Inside Out

Pixar hefur ekki beinlínis verið upp á sitt hugmyndaríkasta síðustu árin, aðallega út af leikfangabílum, aukinni athygli á varningarsölu, nokkrum staffaskiptum og einni hlandvolgri prinsessumynd – en Inside Out snýr því strax við og sýnir að enn eru til töfrar í brandinu.

Svo yndislega heillandi, litrík og skemmtileg saga með miklum húmor og meiri hlýju ef eitthvað, svona allt þetta helsta sem maður býst við af betri Pixar-myndunum. Ekki veit ég hvort hún marki eitthvað nýtt gullaldartímabil fyrir merkið (Finding Dory og Cars 3 skjóta svolítið þær vonir niður…) en mér finnst það ekki lítið segja að hún sé með þeim hjartnæmari og ferskari frá upphafi þess. Græjar líka ákveðna plúsa fyrir að vera eina mynd stúdíósins sem hefur ekkert skýrt illmenni.

kimh

Það gerist sjaldan að maður flokki aðalmanneskju tiltekinnar sögu sem sjálft sögusviðið en ekki burðarhlutverkið og sýna þ.a.l. innri gangverk hugans. Grunnhugmyndin minnir lauslega á t.d. steik eins og Herman’s HeadOsmosis Jones jafnvel og eina vægast sagt ófjölskylduvæna Woody Allen-mynd (flettið henni upp!) þar sem Burt Reynolds sat við stjórn heilans og sá um… öh… „barnagerð“. Sumsé ekki frumlegasti efniviðurinn í Inside Out né klisjusnautt innihald en úrvinnslan meiriháttar. Þýðingarmikil, gullfalleg, skörp og vel skrifuð. Hún er líka meira fullorðinslega komplex í þemun, skilaboðum og órgandi sem duldum metafórum heldur en Pixar myndir hafa lengi verið.

Hún gerist mestöll í heilabúinu á 11 ára stelpu að nafni Riley, og hvernig persónugerðu tilfinningar hennar vinna saman eða stangast á og slást um „völdin“ á meðan stúlkan stendur á miklum tímamótum í lífinu. Gleði, Reiði, Sorg, Ótti og Ógleði eru lykilkarakterarnir – innan gæsalappa, en upp að þessum punkti hefur gleðin séð um yfirstjórnina hjá Riley.

inside-out-riley

Eins og gengur og gerist fyrir hvern sem er getur Riley ekki alltaf ráðið við sínar tilfinningar. Eitt liðir að öðru í plottinu og skyndilega „tapar“ hún gleðinni sinni – og reyndar sorginni líka – og fara höfuðstöðvar heilans í kerfi þegar aðeins ógleðin, óttinn og reiðin situr eftir. Þetta hljómar eins og virkilega dökkt, sækólógískt efni en í rauninni er þetta grunnur fyrir býsna venjulega en samt svo ljúft flippaða og krúttlega ferða-/félagasögu þar sem andstæðurnar tvær, gleði og sorg, þurfa að finna leið sína aftur heim að vinnusetrinu og ferðast gegnum ýmis abstrakt-svæði í undirmeðvitundinni.

Þetta er stundum svo súrt, svo fyndið og rífur á tíðum svo fast í hjartaræturnar að það er hreinlega ólöglegt, en við hverju býst maður svosem frá leikstjóranum sem gaf okkur m.a. Sulley/Boo sambandið í Monsters, Inc. og fyrstu 10 mínúturnar í Up? Sem betur fer er Pete Docter einn af fáu upprunalegu og bestu leikstjórunum hjá Pixar sem er ekki hlupinn í leikið efni, og er magnað hvernig hann – ásamt meðleikstjóra sínum –  sigrast áreynslulaust á áskorum svona krefjandi, undarlegrar frásagnar. Sést líka langar leiðir að þetta er hans persónulegasta mynd.

inside-out-image-joy-sadness

Gleði og sorg – sem eru gallalaust talsettar á ensku af hinni eiturhressu Amy Poehler og stórfyndna fýlupúkanum Phyllis Smith úr The Office – mynda náttúrulega einstakt og skondið dúó. Eðlilega skilur gleðin ekki sorgina og sér engan tilgang með henni en hluti af kjarnasögunni gengur út á það að finna það út hve mikilvæg hún getur verið stundum í lífinu.

Væmni virðist vera voða lítið vandamál hérna, og fann ég í staðinn bara fyrir vandaðri einlægni í sögu sem snýst yfirhöfuð um þroska, breytingar, hvatir og aðlaganir. Það myndast einnig gott samspil milli hinna tilfinninganna sem eftir sitja út myndina. Af öllum fannst mér reyndar minnst fókuserað á Ógleði (Mindy Kaling) en allir eru frábærir á sinn hátt og, eins og með hinar, er ekkert út á raddleikaranna að setja (Bill Hader og Lewis Black eru báðir brill).

Partur af sjarmahlassinu við Inside Out kemur frá tónsnillingnum Michael Giacchino (sem var tilnefndur til Óskars fyrir músíkina í Up) en líka hvernig hún talar ólíkt til mismunandi kynslóða. Foreldrarnir sjá þarna einfalda undirtóna og dýpri tengingar á meðan krakkarnir sjá allt annað aðgengi í orkunni og geta hiklaust notið ævintýralegu sköpunargleðinnar, þó eitthvað í líkingu við Minions sé trúlega betur geymd fyrir þá allra smæstu. Það er mikil tragedía í þessari mynd (takið t.d. eftir hvaða tilfinningar sitja í fremstu stjórn hjá foreldrunum og hvað kynhlutverkin eru hressilega stereótýpísk) en stöðugt flipp þarna líka. Þar fyrir utan lítur myndin auðvitað óaðfinnanlega út í pixlagerð, smáatriðum, hönnun og renderingu.

Ef þú leggur alla ógleði og Disney-fordóma til hliðar er með ólíkindum hvað Inside Out getur brætt þig mikið og glatt með sínum persónuleika. Sykruð? Klárlega. Fyrirsjáanleg, visst formúlubundin, einfölduð og allt það? Jebb. En ómótstæðileg í nánast alla staði? Engin spurning! Ég myndi alveg treysta á þetta teymi til að tækla framhaldssögu sem myndi díla við Riley á unglingsárum sínum. Möguleikarnir eru endalausir. En fyrst skulum við sjá hvað skeður með Incredibles 2, takk!

niu

Besta senan:
„Abstrakt“ klefinn, og meira.


lava-03PS.
Stuttmyndin Lava, sem sýnd var á undan, var DÁSAMLEG. Ekki hafði ég hugmynd um að hægt væri að gera gígantískt dúllulega ástarsögu milli tveggja eldfjalla – en Pixar gat einmitt það, enda stuttmyndirnar þeirra oftar en ekki í toppgæðum.

 

2 athugasemdir við “Inside Out

  1. Frábær grein! Elska þessa mynd (og svona flest allt sem Pixar gerir) en bara ein pæling, er þetta eina mynd Pixars með ekkert skýrt illmenni? Nemó hefur ekkert illmenni…?

Sammála/ósammála?