Magic Mike XXL

Eftir öll þessi ár tekst mér einhvern veginn enn ekki að sjá hvort það sé góður leikari í Channing Tatum þarna, eða hvort hann sé bara svona prýðilegt karisma þegar hann leikur sjálfan sig… sem hefur verið oftast, og hvað mest í Magic Mike-myndunum.

Það sem líkami þessa manns getur pródúserað margar undursamlega impressívar hreyfingar er stórmerkleg sjón að sjá, hvernig gæinn tapar sér í því sem trompar hann allan daginn í leikhæfileikum. Í orðsins fyllstu merkingu eru þessar myndir um hann, hvað hann getur, getur ekki og starfssvið sem honum er augljóslega mikið annt um.

Fyrstu myndina fílaði ég ágætlega (og ég er lítill Soderbergh-gæi) og fannst hún gera ýmislegt skrautlegt og skemmtilegt við beran klisjuefnivið. Ágætt innlit í merkilegan geira, segjum það, með smá leiðindafitu á milli. Að eðlisfari dettur því Magic Mike XXL örlátt í kafla sem kalla á stelpukvöld, háskerpu og nokkur vínglös.

En fyrst ég játa mig sekan fyrir að hafa gjarnan setið sæll yfir hasarmynd með kvenhetju í leðursamfestingi (auk þess að vera stór aðdáandi sorpsnilldarinnar Showgirls) sé ég ekkert að því að þeir Tatum, varúlfurinn úr True Blood, tvífari Henry Cavill og allir hinir megi ekki spreyta töfrum sínum til að vekja upp gleðióp og peningaveifandi greddu frá hinu kyninu og fleirum. Myndin veit hvað hún snýst um og fagnar því bara með látum, húmor og smá einlægni meira að segja.

magic-mike-xxl

Persónufókus er til staðar, þó takmarkaður en Magic Mike XXL gætir þess vel að standa undir sínu nafni og þrepar sig upp í öllu mjaðmagrændi, spenntum magavöðvum og rassaflexi. Lukkulega er líka tvennur farangur sem framhaldið losar sig við, tvær manneskjur sem drógu hina myndina helling niður: leiðindapúkinn Alex Pettyfer og Cody Horn, ein enn leiðinlegri. Þessi sem lék kærustu Tatum, brosti aldrei en hló inn á milli eins og úlfaldi. Amber Heard er miklu skárri en óvenju fýld og líflaus eitthvað út myndina.

En á akkúrat móti þessum blessunum lýður framhaldið hart vegna skorts á nokkrum Matthew McConaughey (sem, þökk sé Óskari frænda, varð orðinn of dýr fyrir þessa mynd), og miðað við hve miklu lífi hann gæddi kúrekann sinn Dallas hér áur standa þá ekki margir eftir til að stela þessari mynd. Hér áður notfærði þessi maður sér hvaða afsökun sem er til að vippa sér úr að ofan en eftir að „McConaissance“ skeiðið byrjaði er hann víst nú orðinn of virðulegur fyrir allt svoleiðis.

Skemmtilega vill til að Mike hvetur félaga sína til að losa sig við gömlu rútínurnar og finna sér nýjan takt sem kemur innan frá, þema sem speglar markmið framhaldsins nokkuð vel, því myndin, eins og hópurinn, vill ekkert gera nema gleðja. Hver hópmeðlimur fær einmitt að leyfa sínum einkennum að njóta sín, utan sviðs og sérstaklega á því. Aðrir aukaleikarar láta allir vel um sig fara en gera ekkert of eftirminnilegt.

(L-r) JOE MANGANIELLO as Richie and CHANNING TATUM as Mike in Warner Bros. Pictures', "MAGIC MIKE XXL," a Warner Bros. Pictures release. from Warner Bros. media pass

Soderbergh situr hér hjá sem leikstjóri  en hann heldur sér á kamerunni á meðan reglulegur kollegi hans Gregory Jacobs tekur við, og notast við svipað hversdagsmótíf og litafilterublæti og forverinn gerði, yfirleitt með jákvæðum árangri. Jacobs hefur líka meiri orku sem hann beinir rétt að annað slagið. Hann er í góðri aðstöðu því nú er fullt af atriðum þar sem meinta innihaldið tekur sér pásu og býr til pláss fyrir dræhömpandi millistopp. Á flestan hátt er þetta frekar óviðburðar- en tilviljanaríkt vegaflakk þar sem félagarnir spjalla og eyða brómantískum stundum saman á sínu tungumáli. Það mátti samt alveg raka af lengdinni.

Magic Mike XXL skilar mestu af því sem hún lofar. Meira að segja karlmenn með mestu fóbíu fyrir holdi annarra karlmanna ættu að geta viðurkennt það að sum dansmúvin í henni eru ómanneskjulega mögnuð. Og ég mana alla til að glotta ekki bara örlítið þegar Joe Manganiello fær að sleppa sér á bensínstöðinni.

Hún fær sex krumpaða dollaraseðla af 10.

hotel-transylvania-2-banner

Besta senan:
Í heimsókn hjá Andie MacDowell. Voðalega breytist hún alltaf lítið.

Sammála/ósammála?