The Human Centipede 3 (Final Sequence)

Því meira sem við tölum um Human Centipede-myndirnar því meira vald erum við að troða í hégómann hjá Tom Six. Hans eina markmið hefur verið að ögra okkur, eins og rasískur sósíópati með skituhúmor á táningsaldri sem hatar konur, allt til þess að setja óneitanlega ógeðfellda grunnhugmynd meira í sviðsljósið. Augjóslega er ég ekki að hjálpa til í þessari deild en hvaða áhorfandi sem er ætti þó að vera löngu orðinn viss um hvort ‘Final Sequence‘ sé eitthvað sem vekur ljóta forvitni hjá honum eða ekki.

Six tókst fyrst að skera sig inn í minni okkar og kúltúr með einni fratleiðinlegri pyningarhrollvekju, annarri örlítið (án djóks) vandaðri en í senn hreint og beint refsandi. Á jákvæðari nótum virðist hann ekki vera hlynntur því að margendurtaka sig og tekur alltaf nýjan tón á sitt látlausa sikkó-hugmyndaflug, en með þriðju myndinni skýtur hann sig meira í fótinn með eigin skít en hann heldur.

Screen-shot-2015-04-14-at-8.37.40-AM-620x400

Final Sequence gerir það sama og meta-fulli forveri sinn. Hún byrjar á lokasenu síðustu myndar og gerist þ.a.l. í heimi þar sem báðir Centipede-titlarnir eru vel þekktir. Snarbilaður fangelsisstjóri gerir margar vafasamar tilraunir til þess að vinna sér inn hræðslu og víst virðingu fanga sinna. Ekki fyrr en um miðbik mynarinnar er loks tekið upp á því að strengja þá alla (já, alla) saman með hætti sem gerir auðvitað leikstjórann ofsalega spenntan, enda hann sjálfur í litlu aukahlutverki.

Það sem mér finnst vera það sjúkasta við Human Centipede 3: Final Sequence er að hún er…, skringilega, „besta“ myndin í þrennunni. Hún hefur einhvern andsetinn púls sem hinar höfðu ekki og kaus miklu frekar að fara sótsvörtu, kómísku exploitation-leiðina í stað þess að kalla sig listilegan pyningarhroll. Önnur myndin í röðinni nauðgaði ítrekað heilanum mínum (…með gaddavír) með sumum köflum. Mér misbauð smá, hataði lífið í nokkrar mínútur eftirá, Six vann, stórt bingó! Að eigin sögn langaði hann til þess að klára trílógína af með brjáluðum usla, því ætlunarverki að láta undanfara sinn líta út eins og „Pixar-mynd“ í samanburði. Það heppnaðist, en samt ekki eins og maður hefði haldið.

07-han-solo-2.w529.h352.2x

Með því að gera Final Sequence að ýktri og grunnri aulasatíru meðtekur maður viðbjóðinn allt öðruvísi en áður. Myndin er sjúkari en sú síðasta en hvergi eins abstrakt óhugguleg. Engu að síður er alveg nóg hérna til þesss að tryggja það að þú viljir hvorki ömmu þína né þorramat nálægt þér þegar þú horfir á þessa mynd.

Í fyrsta lagi vil ég þakka Six ó-svo kærlega fyrir að kynna mér fyrir hugtakinu „djúpsteiktir snípar“ og meintu mikilvægi þeirra. Ofan á þann ilm fáum við villimannslega geldingu í nærmynd, senu þar sem manni er bókstaflega nauðgað í nýrað, auk, jú, 500 manna margfætlu. „Mennska lirfan“ fylgir síðan með í kaupbæti, sérstaklega sniðin til þess að geta ekki afséð.

Allt þetta er partur af útreiðinni sem ég bjóst alveg við af Six, en miklu síður gerði ég ráð fyrir einni mest kvennahatandi bíómynd sem hefur verið gerð seinustu árin, eða frá upphafi bíómynda! Það er aðeins ein kona í allri myndinni, klámstjarna m.a.s. (ég treysti á það að einhverjir hér þekki Bree Olson?), og verður stanslaust fyrir andlegri, líkamlegri og kynferðislegri misþyrmingu… og Tom Six vill að þú hlæir að því – og klappir jafnvel líka.

_83790132_18120229405_1f97ac7080_h

En af hverju er þá þessi æsta, ögrandi, rembingsfulla ælufata eitthvað betri en hinar? Nú, til að byrja með er eitthvað lúmskt skondið og frumlegt við þessa meta-nálgun hennar á söguþræðinum. Six sprengir m.a.s. sinn eigin skala í hégómanum með því að leika sjálfan sig í mynd sem oft hælir hans nafni. En það fyndna við það er sömuleiðis hvernig hann gerir smekklega grín að sínu eigin „kúkablæti“.

Þó mér líkaði ekki við hinar tvær myndirnar get ég aldrei sagt annað en að Dieter Laser og Laurence Harvey hafi verið fullkomlega valdir í sín ógeðfelldu hlutverk. Að sjá þessa tvo samankomna nú til að leika allt aðra karaktera jaðar við súra skemmtun. Laser, sér á báti, er merkileg þolraun út af fyrir sig í hlutverki karakters sem er helmingi aumkunnarverðara ógeð heldur en Harvey lék í seinustu mynd… og það er mikið sagt. Laser gæti vel hér verið með einn andstyggilegasta ofleik þessa árs; svo manísk frammistaða en mikið óskaplega nær þetta þýska furðufrík að fíla sig í þessu. Og það að sjá þarna aukalega menn á borð við Tiny Lister og Eric Roberts er annaðhvort hálfgerð snilld eða agalega despó, fyrir þá. En Roberts kemur að vísu fínn þarna inn, og með yfirleitt bestu viðbrögðin.

1280x720-wo0

Á tæknivinnslustigi er þriðja myndin best samsett og skotin. Fyrst að Six er ekkert að skafa undan ýmsum aspektum á kanahatri sínu reynir hann að gera allt eins óaðlaðandi og „amerískt“ og hann getur. Þetta er líka mynd sem skeinir sér með bandaríska flagginu með argasta stolti og þykist búa yfir krassandi samfélagsádeilu og óhefluðum skilaboðum. En ekkert af því ristir dýpra heldur en bara pjúra útreið og rembingsfull ögrun hjá Six. Öðru er ekki við að búast þegar slagorðið er „100% Politically Incorrect“. Ókei…

Human Centipede 3 er það sem hún greinilega vill vera, og það sem hún vill vera á sér víst afmarkaðan, truflandi aðdáendahóp. Ég er trúlega kvikindi fyrir að segja að það eru ágætir sadistasprettir inn á milli, og ég væri að ljúga ef ég segðist ekki hafa setið reglulega forvitinn um hvert færi næst. En fyrir utan það að dragast hart á langinn með þreytandi töfum er myndin bara með höfuð sitt svo fast uppí rassgatinu á sér og allir vita að Six hlær sjálfur hæst að þessu öllu. En hver þarf að eiga það við sig hvort hann sé á svipuðu plani eða ekki með þennan húmor…

fjarki

Besta senan:
Eric Roberts kemst í betra skap.

Sammála/ósammála?