Bakk

Hérna er klárlega eitthvað sem við ættum að geta selt til útlanda; íslensk, aðgengileg bíómynd sem hefur fullkomna afsökun til þess að troða landskynningunni í ekki bara aðal-, heldur hér um bil burðarhlutverk svo náttúrudýrðin njóti sín í ræmur í stórum víðskotum (og þá með betri afsökun en Land Ho, en ekki eins góð lokavara). Auk þess að vera hin ofsa dæmigerða vegamynd, og hálfamerísk í dulbúningi, nema gædd þeim vinkli að lykilpersónurnar eru í bakkgír allan tímann – og hafa meira en nægan tíma til að fara yfir issjúin sín á meðan.

Í þessari ferðasögu um tvo æskuvini er þægilega haldið öllu einföldu og vafrar myndin á milli þess að vera hálfbakaður farsi og dramedía með persónur sínar í aðalfókus. Bakk er reyndar aðeins of föst í mistrúverðugum grínaðstæðum til þess að karaktersköpunin smelli alveg og átökin nái einhverjum hæðum. Þær hefðu mátt betur anda og fara minna eftir númerum en kemistría leikaranna og þroskasagan almennt hefur óneitanlega léttan sjarma í sér, ef sjarma skildi kalla. Ef ekki þá meðalhuggulegt notagildi.

bakk7

Leikarinn Gunnar Hansson skrifar, leikur aðalhlutverkið og leikstýrir með Mystery-framleiðandanum Davíð Óskari Ólafssyni (hann framleiddi meðal annars hina rokkandi fínu Málmhaus). Tæknivinnsla og umgjörð er í ágætisstandi og tónninn sleppur en handritið er stráð ýmsum pínlegum plott-gangverkum þar sem aðstæður og frásagnapunktar missa mikið sannfæringagildi. Þar stígur inn þessi lúmski og á tíðum týndi farsi og að auki ein hryllilega bjánaleg slagsmálasena.

Húmorinn má vera volgur en Bakk finnur fótfestu í manneskjulegum væb og bestu punktarnir eru gjarnan þegar lykilmennirnir tveir detta í sínar kammó samræður. Gunnar er prýðilegur sem sjálfhverfur, ýtinn, hálftilgerðarlegur og pirrandi leikari sem syndir í skuldum og dregur gamlan æskuvin sinn með sér á asnaeyrum til að leggja bakka hringinn í kringum landið. Tilgangurinn? Að slá gamalt (meint) heimsnet í leit að frægð. Víkingur Kristjáns er án efa bestur á skjánum í hlutverki meðvirka og heldur krúttlega félaga hans. Viðkunnanleg týpa og helst semi-athyglisverður fókus á hvernig og hvers vegna félagarnir hafa breyst gegnum árin og fjarlægst svona mikið (þó „tvistið“ hafi kannski verið aðeins of mikið).

FURY ROAD

Allar persónur eru, á einn hátt eða annan, á leið til sjálfsuppgötvunnar en Saga Garðarsdóttir bætist svo við ferðalagið og kemur meira út eins og uppfylling í handritinu frekar en þrívíð persóna. Saga er einmitt orkusprautan sem myndin þarf á að halda en persóna hennar fær lítið sem ekkert að gera og beinþunnan prófíl. Aukaleikarar skreyta mátulega vel til en sumir eins og stignir upp úr bla-fyndnum sketsum.

Bakk er glettið, sumarlegt og notalegt léttmeti með notalegum boðskap (cirka svohljóðandi: „Ekki vera skíthæll, ókei?“). Ef hún virkar ekki best í fullum sal má ímynda sér viðeigandi dósahlátur sum staðar. Arkirnar gerast ekki útreiknanlegri (lokasenan er m.a.s. kortlögð óbeint fyrir okkur tiltölulega snemma) en fyrirsjáanlegt þarf ekki alltaf að vera alslæmt akkeri. Ágætt flæði, nokkrir fílgúdd-straumar og sólid Víkingur bætir það að mestu upp. Vantaði samt miklu meiri Sögu.

fin

Besta senan:
Blaðamannafundurinn.

Sammála/ósammála?