Entourage

Fyrst að Carrie Bradshaw og hennar vinkonur fengu (tvisvar) að spreyta sig í bíómyndalengd var það trúlega spursmál mun hvenær Entourage fengi sama trítment, enda lítið hægt að neita því að þessir þættir eru „Sex and the City fyrir gaura“, sérstaklega gaura sem hafa áhuga á brómantískri samveru, stöðugu hössli og þrasi í skemmtibransanum.

„Langur þáttur“ er algeng lýsing í svona tilfellum, en það þarf ekki alltaf að þýða neitt of slæmt. Og þar sem ég sá allar seríurnar og kunni að meta þær flestar skal ég glaður þiggja langan, góðan þátt en þá má hann helst ekki miða við gæðastandard á við meðalgott vídeógláp. Entourage þurfti að mínu mati ekki á framlengingunni að halda og með nokkrum sveiflum losar hún um alla þræði sem stórgóði lokaþátturinn batt saman. En ef maður sér þetta sem einungis prýðilegt „reunion“ er erfitt að verða fyrir miklum vonbrigðum.

bec0097b3e581a6e2cbc4b817dbd5d8408f08efa6978d4668254b40341a43238_-original

Þeir Vincent Chase, E, Turtle og Johnny Drama, auk upptrekkta meistarans Ari Gold, hafa aldrei verið voða viðkunnanlegar týpur, en þættirnir gefa upp meira en trúverðuga mynd af frægð, dekri, kvennahatri, Hollywood-hákörlum, tækifærum og floppum sem tilheyra þessum geira og lífsstíl. Það eru skörp skrif og skemmtileg lítil smáatriði hjá karakterum sem gerðu þetta að aðeins meiru en einkahúmor stjarna og drullusokkapartí.

Vince hefur mér sjaldan fundist taka sérlega snjallar ákvarðanir á ferlinum sínum þegar hann hefur ekki verið vandræðalega heppinn. En bíómyndin hefst á því að nýi draumur hans er að leikstýra sjálfur 100 milljón dollara framtíðaraðlögun á Jekyll & Hyde. Ekki nema átta mánuðum seinna er litla epíkin hans næstum því fullkláruð (og afraksturinn – af því litla sem við sjáum – er eins og fríkmixtúra af Underworld og Strange Days), og þá myndast allt dramað í kringum lokaklippið, og Drama.

fwaj9suphckub6uc5jei

Doug Ellin (leikstjórinn, höfundurinn og meir…) veit vel hvað hann er að gera og þekkir enginn þessa gæja betur en hann. Lítið virðist hann þó hugsa um þá áhorfendur sem hafa aldrei eða sjaldan horft á þættina. Vinátta og líf félagana fengið að þróast út þessar 8 seríur en Ellin heldur prófílum þeirra áfram svo dýptarlausum og gert er ráð fyrir að þú þekkir alla vel. Eitthvað aðeins reynir hann að fylla í upplýsingaeyður en myndin pikkar stuttu upp þráðinn þar sem frá var seinast horfið og gerir merkilega lítið við atburðarásina til að setja meira *bíó* í hana. Talandi um, ég get verið varla einn um það að finnast það fúlt hve lítið var sýnt af þessu vafasama „meistaraverki“ Vince.

Fullt af lausum þráðum í handritinu stefna hvergi og úrlausnir flestra vandamála í sögunni eru samsettar úr hreinum tilviljunum – ef ekki beinni fantasíu ef við ætlum að ræða um þennan endi. Það hefði líka verið hægt að nýta betur öll (og þá meina ég ÖLL) þessi cameo í stað þess að kasta bara ‘celeb x’ á skjáinn og segja „Sjáið hvern við fengum!“ Og helmingur stjarnanna virðist bara vera þarna út af sjálfsplöggi. Ronda Rousey stjórnar heilu aukaplotti sem er algjör uppfylling svo Turtle hafi eitthvað að gera á meðan miklu meira spennandi hlutir eiga sér stað annars staðar. En þegar Jeremy Piven er ekki á svæðinu tapar myndin nánast allri sinni orku.

Ent_ 0451.DNG

Það eru engir brjálaðir hápunktar í myndinni. Hún er viðburðarlítil en heldur flugi út af félagsskapnum, enda fátt þessum hópi sjálfsagðara en að spila af hvor öðrum, eðlilega og líflega. Allir virðast meira eða minna ganga í gegnum það sama og alltaf (og hversu oft á að draga þetta on/off samband hjá E og hans (fyrrum) frú á asnaeyrum? – það er alveg nóg af endurtekningum í þessu öllu fyrir). En Kevin Dillon er alltaf frábær sem hirðfíflið en umfram allt sjálfhverfi lítilmagninn Drama en eins og sjálfsagt þykir er það Ari Gold hleypur burt með alla myndina, og stöðugt í bráðfyndinni glímu við sína reiði svo hann detti ekki í gamla far sitt. Leitt hversu lítið var gert úr fyrrum aðstoðarmanni hans, Lloyd. Mín vegna mætti hann alveg fá sína eigin spinoff-mynd.

Entourage gæti vel verið ein af ómerkilegri og klúðurslegri myndum sumarsins sem ég skemmti mér engu að síður býsna ágætlega yfir. Hún gefur hörðustu aðdáendum sínum næstum allt sem þeir vilja en bara ekki með sama bitinu og ferskleikanum og var þegar þættirnir voru upp á sitt besta. En egósprengjurnar og skapsveiflurnar hjá Gold gerir tímabrennsluna alveg þess virði.

fin

Mátt draga einn frá í einkunn ef þú hefur aldrei séð þættina, og tvo (s.s. 4/10) ef þú virkilega fílar þá ekki.


Besta senan:

Ari og kettlingurinn.

Sammála/ósammála?