54 (Director’s Cut)

Til eru alveg ýmis dæmi um það að mikil afskipti framleiðenda yfir lokaklippi leikstjóra hafi skilað betri árangri. En síðan eru hin tilfellin, þar sem upprunaleg sýn tiltekins leikstjóra hefur verið hrifsuð frá, út af agressívri flopphræðslu, egótrippi eða einni mislukkaðri prufusýningu.

Partímyndin 54 (oft kölluð ‘Studio 54’) fer rakleiðis í seinni kategoríuna og þykir mér eiga eina sorglegustu sögu um slátrun í eftirvinnslu. Bíómynd sem Mark Christopher (fyrrverandi upprennandi leikstjóri og handritshöfundur) eyddi mörgum árum í að undirbúa og lagði mikið af sjálfum sér í, bíómynd sem laumar á sér Mike Myers frammistöðu þar sem hann hefur aldrei og síðan verið betri. Bíómynd sem fékk aldrei að njóta sín til fulls fyrr en sautján árum eftir útgáfu.

Það er skiljanlegt að áhorfendur og gagnrýnendur ypptu allir öxlum þegar myndin lenti á sínum tíma. Hún var sundurslitin, geld og gaf upp lítið af bitinu, sukkinu og greddunni sem tilheyrði einhverjum þekktasta diskóklúbbi sögunnar. Christopher fékk ekkert svigrúm til að leyfa passjón-verkefni sínu að anda út eins og hann vildi, og gerði síðan voðalega lítið merkilegt á ferlinum í kjölfarið. Glatað.

Með 54 – réttu útgáfunni – var engu tilsparað með því að sýna hlutina eins og þeir voru. Hún hefði prýðilega fylgt á eftir t.d. Boogie Nights, með aðeins dekkra og poppaðra ’70s innliti (og báðar með ÆÐISLEG sándtrökk), eða jafnvel hina ágætu The Last Days of Disco. Stuttu eftir að Christopher gekk frá lokaklippinu fór allt í kerfi þegar Harvey Weinstein stillti upp prufusýningum og fékk hörð og neikvæð viðbrögð.

Leikstjórinn sagði opið út að þær sýningar voru fyrir kolrangan hóp; fólk sem þótti dópneyslan fráhrindandi og neikvæðir punktar minntust einnig neikvætt á kynlífið og tvíkynhneigð aðalpersónunnar. Kaldhæðnislega skoraði Boogie Nights mun lægri tölur á sambærilegum prufum…

RyanPhillippe54

Á tíunda áratugnum var Harvey Weinstein og bróðir hans mikið þekktur fyrir að skera niður kvikmyndir, fiffa í þeim og hella sig yfir leikstjóra. Það er ekki af ástæðulausu að meistari Miyazaki gaf honum katana-sverð að gjöf með skilaboðunum “No Cuts“, það var þegar Harvey dreifði Mononoke. En Weinstein tók kast og heimtaði að tæpur helmingur 54 yrði tekinn upp á nýtt, með markmiðið að tóna niður kynorkuna og gera persónurnar „viðkunnanlegri“. Arkirnar gjörbreyttust – aðalkarakterinn nú orðinn gagnkynheigður – og sagan tapaði allri heildarsýn. Weinstein krafðist þess líka að stækka tiltölulega litla hlutverk Neve Campbell út af því að Scream gerði hana stórvinsæla í denn (áður en hún… hvarf). Christopher var einnig furðulega skipað til þess að auka birtuna í djammsenunum.

Leikstjóraútgáfan náði loksins að klóra sig út á þessu ári og hlaut nokkrar frumsýningar á kvikmyndahátíðum en rataði mest á skjáleigur, með rúmlegum hálftíma af óséðu efni, og hún er skilyrðislaust miklu betri mynd. Af eiginlega allt öðrum plánetustandard.

2015-06-17-1434582695-6695591-54TDC_ks_1

Myndin er kannki ekki brilljant en hún er týndur fjársjóður samt sem áður. Það eru nokkrir hnökrar í flæði og hún endurtekur sig pínu. Útgáfan er heldur ekki í toppstandi, útlitslega séð. Margar hráu filmurnar glötuðust og þurfti á fáeinum stöðum að notast við sömu tökur af VHS-filmum. Það þýðir að fáeinir – en alls ekki truflandi margir – rammarnir detta í óskýr spólugæði. Þetta lítur alls ekkert illa út í danssenum og gefur henni smá heimildarbrag sem passar við períóduna. Sem betur fer sést hérna betur í staðinn hvernig andrúmsloft leikstjórans poppar út, sveitt, stuðríkt og dökkt. Í samanburði leit í hinni útgáfunni út eins og klúbburinn væri opinn um hádegi en ekki kvöld eða nætur. Christopher er að öðru leyti mikið með tískutengd og músíksmáatriði sín á hreinu, þrátt fyrir að ’90s áferðin elti hana pínu.

