San Andreas

Epískir jarðskjálftar, byggingarrústir, flóðbylgjur, fljúgandi gámar, brjálaðar vegalengdir, bensínleysi, öfgaklisjur, náttúrulögmál… Hann Dwayne „Steini“ Johnson lætur svo innilega ekkert stoppa sig þegar kallað er á hann í stórslysamynd sem virðist hafa tileinkað sér það besta og versta frá mönnum eins og Roland Emmerich og Michael Bay, Roland sérstaklega.

San_Andreas

Sem þéttpakkað, stafrænt, fótó-raunverulegt eyðileggingarklám er eitthvað af hinu góða en lítið sem fær almennilegt rými til þess að gera nógu góða eða skemmtilega upplifun þegar afgangurinn tekur sig alltof alvarlega og vaxandi bjánaleikinn í handritinu stangast oft á við spennuuppbygginguna. Ég vil helst síður gera lógík-kröfur til mynda eins og San Andreas en þegar minn maður Johnson er farinn að sigla upp mikilfenglega öldu á meðan hann smeygir sér framhjá flutningaskipi (á meðan gámar í hundruðatali skjótast út í allar áttir!) með sultuslakan svip er það nokkuð gefið að ekki stakasti áhorfandi mun nokkurn tímann óttast um líf hans eða þeirra í kringum hann.

Öll myndin er rússíbani með ranghugmyndur um að persónudramað haldi einhverju flugi. Þetta er álíka einfalt og beinskeytt markmið og hjá seinustu mynd eftir sama leikstjóra, Journey 2 the Mysterious Island. Þar fengum við einnig Dwayne, fullt, fullt af auðséð tölvugerðum ævintýraatriðum og persónur á samskonar merkisstalli og hundasúrur, og við höfðum séð þetta allt áður. Nema hvað, sú mynd bauð okkur a.m.k. upp á það að sjá aðaltöffarann skoppa berjum af dansandi brjóskassa sínum í miðri ræðu um hvernig á að heilla skvísur… Ógleymanleg sena, ein sem San Andreas nær barasta aldrei að toppa, né leikstjórinn.

En tölvudeildin hefur prýðilega unnið fyrir sínu kaupi, sem og Paul Giamatti í hlutverki þar sem hann gerir ekkert nema að stafa út ástandið og hvað kemur næst. En hann hefur alltaf einhverju við að bæta, ef ekki bara smávegis.

o-SAN-ANDREAS-TRAILER-facebook

Það kemst nokkuð fljótt til skila að ef að þú ert ein/n af aðalpersónum í þessari mynd ert þú meira eða minna bara með frípassa út alla myndina til að lifa af hinn langsóttasta fjanda, á meðan allir hinir ómerkilegu í kringum þig breytast í náttúrufóður. Johnson reynir að bæta meiri dramaþyngd á sig, þar á meðal í heilli senu þar sem hann fær að létta af sér og hella sig aðeins út, en með mislukkuðum árangri. Hann og hver önnur flöt persónan á eftir annarri stekkur úr einni lífshættulegri aðstæðu yfir í þá næstu með slíkri sjokkerandi heppni sem myndi rétt svo yfirgangast í tölvuleikjum.

Myndin væri lítið sem ekkert án stælta, heillandi aðalmannsins. Öðrum hefði allt eins mátt skipta út en enginn er beinlínis slæmur fyrir utan tvo breska bræður sem selja ekki með neinu móti hryllinginn sem á sér stað í kringum þá. Carla Gugino lítur vel út og Alexandra Daddario (úr Percy Jackson og True Detective) líka, stingandi bláu manga-augum hennar að þakka.

alexandra-daddario-san-andreas

Vissulega er munur að sjá aðeins raunsærri tæklun á náttúruaflinu sjálfu en á tímum þegar eyðileggingar stórborga eru bókstaflega við hvert horn í þriðju hverri Hollywood-mynd er lítið sem San Andreas gerir til að standa upp úr. Óafsakanlega ameríska fánagælunin hennar í lokin er líka eitthvað sem gefur eftirbragði allra klisjanna en verra eftirbragð. Ég hef aldrei verið sérlega hrifinn af Roland Emmerich persónulega en jafnvel títanísk skítabomba eins og 2012 faðmaði kjánaskapnum betur að sér og skilaði af sér alveg ruglaðri brellusýningu með einhverju nýju (en langdregnu…).

Fyrir svona mynd vil ég helst geta bara slökkt á allri heilastarfssemi og helst gleyma eigin nafni. San Andreas hefði getað farið alla leið í hallærisleika sínum eða bakkað aftur og prufað að leggja meira í fólkið, tengsl þeirra og aðstæðurnar þar í kringum. Að reyna að jafna út hvort tveggja krefst hæfileika sem fáir aðstandendur hér hafa tök á að mastera, svo annaðhvort er best að njóta hávaðans og hlæja innra með sér að myndinni eða bíða þangað til þú getur hraðspólað í gegnum „dramað“. Og þegar er býsna takmarkað notagildi í báðum möguleikunum, en stæltur, áhugasamur Johnson í einbeittum fíling er svosem betri en enginn.

maxresdefault

Myndi klárlega borga mig inná framhaldið ef það héti Yellowstone.

fimm

Besta senan:
Tsunami-stríðsmaðurinn!

Sammála/ósammála?