Terminator Genisys

Besta aðstaðan sem Terminator Genisys er í er að geta notfært sér það hvað væntingar aðdáenda eru komnar á djók-lágar hæðir þegar ekkert almennilega gott hefur komið frá merkinu síðan árið ’91 …

Ef við horfum yfir stórar, þekktar bíóseríur, bæði í flokki hasars eða sci-fi, þá er hryllega erfitt að rekast á einn myndbálk sem hefur staðið sig eins vandræðalega í því að réttlæta tilvist sína eins og þessi. Ástæðurnar eru nokkrar, en aðallega a) hugmyndaleysi, þar meðtalið getuleysi í handritsvinnu og (kaldhæðnislega) ólæknandi fortíðarþrá. Og b) James Cameron var eiginlega búinn að slútta sögunni best sjálfur áður en allar viðbótirnar komu.

terminator-genisys-young-terminator

Fimm bíómyndir, tvær ekki bara góðar – heldur íkonískar, ein hræðileg þáttasería, sífellt flakk milli stúdíóa og rétthafa auk stöðugrar hrörnunar í greindavísitölu innihaldsins. Alveg síðan Cameron sagði skilið við þetta hafa allir arftakar hans reynt að ná hans hæðum, bara ómeðvitaðir um það hversu mikið hland óvart frussaðist yfir sígildu eintökin og allt sem þær stóðu fyrir.

Terminator Genisys fylgir þessu furðulega trendi seríumynda þar sem framleiðendur útiloka þeim framhöldum sem þeim sýnist. Genisys vill vera hin raunverulega viðbót Cameron-myndanna, en tekst samstundis að skjóta þær niður niður (eins og Ahnüld gerir persónulega við unga ’84’ módelið sitt – mjög metafórískt) með of miklu fikti og tímalínurugli ásamt mótífum sem bara hreinlega ekki virka. Það er eitt að koma með gildislausa framlengingu, en það sem þessi virðist gera er að þurrka út viðburði fyrstu myndanna (sem hún þykist heiðra) alveg út af kortinu…. bara til þess að endurtaka sambærilegt plott aftur!

_1435702305

Fyrsta myndin, sama hve illa hún eldist, er sólid, dökk og vel skrifuð spennumynd sem hefði í hvaða heimi sem er getað staðið sjálfstæð. Virkilega sterkt upphaf að ferli leikstjórans (þó við megum ekki gefa honum allt kreditið fyrir handritið fyrst að hann stal grunninum frá Harlan Ellison, snillingnum). En þegar Cameron stóðst ekki tækifærið að græða meira á nafninu og stórstjörnu sinni tókst honum, þrátt fyrir að hafa potað aukaholur í mýþólógíuna, að bæta heilmiklu við þá fyrstu með óumdeilanlega einni best heppnuðu sæ-fæ/framhalds-/hasarmynd allra tíma. Ekki vantaði heldur í hana sálina eða persónufókus. En það var síðan alltaf lykilfrasinn sem þurfti alltaf að breytast í eitthvað loforð. Tortímandinn kom alltaf aftur, með Ahnüld eða án hans.

Eins og sagan hefur þó sýnt er yfirleitt betra að hafa austurríska tröllið sjálft á svæðinu heldur en ekki. T3: Rise of the Machines, frá 2003, afritaði mestalla formúlu undanfara síns, með litlum alvarleika, töff flugeldum og veikum karakterum. Gengur alveg sem meðalgóð poppskemmtun og alla daga skárri en Terminator Salvation, sem var ekkert nema flott, flöt, löt og leiðinleg. Sömuleiðis ein af örfáum myndum þar sem Christian Bale tókst jafnvel að vera mökkleiðinlegur.

landscape-1428935780-terminator-genisys-arnold-smile

Það er kannski – bara kannski – hægt að færa rök fyrir því að Genisys sé skemmtilegasta Terminator-myndin sem hefur komið út á þessari öld, en þá bara vegna þess að hún er sett saman eins og „Best of“ rússíbani; bókstaflega púsluð saman úr tilvísunum, endurunnum plottþráðum, gömlum sögusviðum og vilja til þess að leggja teina fyrir fleiri framhöld.

Það er meira aksjón, meiri steypa og umtalsvert „tölvuleikjalegri“ brellur en ég hef séð áður í T-mynd, og fyrst þyngarlögmálin hafa endanlega verið kvödd og aldursstimpillinn meira gíraður að yngra fólkinu höfum við hér fengið eins konar B-eða-C flokks ‘Marvel-eftirhermu’ frá Terminator brandinu. Ef hinar myndirnar töldust til beinnar fantasíu þá er þessi hrein og bein teiknimynd, og svo epískt þvæld í framvindunni að hún kastar út fleiri spurningum en hún nær eða nennir að útskýra.

