Trainwreck

Judd Apatow hefur eitthvað loksins lært, og aðeins betur farinn að vita hvenær ekki skal toga einfaldar gaman(með-drama-)myndir sem hann leikstýrir út í hinar örlátustu lengdir. Sömuleiðis fínt að sjá hann færa sig örlítið frá sínum eigin einkahúmor eða radíus og gefa loksins hinu kyninu eitthvað stórt og fullmótað hlutverk án þess að það þurfi að vera eiginkonan hans.

Amy Schumer og Apatow smellpassa saman, og lyftist allt í einu upp ferill hans með því að gefa henni sviðsljósið. Bæði uppistandarar, hvöss, með svipaðan húmor og spólandi áhuga á því að spinna og „riffa“ út í allar áttir. Trainwreck er þrælskemmtileg sameining þessara krafta þeirra. Týpísk með rotnu t-i, en skemmtileg. Hreinskilin, með eitthvað af biti, sjarma og nóg af fyndnum aukaleikurum til uppfyllingar, einum þar alveg sérstaklega ómetanlegum.

Trainwreck-Set-Visit-Amy-Schumer-Featured-970x545

Allir og ömmur þeirra hafa séð þessa rómantísku gríndramedíu áður, en við höfum hins vegar ekki séð slíka mynd eins og Schumer sér hana fyrir sér, sem handritshöfundur og í aðalhlutverki. Þekkt fyrir það að vera ‘súbversív’ og djörf setur hún tvímælalaust sinn persónulega stimpil og bregðir sér í rullu sem karlar hafa hingað til oftar tekið að sér. Þ.e. kærulausi einstaklingurinn með skuldbindingar- og ábyrgðarfóbíuna sem parast síðan upp við óreyndari ljúfling.

Maður hefur svosem séð týpurnar verri ef á að fara að tengja líf aðalpersónunnar við eitthvað ‘lestarslys’, en Amy er þó langt frá því að vera sú viðkunnanlegasta. Listinn yfir galla hennar trompar kannski ekki fjölda tölu þeirra sem hún hefur sofið hjá, en hann er átakanlega langur. Sjálfhverf, barnaleg, tillitslaus, þröngsýn og pirrandi í samskiptum, en satt að segja á besta máta því Schumer er aldrei ómeðvituð um þessa þætti, enda hress, snjöll, óvægin og fer létt með að leika sjálfa sig og m.a.s. koma á óvart í alvarlegri töktunum. Ég var aldrei mikill aðdáandi hennar áður, en sýnilegu leikhæfileikarnir og einlægnin hafa aðeins breytt því.

trainwreck

Trainwreck leikur sér yndislega að kynjamyndum og tappar inná heilmikið raunsæi en hún virkar ekki alltaf í dramanu, eða tónaskiptingum. Það er oftast meira þvinguð rútína heldur en eitthvað sem sagan vinnur sér inn (t.d. hvernig einn krakki í myndinni breytist allt í einu úr reglulegum brandara yfir í rödd samviskunnar í lokin). Í annars frekar eðlilegum senum, þar sem Schumer rýkur fullöfgakennt í uppistandssgírinn, er yfirleitt púllað mann alveg út úr veruleikanum. Þegar djókurinn er löngu búinn bætist yfirleitt einn annar við, og oft.

Þau Apatow kunna svolítið lagið á það að stoppa eða hægja asnalega á annars þrælfínu flæði. En þrátt fyrir að þetta sé á meðal stystu Apatow-myndanna hefði vel mátt saxa niður lengd á við heilan ófyndinn grínþátt. Segjum 20 mín.

trainwreck_still_1

Bill Hader er annars frábær á móti Schumer, eða stakur. Maður sem ég hef oft og lengi álitið einhvern þann fyndnasta í heimi og meistaralega fjölhæfa eftirhermu fær loksins að strípa hana niður og leyfir sínum kammó, hversdagslegu litlu persónutöfrum að njóta sín í stóru aðalhlutverki (mæli líka með The Skeleton Twins, ef út í það er farið). Viðbjóðslega viðkunnanlegur og krúttlega gallaður „draumaprins“.  Þau Schumer eru það góð saman að maður fyrirgefur þessar niðurnegldu formúlur sem hún er svo stíft háð. Sagan gæti ekki verið fyrirsjáanlegri en þeirra persónur eru sem betur fer allt annað en dæmigerðar inn við beinið.

Tilda Swinton er meiriháttar góð og fyrrum mótleikari hennar, Ezra ‘bráðum-Flash’ Miller ásamt Colin Quinn og Vanessu Bayer nýta sinn tíma vel. Brie Larson er líka sannfærandi og ljúf sem ábyggilega eina persónan í allri myndinni sem reynir að taka innihaldið og hlutverk sitt fullkomlega alvarlega. LeBron James setur skondinn og hressandi snúning á týpíska ‘besta vininn’ með því að bókstaflega leika sjálfan sig, og verður aldrei of tilgerðarlegur til þess að einkahúmorinn gangi ekki upp. Hann stelur mörgum senum, en það er þó ENGINN í allri myndinni sem hleypur eins fljótt burt með hana og glímukóngurinn John Cena, sem því miður hverfur alltof snemma – en þær senur sem hann eignar sér eru bilaðslega fyndnar.

Trainwreck-John-Cena-sex-scene

Apatow hefur áður kafað aðeins dýpra ofan í líf einstaklings sem neitar að fullorðnast, þema sem virðist vera honum afar kært. Trainwreck er heldur ekki hans fyndnasta mynd en hún vann mig hratt á sitt band og hefði léttilega getað orðið æðisleg í fínpússaðri lengd. Ef þú veist fyrirfram að þú fílar ekki Schumer eru hugsanlega helmingslíkur að myndin gæti snúið því við. Fínar líkur. Og ef þú vissir heldur ekki áður hver John Cena var áður, þá muntu seint gleyma honum eftir þessa.

thessi

Besta senan:
Hvaða Cena sem er.

Sammála/ósammála?