Hrútar

þegar Grímur Hákonarson sendi frá sér Sumarlandið, sína fyrstu bíómynd í fullri lengd árið 2010, þótti mér ekki alveg glitta nóg í fagmanninn sem stóð m.a. að stuttmyndinni Bræðrabyltu, sem var meiriháttar. Sem önnur kvikmynd Gríms er Hrútar allt annar handleggur, og sýnir ekki einungis fram að hann sé fljótt þotinn í hóp okkar bestu, heldur spilar hann svo yndislega með þann einfalda efnivið sem hann hefur, með hjálp tveggja ómótstæðilegra gamalmanna, eiginlega betur en ég hef séð íslenskar bíómyndir gera eða reyna að gera í áraraðir.

Hrútar er einlæg og vönduð lítil perla sem tekur dásamlega ferskan vinkil á þrennt sem hefur lítið vantað í okkar kvikmyndagerð: íslenska eymd, fjölskyldudrama og sveit í burðarhlutverki. Innihaldið getur hljómað grátlega óspennandi en það hversu áhugaverð framvindan verður segir til um að leikstjórinn gæti hafa verðskuldað þessar styttur sem hann hefur fengið erlendis fyrir myndina.

Sagan segir af tveimur öldruðum sauðbændum, Gumma og Kidda, sem búa við hliðina á hvor öðrum en hafa ekki talast í 40 ár, og bætir það aðeins gráu ofan á svart í tilveruna að vera fyrst og fremst bræður, og einbúar að auki en með órjúfanlega umhyggju fyrir búfénaðinum. Ef einhvern tímann yrði tekið upp á því að endurgera þessa mynd er glatað að titillinn Grumpy Old Men skuli vera frátekinn, en þar á móti er ekki hægt að gera þessa mynd annars staðar en hér miðað við hvað rætur hennar, landslagsskraut og áferð gefur henni allan sinn karakter (sem er að auki kredit til þess hvað Bárðardalurinn nýtist vel). Í orðsins fyllstu merkingu er þetta „Íslensk“ kvikmynd, og með okkar betri.

fr_20150527_016297

Siggi Sigurjóns dekkar næstum því hverja einustu senu, þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni hins undirgefna og hægláta Gumma, og sinnir hann rullunni með lágstemmdum, layeruðum glæsibrag. Teddi Júl er einnig mikill meistari þegar hann er kominn í klæðskerasniðið hlutverk, og hér smellpassar hann sem háværri og fýldari bróðirinn Kiddi, með minna til að spila með miðað við Sigga en ekkert auðveldara fyrir það því lengra sem á líður. Eðli sögunnar og sultuslaka frásögnin býður ekki upp á mikið „samspil“ á milli þeirra, en góðir eru þeir oft saman í senum, en í sameiningu eiga þeir hana.

Hvert augnaráð leikara kemur einhverju til skila og nýtast þau sem innri mónólógur karaktera oft, enda fámál en kuldalega afslöppuð saga um akkúrat tengingarleysi, biturleika og þrjósku. Fínum húmor er sömuleiðis þarna skemmtilega laumað inn en ekkert í líkingu við t.d. hvernig Dagur Kári eða Hafsteinn Gunnar hafa verið að tækla sínar dramedíur, með hálfgerðum „sketsadíalog“ söltuðum inn. Húmorinn kemur hér allur frá karakterunum og tónninn léttur en tragískur. Skiptingin gengur almennt vel en í örfáum tilfellum ekki.

RAMS04

Frásögnin er góð en innihaldið ekkert sérlega marglaga, í rauninni svo mikil beinagrind að myndin hefði alls ekki mátt vera mínútu lengri. Þegar að persónusköpuninni kemur sér myndmálið oft um að segja meira en fjöldi orða og leikstjórinn valdi þar að auki hárréttan stað til að slútta sögunni. Grímur segir aldrei meira en þarf og afhjúpar mikilvægum upplýsingum hægt og rólega á organískan máta auk þess að fletta þétt og mátulega af „plottinu“.

Grímur notar lágstemmda músík en stór, breið skot til að sýna umhverfið sem innsiglar þessa viðburðarlitlu en huggulegu míkróveröld sem bræðurnir búa í. Félagsleg samskipti eru takmörkuð og myndin fer m.a.s. sparlega með aukapersónur sínar en nýtir þær vel eftir þörfum. Aukaleikararnir eru ekki heldur allir sérlega sannfærandi (upp í hugann kemur eitt ungmenni og ein lögga), en Gunnar „Fúsi“ Jóns, Sveinn Ólafur og Charlotte Bøving koma reyndar sterk inn og eru hvað eftirminnilegust.

Hrútar er svosem ekki allra, allra síst það fyrsta sem ég myndi mæla með fyrir yngstu kynslóðirnar í bylgjum. Hún er heldur ekki beinlínis að fljúga með frumlegan efnivið í nýjar áttir frekar en bara að einbeita sér sterkt að því litla sem hún hefur, og af mikilli sál. Tæknilega vel unnin, klisjulaus og að mestu tilgerðarlaus. Myndin er eiginlega skylduáhorf fyrir bændur og ekki síður alla sem kunna að meta notalega góðar, hægfara sögur með nef fyrir góðum smáatriðum í frásögninni og leikaratvennu sem gæða henni allt sitt jarmandi líf.

atta

Besta senan:
Jól í bæ.

Sammála/ósammála?