar sem maður dáist þvílíkt að og verður samtímis ónæmur fyrir vinnunni sem fleiri hundruð tölvusnillingar leggja í smáatriði á útúrtroðnum pixlarömmum í hasarmyndum gæti þessi skepna, Mad Max: Fury Road, ekki brunað inn á betri stundu. Hún er allt það sem hasarmyndir í dag eru vanalega ekki.

Það er næstum því skammarlegt en samt svo tignarlegt að sjá hinn sjötuga George Miller, endalaust óttalausan og oft ruglaðan fagmann, sýna kvikmyndagerðarmönnum og áhorfendum í eitt skipti fyrir öll – árið 2015, með mikla stúdíópeninga – hvernig best skal gera stanslausa, vægast sagt tilkomumikla hasarveislu sem hittir á allar hörðu nótur og býður upp á einfalda en spennandi sögu með nokkrum súbtextum í þokkabót.

Miller er grínlaust maðurinn sem hér um bil fann upp á þessari rokkuðu heimsendar- og áhættubrenglun, ef við miðum t.d. aðeins við það hvað The Road Warrior (oftast og réttlætanlega talin ein besta ræma sinnar tegundar) hefur markað spor sín vel í kvikmyndasögunni og haft áhrif á kynslóðirnar fyrir neðan sig.

FURYROAD

Eftir þrjátíu ára fjarveru stendur Mad Max enn fyllilega undir nafni. Magnað er að sjá skaparann Miller sjálfan slíta sig frá súrum, syngjandi mörgæsum og skella sér aftur í sandinn þar sem sköpunargleði gamlingjans er orðin túrbóhlaðin í miðjum tólfta gír… og á hestasterum! Allt í tilraun til þess að toppa sjálfan sig og byggja á það sem hann áður lagði blóð, hitasvita og tár í. Sem… tókst.

Ég hef alltaf verið hrifinn af gömlu Mad Max-þrennunni og kannski með betra þol fyrir Beyond Thunderdome en flestir. Fyrir utan hræódýru, költuðu frummyndina hefur Miller í rauninni þrisvar sinnum gert núna sömu myndina, í einu formi eða öðru, bara með gjörbreyttum tón, sniði, fjármagni og skilaboðum (sú fyrsta einbeitti sér að tengslum Max við eiginkonu sína, nr. 2 fjallaði um einstaklinga og samfélög og sú þriðja um börn. Fury Road hefur kærkominn og harðan stans á jafngildi kynjanna í sinni sögu).

Fury Road stendur alveg á eigin fótum án þess að nokkur þurfi að þekkja til trílógíunnar, en hún er samt hér um bil fordæmislaus úrvinnsla á hvernig blanda af sjálfstæðu framhaldi og ríbútti getur smollið glæsilega saman. Þetta er virðingafull uppfærsla en uppfærsla í öllum skilningi sem neitar að halla sér aftur og leyfa tölvubrellum að hljóta allt fjörið. Og með fullri virðingu fyrir góðri pixladýrð er það bara svo margfalt betra að sjá allt í kameru auk margra snargeðveikra áhættumanna hætta lífi sínu á filmu. Það ná ekki einu sinni sjö Fast & Furious myndir samanlagðar að jafna adrenalínið, kjálkadeyfandi sturlunina og praktísku fagmennskuna og er í einni Fury Road. Og hér eru tölvubrellur notaðar sem aukapunt, oftast í bakgrunni.

FURY ROAD

Tom Hardy er flottur Max. Fyrirsjáanlega er lurkurinn með villidýrið á hreinu en einnig viðkunnanlegan sjarma í augunum sem leyfa sálinni hans að skína í gegn, og bætir að mörgu leyti upp fyrir það að Hardy virðist ekki alveg vera með tök á því hvaða hreim hann hefur tileinkað sér. Samanburður við Gibson’inn gamla er kannski ekki sanngjarn en óumflýjanlegur. Hardy hefur ekki alveg þetta sama karisma og Mel bjó yfir á bestu dögum sínum en selur karakterinn og meira, fámáll og í toppformi.

Enn betri er annars vegar Charlize Theron sem baráttukvendið Furiosa, þegar orðin að einni eftirminnilegustu persónu seríunnar. Harðhaus á eigin spýtum auk þess hvað samband hennar við Max kemur þrælskemmilega út, og lítið en nóg er gert úr því hvernig þau tengjast í gegnum sameiginleg markmið að syndaaflausnum. Eins nær Nicholas Hoult nær að skilja slatta eftir sig sem krúttlegur stríðsgutti sem upplifir veröld sína hringsnúast þegar hann dregur tilgang sinn og trú sína í efa. Nýsjálendingurinn Hugh Keays-Byrne, sem lék kvikindið Toecutter í fyrstu myndinni, er kvikindislega flottur hérna sem gamall fasistaviðbjóður að nafni Immortan Joe. Yfirdrifinn, ljótur og kjánalegur með besta hætti – æðislegur skúrkur.

FURY ROAD

Þegar upp er staðið er það þó tvímælalaust Miller sem aðalstjarna Fury Road og stýrir hann þessari manísku eyðileggingarríku dómsdagsorkestru eins og fátt sé manninum eðlilegra á þessum aldri. Settin, hönnunin (hvort sem þar varða dýnamískar tryllitækjahannanir, búninga eða litaskemað í andrúmsloftinu), tónlistin, myndatakan, klippingin, þar ekki síður samsetningin og hraðinn sem passar ávallt upp á það að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir öllum radíusi og skilji hvað er í gangi allan tímann (ath. samt – myndin er mun flottari í 2D). Stabíl myndavél í svona mikilli keyrslu er allt annað en sjálfsagður hlutur en afi allra díselpönk-eltingarleikja þarf vissulega enga kennslu um það.

Sem hreinræktuð hasarmynd er þessi mynd næstum gallalaus. Hún er ekki og þarf ekki að vera djúp eða ýtarlega lagskipt en hún er dýnamískt töff, agressív og á kafi í litlum trúarádeilum, allegoríum, undirtónum og samfélagskrítík og eru helstu persónur strípaðar niður í sín skepnulegustu grunneðli: drepa, lifa af, rotna að innan eða hanga á hinni smæstu von. Menn þarna og konur eru heppnar ef þeir sitja uppi með tvennt af þessu.

FURY ROAD

U.þ.b. 80% af myndinni er bókstaflega á ferð en samt er hún svo margt meira en bara linnulaus, stílíseraður eltingaleikur með nokkrum stoppum sökum þess að hafa masterað einbeitta og effektíva leið til þess að þróa plottið sitt og fáein mikilvæg persónumóment með hasarnum. Beinþunn saga en afhjúpast skemmtilega í gegnum kaótíkina. Leikstjórinn er allavega nógu skarpur til að gæta að fjölbreytni svo urrið í vélunum, dekkjaspólið í sandinum og dauðastökkin síist ekki í eina minningu. Smærri atriðin eru að auki oft þau sterkustu.

Fury Road er, frá byrjun til enda, hreint MEIRIHÁTTAR kvikmyndagerð, ein af örfáum stóru hasarmyndum síðastliðinna ára sem á tímalausan séns á löngu lífi framundan. Aksjón-fíklar sem vilja smávegis auka finna sér varla betri, pjúra afþreyingarupplifun á öllu árinu.

brill

Besta senan:
Eltingarleikurinn…

Sammála/ósammála?