Tomorrowland

Brad Bird hefur lengi verið merki um skarpan áreiðanleika, og óumdeilanlega með frábært framtíðarlegt retró-auga. Fyrir utan það að hafa gefið út tvær af æðislegri teiknimyndum seinustu áraraða (The Iron Giant og The Incredibles) hefur flutningur hans í leikna geirann gengið meira en ágætlega (eins og ein fantagóð Mission: Impossible mynd frá honum sýndi) og haldið ferlinum áfram flekklausum. Ekki lengur.

Í Tomorrowland eru einhver brot af þeim Bird sem maður þekkir og elskar en mestöll víbrandi snilligáfa hans hefur greinilega þurft að víkja fyrir latri handritsgerð – sem morar í þversögnum, „Lindelof-ískum“ holum – auk púðurslausri samantekt og sögu. Frekar máttlaus mynd almennt, en þó stílískari og með hreinna, einlægara hjarta en Disney-stórmyndir á sumartíma eru orðnar oftast. Þess vegna er fúlt að sjá hana hrasa svona.

tomorrowland06

Skilaboðin eru æpandi, en jákvæð. Tomorrowland er svo þægilega and-svartsýn, björt í anda og velviljug í hugsjónum og umræðum um betri gildi og hugarfarsbreytingu, og fyrir það eitt má mikið dást að henni. Hins vegar eru til takmörk fyrir því þegar þau þemu eru rétt meðhöndluð og hvenær handritið kastar upp þvinguðum spakmælum. Í þessari mynd, kannski betur lýst sem viðvörunarsögu, er minna verið að predika og meira verið að lemja skilaboðunum í hausinn á þér með hörðum, upprúlluðum bæklingi sem er uppfullur af höfundarréttarvarðri predikun frá Disney!

Þetta er tilkomumikil lítil – en samt rándýr – ævintýramynd en fyrir sögu sem gengur öll út á ímyndunarafl, undur og frumlega hugsun er hún furðu uppiskroppa á öllu slíku. Ég kenni líka hinum ávallt áhugasama en meingallaða handritshöfundi Damon Lindelof um að detta í sínar föstu gryfjur og toga annars forvitnilega og metnaðarfulla heild með sér niður.

tomorrowland01

Fullmikið af því sem Lindelof hefur verið með fingraför sín á einkennist af fínum hugmyndum en spyr hann alltaf fleiri spurningar heldur en hann hefur áhuga að svara – og ekki á góðan, mátulega mystískan máta, heldur bara skrifar hann sig út í horn og saltar gjarnan út aulalegum söguhnýtingum eða ákvörðunatökum hjá persónum sem halda bara engan veginn vatni. Sjá Prometheus, World War Z, Cowboys & Aliens o.fl. Kannski er þess vegna best að horfa á Tomorrowland með slökktan heilann, þá er hann enn í hættu að sofna úr leiðindum þegar kennslustundin krefst fullrar athygli hans.

Sögustrúktúrinn er skemmtilega öðruvísi í fyrstu en svo leysist framvindan bara upp í leiðindatöf sem leiða að ófullnægjandi og klúðurslega skrifuðum lokakafla og endi. Myndin dregst alveg verulega á langinn og þó talsverðan sjarma sé að finna í leikurunum (Brit Robertson sérstaklega í aðalhlutverkinu, hún er æði), sviðsmyndunum, tæknivinnslunni, músíkinni og gullfallegu hönnuninni þá eru persónutöfrar ekki þar á meðal. Samræðurnar verða fullstífar og gervilegar til þess að mynda réttu hlýjuna (Bird er enn að læra á alvöru fólk og drama sýnist mér. Munið þið eftir lokasenunum hryllilegu í Ghost Protocol?).

tomorrowland01

George Clooney er annars fínn fýlupúki sem á að vera staðgengill bitru áhorfendanna í salnum. Karakter Clooneys gerðist svo óheppinn að hafa verið sparkað úr Framtíðarlandinu svokallaða á yngri árum og byggjast eðlilega frústrasjónir hans í kringum það að fá ekki að eyða meiri tíma þar. Fyrir mitt leyti, í ljósi þess hvað frásögnin er þegar mikil óreiða, er ég sammála Clooney því fyrir mig sem bíóáhorfenda hefði alveg verið vel þegið að fá miklu meira en kannski samanlagt korter af titilheiminum sem felur alla þessa drauma og sköpunargleði í sér. Við stoppum smá við í byrjun, svo koma einhverjar glefsur en þegar loksins er aftur fáum við aðallega bara fleira exposition, stuttan hasar, melódrama og Hugh Laurie að yfirtaka allt í hlutverki stærsta fýlupúka myndarinnar, vísandi á það að draumaheimur Disneys er kannski ekki svo fullkominn.

Myndin þykir mér of viðburðarlítil og fullorðinsleg fyrir krakka en barnalega einfaldaður fyrirlestur fyrir hina eldri með votti af einhverjum töfrum. Það hlýtur að vera til góð mynd þarna einhvers staðar í Tomorrowland, en ég skil bara ekki hvernig vermiðinn á þessum tiltekna afrakstri sló upp í 200 milljónir. Í hvað fór þessi peningur?!

fjarki
Besta senan:
Árásin á húsið. Hvílíkar undralausnir sem Goggi hafði reddað sér!

Sammála/ósammála?