Ant-Man

Hér með lýkur Phase 2 kaflanum hjá Marvel-stúdíóinu, ekki með heimsendapartíi eins og síðast, heldur smæsta ævintýri þeirra til þessa (pun intended og allt það…) frá því að fyrsta Iron Man-myndin kom út.

Tilbreytingin er hressandi. Engar stórborgir í rústum, enginn bílfarmur af karakterum til að slást um skjátímann og aðalsöguhetjan nú er óneitanlega sú hversdagslegasta af öllum sem hafa pósað í þessum MCU-heimi – þrátt fyrir að vera þjófur með mastersgráðu í rafmagnsverkfræði, aðstoð fantasíuvísinda og ofurmannlega krafta til að henda sér í mótorhjólagalla á fjórum sekúndum!

SW00031-720x388

Eðlilega lítur Ant-Man ekki í fyrstu út fyrir að vera harðasta eða merkilegasta hetjan af öllum núverandi – og komandi – Hefnendum en leynir helling á sér þegar færður upp á skjáinn með visjúal sköpunargleði í fyrirrúmi. Þar ekki síður hugmyndaríkum hasar sem leikur sér hressilega (og fyrst þetta er Marvel, þá MJÖG hressilega) að stærðarhlutföllum, sjónarhornum og umhverfum. Þú sérð ekki oft stórar ofurhetjumyndir þar sem lokabardaginn gerist allur í einu barnaherbergi.

Útkoman er fyndin og fyrir Marvel-fiðringinn er greinilega ekkert minna skemmtilegt eða epískt að sjá hin dæmigerðustu umhverfi frá sjónarhorni skordýrs heldur en geimveruinnrásir og hópbardagar. Myndinni tekst að hafa mikinn húmor fyrir kjánaleika hetjunnar eina stundina en sannfært okkur um hve hrikalega töff hún getur verið þá næstu. Af eðlisfari fylgir þess vegna nettur ferskleiki í brelluæðinu – og eflaust húmornum, eins mikið og hún fer annars þráðbeint eftir fyrirsjáanlegum klisjum, og þær eru ekki litlar.

Scott-Lang-Paul-Rudd-Steals-Ant-Man

Ant-Man fellur einmitt í þær gildrur sem fylgja oft MCU-formúlunni: veikt illmenni, flatar aukapersónur og hún er gjarnan háð óþörfum leiðum til þess að þræða þetta allt við stærri heiminn (eitt tiltekið gestahlutverk rýkur þar sérlega af speis-filler nördakitli). Ég kann reyndar mikið að meta „heist“-mynda nálgunina sem hún tekur á þessa kynningarsögu.

Gallinn er svolítið í því hve sterkt hún mótar þessa nálgun í kringum uppskriftina sem hin lúmskt ofmetna Iron Man 1 notaðist við; alveg frá gallaða, fyndna aðalmanninum – sem neyðist til að koma sér á rétta braut eftir prísund – til montage-sena þar sem hann stígur barnaskrefin í búningnum og sköllótta skúrksins sem smellir sér í sambærilegan ofurgalla undir lokin. Fyrir utan töluvert hugmyndaríkari hasar tæmdi þessi allt frá þeirri mynd sem hún stal ekki hvort sem er frá Batman Begins.

Ant-Man skýst á góðum hraða en tekur því rólega á sjónarspilinu fyrsta klukkutímann eða svo, því aldeilis hefur hún nóg af díalog sem stafa alla hluti beint út, í mótiveringum og exposition-flóði. Í lokahlutanum öðlast mynin orkubúst sem hún hefði innilega þurft á að halda fyrr.

Maður rétt kemst yfir mauraþúfurnar af holunum í plottinu því myndin virðist ætla sér að vera gamanmynd fyrst og ævintýri svo. Blandan kemur ekki alltaf vel út en Paul Rudd er allavega hörkugóður; viðtengjanlegur og umfram allt viðkunnanlegur (enda Paul Rudd!) í hlutverki titilgæjans. Hann gerir lítið sem við höfum ekki séð af honum áður en kemur út sem miklu meira en bara innbrotsþjófur sem fær að leika sér með hentuga krafta. Hann selur algjörlega hlýju, neyð og örvæntingu manns sem vill fyrst og fremst bara berjast fyrir dóttur sinni.

