Spy

Þessa mynd hafa allir séð áður, örugglega oft. En skiptu út leikurunum og einhverjum bröndurum og taktu svo stöðuna eftir það hvort þetta sé að þínu skapi eða ekki.

Góðu fréttirnar við Spy eru þær að Melissa McCarthy fær aðeins meira gaman að gera en að gera endalaust grín á eigin kostnað (en í staðinn sjá flestir aðrir um það fyrir hana). Vondu fréttirnar eru að allt frá innihaldi til teygðra, þreyttra þvaðurssena býr ekki yfir meiri ferskleika heldur en ótakmarkað frumlegi titill myndarinnar. Og verstu fréttirnar eru að myndin er góðum hálftíma alltof löng.

Ég veit ekki alveg hverjum þótti það sniðug hugmynd að gefa Paul Feig lyklanna að komandi Ghostbusters-endurhleðslunni. Myndirnar hans hafa oftast skautað hjá útaf fyndnu handriti eða spunasamspili húmorista. En Feig, eins kátur og hann er og eins ósjálfrátt hann fer að því að standast Bechdel-prófið í hverri sveiflu, hefur eitthvað hjálpað en oft orðið myndum sínum að mismiklu falli. Hann veit oft ekki hvenær á að stoppa (enda góðvinur Apatow, kemur á óvart…) og er oft alveg hryllilegur með flæðabyggingu.

spy-1

Bridesmaids var undantekning því handritið ríghélt betur, en það stoppaði leikstjórann ekki frá því að teygja alls staðar á lopanum sem hann gat. The Heat lenti líka oft í þessu og náði aldrei nokkurn tímann fullkomnu flugi en hélt þó smádampi útaf stelpunum á skjánum. Spy er hingað til hans sísta mynd, en jafnframt sú flippaðasta. Hún hefur marga fína leikara að vopni en þarf að læra að herða á lokaklippinu sínu. Einnig hefur hann voða máttlaust auga þegar kemur að góðri hasarsamsetningu, þegar þörf er á henni. Slagsmála-koríógraffið sleppur en vanalega er þetta illa skotið og vandvirknislega klippt. Og slómó’ið hættir ekki!

McCarthy er sín eigin sértýpa af húmor. Á góðum degi frábær en oft rakkar sig niður yfir á hættusvæði Paul Blart-ismans. Í Bridesmaids var hún sérlega ógleymanleg, ekki bara því hún var „feita vinkonan sem skeit í vaskinn,“ heldur kom með henni óvæginn og flippaður karakter sem skorti ekki sjálfstraust í eina sekúndu. Í Spy er hún sem betur fer engin Tammy, en hún hefur úr litlu að moða á örlátum tíma. Hún er annaðhvort óöruggur ærslabelgur sem lætur hvert einasta viðrini í kringum sig vaða yfir sig eða síblótandi ærslabelgur (Feig er greinilega hlynntur þeirri reglu að því meira sem þú æpir út fokkíngs meinyrðum, því fyndnara verður það…). McCarthy er brosleg og með mikla útgeislun og það styður mest við hana þegar brandarar eru fyrirsjáanlegir eða síendurteknir. Sama segi ég um, sem leikur samstarfskonu hennar. Skemmtileg týpa, of mikið af því sama.

Melissa McCarthy and Jason Statham in a scene from the motion picture

Ef þú ert ekki farin/n að iða í sæti þínu úr hlátri eftir fyrri helminginn er lítið sem hinn seinni gerir til að bjarga því. Djókarnir skipta öllu máli. Plottið er uppfylling, „persónusköpunin“ líka og nákvæmlega allt annað. En að frátöldum Jason Statham (sem hittir beint í mark með því einu að vera eins og beint stiginn úr sinni eigin hasarmynd) og óborganlega „ítölskum“ Pete Serafinowicz er lítið af meðmælum sem ég finn til að sturta þessari mynd. Rose Byrne er við það að vera einnóta og óþolandi (allt sem hún var t.d. ekki í Neighbors) og það mesta sem Jude Law tekur á sig er að berjast við að viðhalda amerískum hreimi (??).

Spy er annars undarlega og reyndar yndislega brútal í ofbeldinu. Fyrir vikið hlýtur hún aðeins meira bit en gerir ekkert margt sérlega fyndið við það annað en að notfæra sér það sem sama sjokk-vopn og orðbragðið. McCarthy heldur annars ágætlega í flugi í mynd sem býr yfir mikilli fitu, flippi og attitjúdi, en það er Ítalinn og Stattarinn sem koma sterkast út úr farsanum. Ég bjóst seint við að nota þessi orð en ég mæli miklu frekar með The Heat.

fimm

Besta senan:
Hver einasta „reynslusaga“ Stattarans.

Sammála/ósammála?