She’s Funny That Way

Það er eitthvað svo dásamlega leikhússlegt við uppsetningu og aðstæðurnar í She’s Funny That Way, þá m.a.s. ótengt því að sagan gerist á bakvið sviðstjöldin og gengur út á fólk sem sífellt flakkar milli elskhuga eða gleðikvenna á afmörkuðum svæðum – og allir sem einn virðast þurfa á einhverri þerapíu að halda. Annars vegar, sem kómedía í Woody Allen-stíl (Mighty Aphrodite og Bullets Over Broadway koma sterkt upp í hugann), með farsann í hámarki, gengur hún ljómandi vel upp.

Sem leikstjóri hefur Peter Bogdanovich verið pollrólegur seinustu áratugi og að mestu haldið sér á skjánum af og til. Seinasta myndin hans, The Cat’s Meow (’02), var ágæt en auðgleymd og hefur þannig séð lítið merkilegt komið frá honum (þar meðtalin Cher-gríman) síðan hann gerði They All Laughed. She’s Funny That Way á ekkert í bestu myndirnar hans, t.a.m. The Last Picture Show eða Paper Moon, en hún er samt skemmtileg og hlaðin ánægjulegum fíflaskap. Auk Allen-áhrifanna má eitthvað finna fyrir dass af Lubitsch og Capra.

1280x720-JTd

Söguþráðurinn er stór, gamaldags en ekki gildislaus farsagrautur og kynnir fyrst til hina ungu og jákvæðu Isabellu (Imogen Poots), gleðikonu með þann heita draum að gerast leikkona. Hún segir upphafssögu sína sem hefjast með kynnum hennar við „rómantískan“ leikstjóra (Owen Wilson) á meðan hann vinnur hörðum höndum að nýrri Broadway-sýningu sem óvart endar með því að endurspegla raunveruleika hans meira en hann kærir sig um.

Fjölgar aldeilis í flækjum þegar Isabella fer í áheyrnarprufu og hreppir aðalhlutverkið í þeirri sýningu (sem, viti menn, er hlutverk vændiskonu) og deilir sviðinu með eiginkonu leikstjórans (Kathryn Hahn) og fyrrum ástmanni hennar (Rhys Ifans). Við bætist síðan handritshöfundinn (Will Forte), yfirgengilega bitra eiginkona hans – sem í þokkabót er sálfræðingur Isabellu (Jennifer Aniston) – og faðir hans (George Morfogen), sem er í nánum samskiptum við gamlan, þráhyggjufullan kúnna (Austin Pendleton) hennar. Þarna er það ekki spurning um hvort heldur hvenær allt fer til fjandans…

shes-funny-that-way-trailer-01

Eins og sést er öll myndin sett saman úr brandaralegum tilviljunum en hvernig sagan endalaust magnar upp sitt eigið rugl er það sem gerir hana hálf súrrealíska og fyndna. Og handritið, þrátt fyrir allar flækjurnar og persónufjöldann, er þægilega einfalt og frekar hnitmiðað. Manni er déskoti sama um alla karaktera yfirhöfuð en ekki leikaranna því hver og einn einasti aðili virðist smella og móta sem mest úr sínu. Ég hefði persónulega skorið karakterana niður um kannski tvo, helst þá pabbann og þjáða félaga hans. Fínir á skjánum en þeirra persónur bæta ekkert sérlega miklu við radíus hinna framhjáhaldaranna.

Poots er vanmetin leikkona; lífleg, fjölhæf og græjar sér nú þykkan Brooklyn-hreim. Hún er skemmtileg týpa og geisla viðkunnanlegheitin öll af henni. Wilson er stórfínn í undarlega Woody Allen-legri rullu og meira að segja fyrrum mótleikona hans úr Marley and Me, hún Aniston, fær eitt besta og fyndnasta hlutverk sem ég hef séð hana í. Tek það að vísu fram að ég hef aldrei verið aðdaándi smekks hennar á handritsvali, a.m.k. ekki gamanmyndum, en í þessari mynd fær hún að vera ýktur og yfirdrifinn fýlupúki og slær þar á hárréttu nóturnar.

shes-funny-that-way

Upp úr standa samt Ifans og Hahn, tvímælalaust. Illena Douglas er líka sólid sem blaðakona sem hlustar á alla sögu hennar og gubbar svartýni með fýldum svip og skotum gegn stjörnuglampanum í augum Izzy. Ég myndi ekki segja að það hafi verið nauðsynleg taktík fyrir handritið að ramma hana inn sem sögumann myndarinnar löngu eftir atburði, en að minnsta kosti fáum við út úr því ódýrt og lummulega fyndið gestahlutverk í lokin.

Myndin byrjar að fuðra svolítið upp í lokasprettinum og skilur reyndar lítið eftir sig. She’s Funny That Way þarf ekki að vera margt svosem en ef hún viðheldur glotti áhorfandans er hún að sinna sínu djobbi, og sérstaklega þegar allir á skjánum virðast vera grimmt tjúnaðir inn í hana. Létt og gott sprell.

thessi
Besta senan:
Helvíti á hóteli.

Sammála/ósammála?