Merkilega var leikstjórinn Alan Taylor nýbúinn að brenna sig á Marvel eftir Thor: The Dark World þegar hann fékk litlu ráðið í eftirvinnslu en fullt frelsi í tökum. En bestu hliðar Taylors hafa allar komið frá sjónvarpi (Game of Thrones, Mad Men, Sopranos o.fl.) og hafa lítið skilað sér á hvíta tjaldið. Taylor er oft góður í að mappa út hasar, sérstaklega þegar margt er í gangi á sama tíma. Það sem virkar þó ekki eru karakteraugnablikin sem eiga að gefa myndinni sál í þeim örlitla hvíldartíma sem gefst áður en næsti hasar tekur við. En þetta skrifast líka á útþynnt handrit og gallað val á leikurum sem þurfa að meðhöndla oft mjög vondan díalog.

la-et-hc-imax-with-hero-complex-terminator-genisys-screening-20150623

„I’ll Be Back“ er ekki lengur aðallínan, heldur „Old, not obsolete“. Serían er kannski úrelt, en Schwarzenegger hangir á mörkunum. Hér er hann í banastuði, og bara velkomið að fá hann svona hressan og líflegan aftur – og hvað þá m.v. aldur – þegar er hvort sem er aldrei hægt að taka söguþráðinn né nokkuð alvarlega í honum. En síðan að frátöldum einum ófyrirgefanlega vannýttum J.K. Simmons (sem er æðislegur!) eru það allir hinir sem eru aðalvandamálið.

Það nægir ekki bara að setja hvaða leikara sem er í hlutverk persóna sem áður smelltu til manns. Emilia Clarke fellur svo langt í skugga Lindu Hamilton að í samanburði sé ég bara táningsstelpu veifandi byssu, svona fyrst hún á að vera stríðstýpan af Söruh Connor og selur það ekki vel. Jason Clarke, venjulega dúndurfínn, er hálfdapur og píndur sem John Connor. Og hvernig einhverjum datt í hug að Jai Courtney myndi smellpassa sem „Michael Biehn“, þ.e. Kyle Reese, mun ég aldrei skilja. Biehn leit út eins og naglharður, sveltandi, fjölhæfur hermaður. Hefði verið svo miklu sniðugri hugmynd að gera Courtney að vélmenni, einhvern veginn.

Courtney hefur síðustu árin verið misvolgur í misjafnlega góðum myndum; ekki alslæmur gaur (og það er ekki alfarið honum að kenna að Die Hard 5 var vond) en miðað við athyglina á hann helling eftir að sanna. Í Genisys hefur hann lítið breytt sínum hljómi, en ég skal gefa honum það að hann er miklu meira sannfærandi heldur en Clarke eða… Clarke. Annars geri ég ráð fyrir að Matt Smith-aðdáendur verði fyrir trylltum vonbrigðum með þessar fáeinu setningar sem hann fær í myndinni, hann er líka þarna bara til þess að vera fræ fyrir næsta framhald.

sarah-connor-terminator-genisys

Það að Terminator Genisys hafi fengið „blessun“ Camerons segir mjög lítið miðað við hversu hrikalega jákvæður hann var þegar Rise of the Machines kom út – mynd sem hann víst hundsar í dag. Terminator Genisys er klúður, og súmmar að mörgu leyti hún upp allt sem plagar framhaldsmyndagerð í Hollywood í dag, en samt… gegn öllum líkindum, er hún svo hröð, ánægjulega heimskuleg á köflum og fyndin (viljandi og óviljandi) að það er varla hægt að hata hana, eða láta sér leiðast yfir henni, þó kjánahrollurinn taki gjarnan á líka. En með tilliti til þess að reglurnar með þessa seríu eru langt komnar á kaf og í óreiðu er heldur ekki við öðru að búast en nostalgíu- og brelludrifna sjálfsparódíu.

fimm


PS.
Það hefur aldrei verið nýtt að spoila helstu ‘tvistum’ allra Terminator-mynda í markaðssetningunni, en Paramount drullaði hér sögulega mikið upp á bak með því að klessa því á alla póstera og æpa það út í öllum sýnishornum hvaða stefnu sagan tekur í seinni helmingnum.

Besta senan:
Upptrekktur J.K.

Sammála/ósammála?