Jurassic World

Jurassic World vill að þú lítir á sig sem framhald (og meira en það, „rétta“ framhaldið) frekar en endurræsingu. En fyrir utan sterkar rætur og vissar sögutengingar við íkonísku frummynd Spielbergs finnst mér þessi svo óheflað háð sinni eigin nostalgíu að hún leysist bara upp í óbeina endurgerð, og leikur sér dátt með þann lága standard sem þurfti til að gera eitthvað betra en seinustu tvær gerðu. Og merkilegt nokk, hún er skásta viðbótarmyndin!

Ef áhorfandinn setur væntingar langt niður ætti hann að vera í fínum málum. Það hjálpar að slökkva helst tvisvar á heilanum til að geta notið hennar. Hundgamlar klisjur, aulalegar „lausnir“, gapandi holur, þetta er allt hér! – eins og gjarnan fylgir skepnuveislu af svona tegund, en þetta eru nákvæmlega þættir sem Spielberg tókst að yfirstíga þegar hann bætti við sínum heilmiklu bíótöfrum, og sinnti betur léttum pælingum um að leika Guð og persónum sem sýndu mikinn lit.

jurassicworld-movie-trailer-screencap-23

Jurassic World er skemmtileg kommentería á sig sjálfa, og það er eins og skilaboð myndarinnar séu á móti tilvist hennar. Framleiðendur, rétt eins og vísindamennirnir og viðskiptakóngarnir í Júraheiminum, hafa enn ekkert mikið meira lært af mistökum fortíðinnar með þessa seríu: endurtekningar. Til þess að henta sögunni er látið nú eins og seinustu tvær myndir hafi bara aldrei gerst. „Garðurinn“ er nú opinn, og hefur verið um eitthvert skeið, og allt plottið er byggt í kringum það að áhorfendur eru orðnir þreyttir á því gamla og vilja eitthvað nýtt, svalara og grimmara. Allt fullkomlega lógískt og eðlilegt við það, og margar nýju kynslóðir krakka sem uppgötva Jurassic Park í dag sjá hana kannski ekki alveg sem það magnaðasta í heimi eins og margir gerðu á sínum tíma.

Aðstandendur Júraheimsins vilja koma sölutölum aftur upp með því að kokka upp nördagleðjandi ofureðlu, Indominous Rex, sem gerir allt sem söguþráðurinn ætlast til af henni – en það á við um allar (Svo… T-Rex eðlan gat jafnað jeppa auðveldlega í hraða áður en nú ekki eina skvísu í hælaskóm?). Að sjálfsögðu er mjög mikið af hátt settu fólki sem endurtekur gömul mistök og taka hinar óskiljanlegustu ákvarðanir.

Gæja eins og Jeff Goldblum er sárlega saknað hér. Dr. Malcolm hefði aldrei stutt þetta prógramm (og Grant ekki heldur, ef út í þá umræðu er farið). Merku og frábæru orð hans kvóta sig sjálf – þ.e.a.s. þetta snýst ekki um hvort þetta sé hægt (að endurræsa þessu), heldur hvort þetta sé sniðugt. Miklum peningum hefur verið kastað í Jurassic World til að djúsa upp rússíbanareiðina og risaeðluhasarinn en ímyndunarafl og handrit er henni algjört aukaatriði. Það biður enginn um fyrirtaks persónusköpun, en stílískari persónuleiki er annað atriði, og að elta gamla skugga sinn svona mikið er hreinlega vandamál. Að minnsta kosti mega spons-aðilarnir eiga það að hafa landað góðum dílum því hér er enginn skortur á úthugsuðum staðsetningum vörumerkja.

owen-claire-jurassicworld

Ég vil gefa leikurunum það að þeir ná flestir hér að gera eitthvað semí-eftirminnilegt úr hlutverkum sem eru nánast ekkert. Þetta er breitt úrval af einvíðum og klisjukenndum persónum, mönnum eins og Vincent D’Onofrio, Omar Sy og jafnvel húmoristanum Jake Johnson (sem óbeint talar fyrir hönd svartsýnu áhorfendanna) er býsna sóað en þeir halda sér engu að síður í fókuseruðum gír. Irrfan Khan og B.D. Wong (eini aðilinn úr fyrstu sem hefur fengið að snúa aftur) voru annars vegar traustir og eiga eina bestu senuna saman þar sem þeir þrasa um (óhjákvæmilegu) afleiðingar þess að búa til stórhættulegu súpereðluna, sem fyrir minn smekk er aðeins of fullkomið kvikindi og hönnunin aldrei gera henni einhver frábær skil.

Chris Pratt rís áfram hratt upp, og af ástæðu, hann er skemmtilegur. Hefði hann ekki strokað núna Jurassic Park-mynd af listanum sínum myndi ég segja að þetta hefði komið út sem tilkomumikil prufa fyrir hinn nýja Indiana Jones. Pratt hefur ekki nógu oft fengið að sprengja út þann sjarma sem hann hefur í sér þó hann púlli sig bara nokkuð ágætlega sem harðhaus (/snareðluhvíslari), en fær ferlega lítið til þess að vinna með hér að það verður ekkert meira úr honum; hann er einfaldlega bara „töffarinn“, punktur.

