Albatross

Albatross má eiga það að sjaldan hefur eins lífið verið í húfi í dramanu í einni íslenskri bíómynd, og hefur s.s. hvað lægstu „stakes“ sem ég hef séð til margra ára. Öll framvindan veltir mest megnis á aðeins einni spurningu: ‘Verður golfmótið haldið í Bolungarvík, eða á Ísafirði?“

Spennó…

Reyndar segir myndin frá býsna normal og hlutlausum gæja, borgarbarninu Tomma, sem situr fastur á Bolungarvík eftir að kærasta hans dömpar honum, skyndilega, óvenju grimmdarlega en skiljanlega. Hann virðist ekki vera upp á marga fiska, þó semí-viðkunnanlegur sé. En þá stendur hann eftir húsnæðislaus, peningalaus úti á landi og vinnandi á golfvelli með nokkrum skrautfuglum, og já… lengra nær það varla. Mennirnir hanga og spjalla þarna mikið saman, um stelpur, skuldir, allt, framtíðina, ekkert og listina að skeina sér. Allt sem þarf til að heildartíminn nái að klifra í propper bíólengd.

Það er ekki siðlaust að kalla þetta ‘Clerks-kóperandi’ nálgun að mynd; hún er áberandi hræódýr, viðvaningslega unnin en hversdagsleg með stolti og fjallar um persónur að tala óheflað um allt milli himins og jarðar á meðan fremsti meðaljóninn stendur á tímamótum í sínum kvennamálum. Mikil ábyrgð fellur þarna á díalog og leikendur.

maxresdefault

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Snævar Sölvi á góðvildarstig skilið fyrir að vita a.m.k. hverju hann sækist eftir. Myndin er kannski viðburðarlítil og stefnulaus í stórum sveiflum en athygli og áhugi Snævars liggur greinilega hjá þessum áðurnefnda tragikómíska hversdagsleika, léttum lífspælingum og samverustund karakteranna. Þetta sýndi hann líka í lítt-séðu „tilraunarmyndinni“ Slay Masters (sem ég gerðist svo heppinn að sjá…), allavega þessu seinastnefnda.

Albatross er hins vegar ekki sérstaklega vel skrifuð – eða spunnin – þegar kemur að samtölum, ágreiningi og persónusköpun. Sama þótt við heyrum nokkra gæja uppljóstra sínum vandamálum, krísur og tala um sig sjálfa er merkilega lítið kjöt á beinum þessara fáu persóna sem prýða hér opið landslag. Það eru að vísu undantekningar hjá þeim fáeinu andlitum sem standa upp úr, þar sem þeim hefur tekist að bæta meiru við.

cast_kjartan

Sumir eru góðir (þar aðallega Ársæll Níelsson, Pálmi Gests og Gunnar Kristins), aðrir á volgari endanum eða bara flatt út ósannfærandi. Aðalleikarinn er heldur ekki lekandi af miklu karisma og lýður stór hluti af kjarnasögunni fyrir það hve lítið við fáum að sjá eða heyra frá (fyrrum) kærustu hans. Handritið hefði t.a.m. getað grætt á því að mjólka þeirra samband og fjarlægð meira áður en hún sparkar honum. Eða gert meira úr öðrum kvenhlutverkum.

Það er umhyggja fyrir efninu og annaðhvort venst maður bara karakerunum svona mikið í rólegheitunum eða þeim tekst smávegis að vinna sig yfir á þitt band. En að öðru leyti stendur eftir óminnisstætt og skelþunnt tjill milli félaga sem hefði kannski getað græjað sér auka sjarma ef hefði verið til meira fjármagn fyrir tækni(- og ekki síst hljóð)vinnsluna. En sem heimagerð og meinlaus lítil sveitasaga væri hún örugglega fínasta afþreying fyrir bústaðargláp, en sér í lagi ef hún fylgdi með pylsupakka – svona í stíl við hve ‘sumarleg’ og björt hún er. Getum við plís tekið upp á svoleiðis aftur?

fimm

Besta senan:
Gestsson opnar sig.

Sammála/ósammála?