Ted 2

Ef þú ert nett harður aðdáandi fyrstu Ted-myndarinnar og hefur lítið út á það að setja að fá meira af því sama – bara langdregnara, freðnara og með töluvert meiri áhuga á einhverju sem á að líkjast plotti – þá voðalega lítið til þess að stoppa þig frá því að finnast Ted 2 vera fínasta skemmtun. Seth MacFarlane er varla trekkjandi inn nýja hópa en hann forðast það allavega eftir bestu getu að kópera fyrstu myndina (sem segir ekki mikið frá manninum sem teygir oft eigin lopa og endurtekur sig) og heldur líka í það sem gerði hana skemmtilega.

Ted 2 spilast miklu meira út eins og „bíómynd“ frekar en langur Family Guy(ish)-þáttur, annað en hin. En á móti rembist hún meira við það að vera sjarmerandi og telur sig að hafa eitthvað stórmerkilegt að segja, þá um réttinda-issjú, óréttlæti í mannkynsögunni og hvað það er sem gerir okkur mannleg (Bicentennial Man floppið tók megnið af þessari umræðu áður), en allt svoleiðis kemur frekar hálfbakað út sem allegoríu-kommentería þegar hún gerir bæði grín að skilaboðum sínum og ætlar sér að taka þau alvarlega líka.

gij

Fyrri myndin var samt aldrei neitt kómedíugull heldur; lífleg jú, og eiturhress en lokakaflarnir voru flatir, klisjurnar alls staðar en heildarpakkinn stóð aðallega fyrir sínu vegna þess að Mark Wahlberg tókst einum og frábærlega að selja vináttuna við talandi, kjaftforan, graðan og kaldhæðinn leikfangabangsa. MacFarlane gerði marga góða hluti á móti honum en grínhlið Wahlbergs hafði sjaldan verið betri. Það samspil hefur lítið dvínað í framhaldinu en Wahlberg sest aðeins í aftursætið sökum þess að nú eru það réttinda(- og sambands)krísur bangsans sem hafa allan forgang. Umdeilanlega aðeins of mikinn.

Ódýrt finnst mér hvernig Mila Kunis er, skilst mér af nauðsyn, gjörsamlega skrifuð út úr myndinni m.v. hversu mikið Seth ætlaðist til þess að við héldum upp á þau Wahlberg seinast, en nú á okkur víst að vera drullusama um hana. Ég hefði miklu frekar viljað sjá hlutverk Jessicu Barth, þ.e. pirrandi eiginkonu Teds, skorið niður. Amanda Seyfried hleypur hins vegar furðu æðislega í skarðið hjá Kunis. Hún er fyndin oft og fín sem lögfræðingur Teds í baráttu hans um að vera ekki lengur talin “eign“ í samfélaginu. Hún smellir greinilega betur í sískökku dýnamík drengjanna heldur en Kunis gerði og fær óneitanlega nokkra góða djóka á eigin kostnað.

ted-2-living-room

Svæðin sem myndin hrasar mest á tengjast vandræðalegu Hasbro-plöggi og subplotti með sorgarsekknum sem Giovanni Ribisi lék í fyrstu myndinni. Hann er snúinn aftur, þreyttari og úldnari en seinast og í raun með nákvæmlega sama markmið, og hans þátttaka virðist vera afsökun svo lokakaflarnir geti átt sér stað á Comic-Con ráðstefnu, án þess að það hljómi eitthvað illa. Hefði þó mátt gera meira við það þá.

Ekkert af þessu er beint eitthvað sem hart skaðar en myndin bætir endalaust á sig meiri uppfyllingu en hún ræður við, en Seth virðist vera ákveðinn að vera filterslaus í gríninu og einlægur þegar kemur að öllum mónólógum um lögleiðingu grass Teds. Bangsinn reynir að sýna miklu manneskjulegri, blíðari hliðar af sér en gengur illa að taka hann alvarlega þegar innihaldið rignir typpatengdum djókum. Seth er aldrei of góður fyrir lélegt sjokkgildi, asnalegar stereótýpur og gelgjuhúmor. Ég freistast samt til að segja að Ted 2 notfæri sér þemalagið úr Jurassic Park með miklu frumlegri hættir heldur en nýja myndin gerði.

ted_2_texting_wallpaper

En ef við horfum framhjá skrautlegum gestahlutverkum, öskrandi tilvísununum, földu nördaglaðningunum, reykskýjunum, brómantíkinni, skemmtilegu músíkmelódíunum og öllu tilheyrandi þá rúllast þetta allt upp að einni mikilvægri spurningu með myndina: Er. Hún. Fyndin?

Svarið er: af og til. Það eru engir frussandi sterkir hápunktar – og ég náði léttilega að telja góða fimm brandara sem eru beint teknir frá Family Guy – en nógu mikið af litlum skestum, línum eða bútum (Google-niðurstöðurnar, nammiskálarnar, Trix-senan!.. o.fl.) sem passa að hún haldi ágætisdampi og það vefur hana upp í bara ágætis b-meðmæli ef væntingar eru ekki of hátt uppi. En ef maður sá Ted 1 – eða sérstaklega A Million Ways to Die in the West –  get ég svosem ekki ímyndað mér hvers vegna þær ættu að vera það.

sexa
Besta senan:
Ted afgreiðir alvarlegasta kúnna veraldar.

Sammála/ósammála?