Mission: Impossible – Rogue Nation

Hvort sem þú elskar eða meikar ekki Tom Cruise geturðu svo innilega ekki neitað því að hér er maður sem kann 110% að sinna starfi sínu; bíóstjarna fyrst, og leikari svo… og þeim hefur farið aldeilis fækkandi í gegnum árin, mest í hasarmyndum. Og hér er bíósería sem spilar alltaf betur og betur með hans styrkleika. Sería þar sem hann í orðsins fyllstu merkingu klifrar eða hangir í hæstu hæðum til að sanna hve ákveðinn í því hann er að vera svalur.

Mission-serían hefur reyndar staðið sig mun betur en flestar hasarseríur að halda sínum gæðastandardi stöðugum og áherslu á slílískri fjölbreytni með því að fá nýjan leikstjóra fyrir hvert stykki. Sú fyrsta kom út fyrir nítján árum og að frátaldri einni epískt hallærislegri John Woo-mynd hafa þær allar verið skotheldar afþreyingar. Engin þeirra hefur verið neitt über-geðveik eða æfing í masterklassa handritsgerð. Öll höfum við fyrr séð sambærilegar myndir dafna verr eða þreytast með tímanum. Ekki þessar, og Mission: Impossible – Rogue Nation er hingað til sú besta.

maxresdefault

Traust samsetning, tonn af fjöri út í eitt og spennandi taumur á blekkingarvefjum. M:I-5 er ekkert brjálæðislega mikið betri en sú fyrsta (þessi sem hafði eftirminnilegasta „innbrotið“), þriðja (sterkasta illmennið) eða fjórða (allur Dubai-kaflinn þar verður seint toppaður) en hún er sú fyrsta sem tekur frábærlega saman öll hráefnin sem hafa virkað best í seríunni (meira að segja með betri mótorhjólahasar en í 2) og hnoðar því saman í hráa, minimalískari njósnasögu af eldri skólanum… sem gefur þér samtímis meira eða minna allt sem þú vilt fá úr sólid spennumynd.

Hasaratriðin eru mörg hver ótrúlega flott – og betra er að engin tvö eru eins (!) – þau hafa alls ekki allan forgang, sem er gott, hressandi og svipar hvað mest til fyrstu Brian DePalma myndarinnar. Hún var plottkeyrð fyrst og fremst og spilaði meira með lægra tensjón í stað sprenginga. Bestu hápunktarnir í 5 koma m.a. frá kafla þar sem áhættufíkillinn Ethan Hunt lætur reyna á það að halda niðri í sér andanum í kafi ofurmannlega lengi, og öðrum meistaralega flottum sem gerist í óperuhúsi. Minnir nokkuð skemmtilega á Foul Play.

mission-impossible-rogue-nation-rebecca-ferguson-review

Síðan er vitanlega ekkert nema magnað að segja um stöntið sem markaðssetningin hefur hvað mest (gáfulega!) fókusað á; þegar Krúsi sprangar á spikfeitri herflugvél í miðju lofttaki. Sú sena hefur tæknilega séð lítið með plottið að gera og meira gerð upp úr sýniþörf, en virkar óneitanlega og myndin tók rétta ákvörðun með því skella þessu í opnunarsenuna, bæði til að setja staðalinn óhemju hátt og undirstrika að margt lofsamlega klikkað gæti gerst næstu tvo tímanna.

Uppskriftin er yfirleitt eins, plottin missvipuð en kvikmyndagerðamennirnir hafa séð um að pakka þessu í mismunandi umbúðir og leyfa föstum stíltöktum sínum njóta sín. Leikstjórinn og penninn Christopher McQuarrie hefur lengi þekkt og unnið með Cruise, einkum prýðilega sannað sig á sviði ‘gritty’, gamaldags spennumynda (kíkið á The Way of the Gun!). Ég er ekki stærsti aðdáandi Jack Reacher en kannski hefði þar getað ræst betri mynd með einhverjum öðrum í aðalhlutverkinu. McQuarrie er lítið fyrir of fínslípaða Hollywood-ramma og fær fagmanninn Robert Elswitt, sem t.a.m. skaut einnig Ghost Protocol – og allt öðruvísi, til að setja miklu dekkri og stílíseraðri litatón á seríuna.

rebecca-ferguson-and-tom-cruise-star-in-mission-impossible-rogue-nation

McQuarrie er heldur ekki að gera dæmigerða og heilalausa hasarmynd. Hann losar sig við melódramað, tekur efnið mjög alvarlega en leyfir því aðeins að gera grín að sjálfu sér inn á milli. Sakar heldur ekki að nefna hversu flott tónlistin er, sem og umhverfin öll áhættuatriðin, Krús-laus eða ekki. Í nætursenum standa samt „grain“ pixlarnir stundum út, og taka sig ekki best út á viðbjóðslega stórum skjám, en í öðrum og alflestum tilfellum er ræman glæsilega tekin upp.

Af öllum Mission-myndunum hefur þessi líka líflegasta leikhópinn. Cruise hefur sjálfur mikið lært af fyrri mistökum og passar að einoka ekki sjálfur allt sviðsljósið frá öllum. Tek það samt ekki frá honum að hann smelli sér gallalaust í skó Hunts á ný.

Sænska leikkonan Rebecca Ferguson er frábær viðauki í teymið (og mörgum skrefum ofar frá hinni persónuleikadauðu Paulu Patton úr seinustu mynd), sem stelur makalaust allri myndinni. Skömmustulega gullfalleg og jafningi Cruise á allan veg eða meir í rassaspörkum og hugviti. Sömuleiðis er stuð að sjá Simon Pegg endanlega útskrifast úr „comic relief“ gæjanum yfir í það að vera tekinn meira alvarlega sem hluti af hópnum, þó hann sé sjálfsagt aldrei fjarri gríninu. Húmorinn deilist þó á milli þeirra Pegg, Jeremy Renner og Ving Rhames og vantar ekki upp á það að þeir láti allir vel um sig fara sem áður.

Sean-Harris-in-Mission-Impossible-5

Alec Baldwin kemur líka þarna góður inn, og smáskammtur af alvarlegum Alec er oftast betra en ekkert. Sean Harris er fínasta illmenni, svona illa hliðstæða Hunts. Hann er enginn Hoffman og fellur undir þessa klassísku austur-evrópsku stereótýpu en skilur alveg eftir sín spor.

Ef við horfum yfir hasarmyndir sumarsins er ekkert og nálægt því sem kemst í tæru við adrenalínvímu eins og Fury Road, en sökum litlauss úrvals yfir heildina stekkur Mission: Impossible – Rogue Nation beint í annað sætið. Hún tapar aldrei afþreyingargildi sínu né tökum á púlsinum. Vel skrifuð og skemmtileg. Annað þarf maður ekki. Krúsinn í fantaformi, Ferguson meira en velkomin og gamla þemalagið hættir aldrei að koma manni í rétta stuðið.

8

Besta senan:
Krús á kafi.

Sammála/ósammála?