Michael Douglas er þó bestur hérna. Fyndnastur, alvarlegastur og býsna frábær sem vísindaundrið Hank Pym, upprunalegi Mauramaðurinn. Pym leyfir þjáða föðurnum og nagandi eftirsjá hans alveg að skína í gegn. Evangeline Lily er ágæt sem dóttir hans en karakterinn fær lítið að njóta sín (eitthvað sem hún sjálf kommentar á) og Corey Stoll gerir ákaflega fínt úr litlu. Sama saga með Bobby CannavaleMichael Peña kemur og stelur sumum senum, að púlla sömu stereótýpu og hann gerði í Observe & Report, en verður full ofaukinn líka og lamar þ.a.l. aðrar.

r0jhlek

Eins og margir vita var framleiðslusagan á Ant-Man ekki alveg sú snyrtilegasta. Fyrst var myndin hugsuð út sem sjálfstæð saga. Í mörg ár hafði Cornetto-keisarinn Edgar Wright unnið að handritinu með félaga sínum Joe Cornish (Attack the Block) og var langt kominn með undirbúninginn þegar hann átti að leikstýra. Rétt fyrir tökur kemur í ljós að framleiðendur fiktuðu í handritinu án samþykkis Wrights. Leikstjórinn kvaddi og gafst þá vandræðalega stuttur tími til að púsla saman allri rest.

Rudd og Adam McKay (Step Brothers, Anchorman) endurskrifuðu stóran hluta af efninu og á endanum kom Peyton Reed (sem gerði m.a. Bring it On, Yes Man og hina sjúkt vanmetnu Down with Love) og sá um að klára hálfa „Edgar Wright“-mynd sem þurfti að spýta af færibandinu á mettíma.

Wright er að mínu mati oft snillingur með strúktúr, leikara, hnyttinn díalóg, falda dýpt og skotstillingu, og fyrir utan þetta næstsíðasta hefur eitthvað af því laumast í lokaklippið. En hefði útgáfa hans passað inn í MCU-heiminn eins og hann er orðinn mótaður í dag? Líklegast ekki. Hafa Disney/Marvel-mennirnir oft beilað á áhættu og traðkað grimmt yfir leikstjóra sína? Hiklaust! eins og Whedon, Taylor, Favreau og ýmsir fleiri hafa ekki farið leynt með í viðtölum.

ant-man_2

En Reed, í ljósi aðstæðna, stóð sig hins vegar prýðilega og þrátt fyrir vankanta með karaktera og tón þá heldur hann eins fast utan um hjartað á sögunni og hann getur. Það er sjálfsagt kredit til hans líka að niðurstaðan beri lítil merki um sundurtætta samsetningu, bara rútínulega gelda í staðinn. Brellurnar eru annars flottar flestar en fáar betri en stafræna aldursslípunin á Michael Douglas í upphafssenunni.

Ant-Man er sísta myndin í seinni Marvel-fasanum á eftir Thor 2 en það setur hana alls ekki í neina drullu. Undir smásjánni er þetta fín, fjörug og hress afþreying með sál en lítil áhrif, flottan hasar en takmarkaða spennu og fyrir hvern brilliant brandara sem flýgur fylgja a.m.k. tveir á eftir sem hefðu mátt enda á klippigólfinu. Leikararnir, þá Rudd, Douglas og Lily sérstaklega, eru samt meira en velkomnir í þennan heim og ætti að vera stuð að sjá meira af þeim seinna meir.

sexa

Besta senan:
Hope og Pym takast á við fortíðina.

Ein athugasemd við “Ant-Man

  1. var mjög vonsvikin með illmennið, þó lokabardaginn var GEÐVEIKUR þá erum við búin að sjá allar Marvel ofurhetjurnar berjast við illmenni með sömu kraftana, komið nóg af þessu svart vs hvítt bardaga atriðum, hvenær fáum við að sjá svart mæta fjólubláu?

Sammála/ósammála?