Minions

Hér hefði ég haldið að væri komið fullmikið af hinu góða. Þegar fyrri Despicable Me-myndin kom út voru alflestir sammála um það að senuþjófarnir voru óvírætt skósveinarnir; einfaldir, ofbeldisfullir og síbabblandi bananastrumpar í smekkbuxum, ætíð krúttandi yfir sig í tilraunum til þess að vera illir. Fígúrur með svo aulalegan slapstick-sjarma að ómögulega var hægt að kalla sífelldu fliss þeirra ekki smitandi.

Það var aðeins tímaspursmál hvenær það yrði vinsælast að kalla þessa gæja ofmetna, þreytta eða pirrandi, og sömuleiðis hvenær framleiðendur myndu moka þeim út í svo stórum skömmtum að allir yfir snuddualdur fengju strax ógeð á þeim eftir seinni myndina (sem mér þótti alltaf betri en fyrri, og ekki bara útaf auknum skjátíma skósveinanna). En eftir heila bíómyndalengd með þeim í forgrunni er ég sjálfur ekki enn orðinn einn þeirra.

Minions er víst bara frussuskemmtileg. Stutt, hröð, rugluð og með aktívan húmor fyrir poppkúltúr og mannkynssögu; með vísun í Napóleon, Nixon, Bítlanna og fleiri, auk þess að halda uppi hundgömlum og þrumugóðum lagalista frá gömlum períódum (m.a. frá The Doors, The Who, Spencer Davis Group, Hendrix og Turtles). Teiknistíllinn er líka – sem áður – svo víbrant, litríkur og orkumikill að myndin brennir ferlega hratt í gegnum þessar 80 mínútur.

Framleiðendur tóku strax réttu ákvörðunina með það að taka forsögunálgunina alla (og þá meina ég ALLA…) leið, og þó Minions hafi kannski ekki þessa hlýju sem Despicable-myndirnar höfðu með samspilinu hjá Gru og famelíu hans þá heldur þessi allan tímann fókusinum á ærslaganginn. Ekki óhressandi tilbreyting, og algerlega væmnislaus í þokkabót og a.m.k. reynir Minions aldrei að vera meira en hún er.

minions-2

Frá upphafi mannsins til myrku aldanna og að lokum Bretlands á sjöunda áratugnum. Með því að valhoppa í gegnum aldirnar fer myndin alveg æðislega af stað. Gulu, pillulaga, ódrepandi stökkbreytingarnir (sem eru víst greinilega núna með eilíft líf… Brilliant!) eru með það genetíska eðli í sér að elta og þjóna versta skúrki sem þeir finna. Ég beið eftir að sjá hvort þetta hefði óhjákvæmilega leitt þeim að Hitler en handritið tekur snjalla ákvörðun að skella þeim í útlegð eftir Bonaparte.

Skal játa það, jú, Minions hefði örugglega dottið í „overkill“ gírinn ef bókstaflega allir skósveinarnir, hvað sem þeir eru margir, væru endalaust að troðfylla rammana, en það er alveg næg fjölbreytni hérna með aukakarakterum sem eru þarna aðallega bara til að sýna lit (sem leikarar eins og Sandra Bullock, Jon Hamm og Michael Keaton gera í raddsetningunni – og Geoffrey Rush kemur bráðvel út sem þulurinn). Í staðinn fókusar samt hinn afar lauslegi söguþráður á þremenninga Kevin, Stuart og Bob, sem leita fyrir hönd grúppunnar að nýju illmenni, á meðan allir sem eftir standa heima eru að tapa sér úr þunglyndi eða leiðindum… með stórfyndnum árangri. Meira hefði mátt svosem gera við illkvendið sem Bullock talsetur, fyrst sá karakter stendur aldrei nægilega undir orðspori sínu.

Screen-Shot-2015-02-09-at-14.38.09

Minions er grautþunnt gimmick, alveg klárlega; afsökun til þess að halda þessum gæjum á skjánum í einn og hálfan tíma, með óminnisstæðum aukapersónum og innihaldi sem er langt hlupið í frí. Persónulega er mér slétt sama því myndin baðar sig í svo miklum húmor, visjúal-gríni og sakleysisflippi. Þess vegna virkar að mæla með henni handa ekki bara þeim sem eru eins árs heldur hundrað-og-eins-árs og allra kynslóða á milli, þó einhver skekkjumörk gætu myndast frá skrípóhatandi fýlupúkatýpum. Ég segi sjö bananar af 10.

 

Besta senan:
Villain-Con klónarnir. Eða pyntingarklefinn.

Sammála/ósammála?