Sagan er sögð frá sjónarhorni Jersey-búans Shane, sem þráir viðburðarríkara djammlíf og dreymir um að vera umkringdur frægu fólki. Heppilega, þökk sé þess að vera fjallmyndarlegur í formi – og með það skilyrði að halda sér úr skyrtulausum – fær hann auðveldan aðgang að umtalaðasta klúbbi stórborgarinnar og stuttu síðar vinnu sem barþjónn. Misserin líða, vinsældir hans aukast, bólfélögum fjölgar, lífsstíllinn magnast. Persónurnar hegða sér eins og eðlilegar, gallaðar manneskjur. Spenna myndast og alveg eins og diskóið sjálft er aðeins tímaspursmál hvenær klúbburinn deyr út. Munurinn á milli útgáfa er að vísu gerólíkur ef við skoðum hverjar þemurnar eru og lykilfókus karaktera. Áður var þetta mestmegnis bara samansafn atburða, með hræðilegum endi.

54-directors-cut-1

Ef myndin hefði slegið í gegn hefði Ryan Phillippe orðið trúlega miklu eftirsóttari, þannig að það gæti verið einn af fáum bónusunum við floppið. Hann hefur alltaf verið misgóður og yfirleitt sjarmalaus en í 54 er þarna komið hlutverk sem er glæsilega sniðið að honum ungum. Hinn vitgranni Shane er ungur, sprækur og spontant „pretty boy“ sem er ósigrandi og vinsæll í þægindasvæði sínu en með prívatlífið stefnulaust og í tjóni utan veggina. Minnir smávegis á John Travolta í Saturday Night Fever en bara án danshæfileikanna. Og það er mynd sem á sér einmitt réttmætan samanburð við 54 í innihaldinu, þá ótengt diskóinu.

Breckin Meyer og ólöglega fögur Salma Hayek eru fín og heillandi á sinn hátt í öðrum aðalhlutverkum. Hvorugt þeirra fékk almennilega örk í hinu klippinu en nú eru þau samanlögð orðin að eina og stærsta hjartslætti myndarinnar. Merkilega vill til að Mark Ruffalo, sem hér dúkkaði upp alveg óþekktur sem púkalegi félagi Shane, sé sjálfsagt sá leikari úr heildarhópnum sem átti hvað farsælasta bíóferilinn seinustu tvo áratugi. En Myers er óumdeilanlega litríkastur og sterkastur af öllum. Hann er gamanleikari sem hefur gert ótalmargt brillerandi og óþolandi í skömmtum, en gervi og eftirhermur eru honum sérgrein.

Myers gerir góða mynd að þessu sinni alveg frábæra (eða kemur bestur út úr óreiðunni, ef þú horfir á bíóútgáfuna) í hlutverki klúbbkóngsins Steve Rubell. Hann er algjörlega óhræddur við það að vera aumkunnarverður, pínu ógeðfelldur og sorglega skemmtilegur, allt einkenni sem negla niður hinn tilfinningadauða en athyglisverða Rubell. Ég hef sjaldan álitið Óskarsverðlaunin ofurmarktæk en ef Weinstein hefði aldrei fitlað við myndina tel ég alls ekki ólíklegt að Rubell hefði græjað grínaranum tilnefningu. Hryllilega vanmetinn performans.

Ef þú sást einhvern tímann 54 í denn eru stórmiklar líkur á því að þú munir lítið eftir henni, og ef þú sást hana aldrei er skipunin þau sömu: gefðu réttu útgáfunni séns. 54: DC er engin Boogie Nights, né Saturday Night Fever. Tiltölulega meinlaus í dag en hefði mætt með ákveðnu afli árið ’98. Myndin hefur annars mikinn karakter, góðan takt og fókusar á stórmerkilegt kúltúrstímabil með flottum árangri. Klisjukennd á margan veg en gefur samt allt sem er hægt að ætlast til af umfjöllunarefninu; diskódjamm, kynlíf, dóp, græðgi, hégómi, hedónismi, músík, framhjáhöld… og allt rúllað upp með smá persónusköpun í kaupbæti.

Í smámunasamari heimi myndi einkunnin lenda milli sjöu og áttu. Læt bara 8 diskókúlur nægja…

EC008

Besta senan:
Ljósin kvikna.

Sammála/ósammála?