Bryce Dallas Howard hefur oft gert sér það að ávana að fá illa skrifuð hlutverk í stórmyndum, en hún stendur sig vel sem blýstífur vinnualki sem hleypur síðan og öskrar að mestu. Drengirnir tveir sem leika frændur hennar, Ty Simpkins (Insidious, Iron Man 3) og Nick Robinson (Kings of Summer), eru þó góðir. Sérstakt samt hversu mikið er hlupið yfir lykilatriði með skilnað foreldra þessara bræðra. Það er nokkrum sinnum minnst á það en svo bara hættir það greinilega að skipta handritinu máli. Ég hefði annars verið til í að sjá meira gert úr áhrifunum sem kaosið í Júraheiminum hafði á eitthvað af þeim þúsundum gesta sem voru á eyjunni.

Jurassic World still gyrosphere

Colin Trevorrow er undarlegt val á leikstjóra fyrir svona sumarbombu. Hann tekur stökk úr krúttlegri, kómískri sci-fi mynd eins og Safety Not Guaranteed yfir í það að setja saman útlitslega fína afþreyingu með ágætri keyrslu. Hann hefur líka smá áhuga á öllum gömlu fílósófíunum og kemur með litlar vangaveltur um varðhald á dýrum, sál og eðli þeirra en Trevorrow er svo innilega enginn Spielberg þegar kemur að undrinu, spennuuppbyggingunni eða hjartanu sem originalinn hafði.

Eina gæsahúðin sem ég fékk út alla myndina var þegar sígilda John Williams músíkin blæs fyrst upp glæsilegt víðskot af garðinum, en það er meira kredit til hins gamla heldur en nýja, þó ég neita því ekki að Michael Giacchino eigi stóran þátt í því að Jurassic World hefur almennilegan púls. En Trevorrow til varnar þá tókst honum að gera betri poppkornsafþreyingu heldur en Spielberg gerði með Indy 4.

Screen-Shot-2015-04-20-at-8.05.13-AM

Góðar brellur að mestu, á tíðum ónáttúrulega teiknimyndalegar, en ég bjóst aldrei við neinni fyrirmyndarblöndu af pixlum, fjarstýrðum búkum og fleiri snilldarbrögðum. Tölvuvinnan virkar, en Jurassic World er þó farin að eldast verr strax heldur en hin hefur gert á rúmum 20 árum, og ég sé það aldrei fyrir mér að margir verði eitthvað farnir að kvóta þessa áfram að ári liðnu.

Segjum að stóru, heimskulegu tækifæri hafi verið sóað á margan hátt en Jurassic World er a.m.k. langt frá því að vera tímasóun. Reyndar fín skemmtun, ekkert meira en mætti vera meira. Skilur lítið eftir sig en býður upp á nóg af atriðum sem gætu farið vel með stanslausu poppáti. Þá hlýtur þetta að sleppa…

fin

Mér finnst kommur álíka gagnslausar og einkunnargjafir almennt, en væri ég á gagnstæðri skoðun myndi þessi einkunn landa á 5,5.


Besta senan:

Snareðlunum sleppt út.

3 athugasemdir við “Jurassic World

 1. 1 villa. Garðurinn er ekki búinn að vera opinn í 20 ár heldur er hann frekar nýlega opnaður. Fólk er bara ekki spennt fyrir risaeðlum því það veit að þær hafa verið til í 20 ár (sem er virkilega trúverðugt miðað við samfélag nútímans).

  Sammála flest öllu en ég skemmti mér vel og hefði gefið henni 8.

  Fyrsta Jurassic Park myndin var oft líka að leyfa plottinu að stjórna hlutunum en fólk yfirlítur það því það er original myndin. Það á við flestar klassískar myndir eins og JP, Star Wars etc.

 2. Hæ, Einhver, og takk fyrir kommentið – og enn meir fyrir LEIÐRÉTTINGUNA (textinn er uppfærður). Asnaleg klaufavilla sem ég tek á mig en gæti stafað af því að mér fannst haugur af upplýsingum vanta um garðinn og mátti Trevorrow alveg expanda hann meira og töfrana við hann.

  Allt sem þú nefndir með plott-tengdu „afsakanirnar“ varðandi fyrstu myndina er rétt. Hún er alls ekki fullkomin enda innst við beinið pjúr skrímslamynd en maður yfirlítur holurnar ekki *bara* vegna þess að hún er original myndin sem heillaði alla á sínum tíma, heldur vegna þess að persónu- og spennumeðhöndlun, díalógur, leikaradýnamík og handrit allt var einfaldlega mun, mun betra á sínu display heldur en í World.

  Star Wars og JP voru „genre transcending“ blockbusterar af fullkomlega gildri ástæðu. Ég öfunda alla sem skemmtu sér konunglega á Jurassic World en hún er það ekki.

  Kv.

Sammála/ósammála?