Fantastic Four (2015)

Ég er víst á meðal örfárra sem myndi aldrei kalla hinar Fantastic Four-myndirnar ÞAÐ slæmar, eins og meirihluti öskrandi myndasögunörda vill meina. (Fyrri myndinni mæli ég persónulega betur með í lengri útgáfu sinni, en það er dauft lof.) Báðar tvær eru óneitanlega hvorki minnisstæðar né skarpar myndir en mátulega kjánalegar og lúmskt skemmtilegar skrípóafþreyingar. Báðar með vit fyrir því að taka ekki þennan tiltekna kómíkpakka of alvarlega. Af ástæðu…

Nýja Fant4stic ‘ríbúttið’ gerir þveröfugt. Hún tekur þetta teymi og kaffærir þeim í litlausum, grafalvarlegum tón – sem er síðan stöðugt áttavilltur um það hvort hann vilji breytast í léttara ævintýri eða ekki. Úrvinnslan er ekki heilsteypt verk frekar en skilaboðasaga um margt sem á ekki að gera við Hollywood-mynd. Eitt það versta sem ofurhetjumynd getur gert sjálfri sér er að vera býsna leiðinleg, eða löt. Það er eins og leikstjórinn Josh Trank hafi sett fyrri mynd sína, hina dúndurgóðu Chronicle (sem sjálf sótti helling í Akira, ofurkraftaklisjur o.fl.), í sömu volgu pilot-formúlu og gamla 2005-myndin.

Fantastic-Four-Doom

Sama saga, eða svo gott sem, svipuð (maukþjöppuð) heildarlengd, keimlíkur strúktúr, engin epík eða undurtilfinning. Bara stanslaus uppbygging og ekkert ‘payoff’. Tim Story-myndin var nógu sparsöm á hasar en Fantastic Four, 2015 eintakið, toppar hana með trompi. Gæti trúlega verið hingað til sú ofurhetjumynd sem hefur hvað minnsta magn af hasar sem ég veit um. Iron Man 2 er eins og Pacific Rim í samanburði við þessa.

Hasar er margt í svona myndum en ekki allt. Skorturinn á slíkum væri í lagi mín vegna ef áherslan og áhugi fyrir persónunum væri til staðar og framvindan á góðu grípandi róli. Það er nánast þannig í fyrri helmingnum. Hann er flatur en pínu spennandi. Síðan í kringum miðjuna er eins og allt hafi fari til fjandans í klippiherberginu, eða framleiðendur orðið of óþolinmóðir.

Mann líður eins og ekki bara heila kafla vanti heldur sub-plott, mótiveringar og, leitt að segja það – en eðlilegt, meiri hasar! Lokauppgjörið klárast áður en maður veit af, með meistaralegri and-klímax sveiflu og beint í kjölfarið á því er eins og myndin sé í bráðaflýti að klárast. Einmitt þegar hún tók sinn afslappaða tíma í alla byggingu.

This photo provided by Twentieth Century Fox shows, Kate Mara, left, as Sue Storm, and Michael B. Jordan as Johnny Storm, in a scene from the film,

Þetta er súr óreiða, en samt svo næstum-því-spennandi vegna þess að Miles Teller, Michael B. Jordan, hin óbrosmilda Kate Mara og ‘hálfur’ Jamie Bell koma frekar vel út saman sem fræknu fjórmenningarnir. Eini hængurinn er að ég kaupi ekkert þeirra sem „unglinga“. Annars öll með einkennin á hreinu en nýtast fremur illa því séns á meiri dýpt í hverri frammistöðu skaddast út af handritnu. Þau fá varla neinn tíma til þess að þróa almennilega kemistríu, samband eða samspil.

Toby Kebbell er fínn sem Victor von Doom, eða enn ein litlausa túlkunin á einu þekktasta Marvel-illmenni allra tíma. Kebbell er fínn áður en hann setur á sig grímuna: bitur, stórfyrirtækja-hatandi (hæ, Fox!), truflað gáfaður hakkari (og stórhættulegur umhverfissinni??) sem hefði mátt fá aðeins meiri skjátím. Þegar hann er strax dottinn í morðóða skúrkinn með breytist hann í vonda tölvuleikjafígúru, með óútskýrða guðakrafta og áætlanirnar hans heimskulega út úr kú. Tim Blake Nelson stoppar við sem týpískur corporate-skíthæll #325. Reg E. Cathey er þó með því besta við myndina, ef ekki bara út af þessari mögnuðu rödd sem læsi betur inn á trailera heldur en Morgan Freeman hvern dag vikunnar. En merkilega gerir hann fátt annað en að stafa út ræður um samvinnu.

fantastic-four-screenshot-Reg-E.-Cathey

Trank tekst að koma fyrir einhverjum dassi af þessum litla sci-fi/horror-væb sem hann hefur sóst eftir að ná. Þetta er næstum því eins og stór, tætt indí-mynd dulbúin sem sundurlaus stúdíóvara. Seinasti hálftíminn sérstaklega verður svo dæmigerður, nánast það fjarstýrður að púlsinn tekur aldrei kipp. Líka leitt að ekki varð til betri tónlist úr samstarfi þeirra Phillip Glass og Marco Beltrami auk innleggs frá Ólafi Arnalds.

Að frátöldum The Thing eru brellurnar þar að auki lítið betra en það sem hin áratugagamla samnefnda mynd hafði upp á að bjóða – og þær voru ekki einu sinni góðar á þeim tíma! En grótlurkurinn lítur a.m.k. ögn betur út í pixlum en gúmmíbúningnum sem Michael Chiklis eignaði sér með ágætum.

Það er nægur bömmer að ofurhetjumynd með þessu nafni standi engan veginn undir því í ómerkilegheitunum sínum (og meira þegar standardinn var þegar ekki hár fyrir þetta gullaldarbrand), en minna aðlaðandi að hún trekkir upp lítinn sem engan áhuga fyrir framhaldi.

This photo provided by Twentieth Century Fox shows, Kate Mara, left, as Sue Storm, and Michael B. Jordan as Johnny Storm, in a scene from the film,

Kannski með viðbættum hálftíma og hnitmiðari seinni helming hefði getað ræst eitthvað meira úr þessu, en orðrómar (og öll trailer-skotin sem vanta í lokaklippið…) hafa sterkt bent til þess að meira kaos en harmónía ríkti í þessari framleiðslu baksviðs. En stúdíópólitíkin á ekki að skipta máli, heldur lokavaran, og það stendur eiginlega ekkert eftir nema sóðalega tóm origin-froða sem virðist ekki vera með neinn fókus á markhópi sínum.

Of viðburðarlítil, grimm og óspennandi fyrir yngri hópinn og þreytulega þunn, þvæld og köld fyrir þá eldri. Enginn frábærleiki í augsýn. 40% áhugaverð, 0% fjör.

fjarki
Besta senan:
Doom reiður. Splatt.

Sammála/ósammála?