Pixels

Nógu slæmt er það þegar Adam Sandler skemmir sínar eigin bíómyndir með lífshættulega þreytta húmornum sínum, því maður býst akkúrat aldrei við neinu öðru af honum. Mun verra er þegar hann treður sér í stóra brellumynd með yndislega kjánalegu premise’i og eitthvað af góðu hæfileikaliði… bara til að einoka sviðsljósið og míga glaður yfir alla ræmuna.

Annað en megnið af því sem Happy Madison hefur reglulega (d)ælt út var Pixels ekki dauðadæmd frá upphafi. Stuttmyndin er svosem stórfín eins og hún er; hugmyndarík æfing í brellum og lítið hægt að gera til að bæta hana – en ekki ómögulegt. Til dæmis með óbeisluðum húmor fyrir eigin hallærisleika og hnyttnu handriti sem hefði þverneitað að taka nokkuð alvarlega. Þá hefði líka þurft leikstjóra sem hefði leyft sér að vera yfirdrifnari, fjölbreyttari, fjölhæfari og ekki umkringdur þroskaskertum framleiðendum.

Myndin hljóp einmitt beint í hina áttina. Hún er heimsk, hallærisleg, ekkert fyndin og ferlega frústrerandi misþyrming á nostalgíu. Og fyrst þetta er Happy Madison mynd má auðvitað reikna með lágkúrulegri lítillækun, ódýrum hommabröndurum og epískri leti.

Adam-Sandler-Pixels-2015-Photos

Sandler eldist alltaf og eldist en markhópurinn hans gerir það ekki – hann minnkar bara. Pixels hefur ekki einu sinni hugmynd um handa hverjum hún vill vera, öðrum en ofvöxnum smábörnum eins og Sandler. Húmorinn er krakkalegur en yngri kynslóðin týnist alveg í ’80s dýrkuninni til að hitta í mark. Myndin á heldur ekkert erindi til nýrra kynslóða tölvuleikjafíkla, sem margar ástæður eru fyrir en sú stærsta er sena þar sem Sandler sest niður og kúkar yfir The Last of Us.

Pixels hlýtur líka þann stórfurðulega heiður að bjóða upp á einhverjar heimskustu geimverur frá upphafi poppkúltúrsins, meira að segja á mælikvarða sci-fi aulagrínmynda. Það kemur svosem ekkert á óvart þegar um er að ræða mynd sem hendir Kevin James í forsetastólinn án þess að depla auga en hugmyndin um áttavillta geimveruinnrás – í formi gamalla spilakassafígúra – og hvernig hún spilast út er aðeins afsökun til þess að Sandler og félagar geti baðað sig upp úr linnulausri nostalgíu. Það síðasta sem Pixels þarf að gera er að meika sens en hún þarf samt að ramma inn einhverjum reglum innan marka, í stað þess að endalaust breyta þeim eftir plottþörfum. Það er t.d. enginn tilgangur með því að troða Q*bert þarna inn í miðja mynd, nema bara til þess að keyra upp krúttleikann hans og gefa honum þróunarörk sem á öllum tungum mætti kalla pervertíska.

Adam-Sandler-Pixels

Chris Columbus hefur fína titla undir sínu nafni en þeir bestu hafa aldrei verið grínmyndir (Mrs. Doubtfire er undantekningin, enda sýnilegt dæmi um allt öðruvísi gæðalevel hjá grínistanum sem hann vann með). Þegar Sandler er framleiðandi er mikið en í senn lítið sem þarf til fyrir þennan leikstjóra að gera verstu mynd sína til þessa, en það gekk. Eftir seinustu skelli og skítapolla hefði annars gagnast Sandler mjög fínt að deila meira tjaldinu með öðrum fagmönnum og koma sér í annan gír. Neinei, hann hirðir auðvitað mestu athyglina og fyrst þetta er retró-tölvuleikjamynd er fátt sjálfsagðara en að hann setji sig á stall sem eina von mannkynsins sem vonandi fær skvísuna að verðlaunum í lokin. Blegh.

Þegar Sandler er farinn að slást um skjátímann með fólki eins og Peter Dinklage, Michelle Monaghan, Brian Cox og Sean Bean verður það bara meira áberandi með sekúndunni hvað egghausinn er miklu latari og áhugalausari heldur en allir aðrir, eða með sorglegt ofmat á eigin fjarstýrðri getu. Monaghan er reyndar best í hópnum því hún hefur oftast einhverja örlitla sjarmatöfra í sér að lágmarki, og það er mikið kredit til hennar að geta haldið andliti á meðan einhverjir rómó-straumar eiga að svífa milli hennar og Sandler.

Kevin James er týpíski ófyndni aulabangsinn sem hann er yfirleitt, á meðan Josh Gad fann í sér mest óþolandi stillingu sem ég hef hingað til séð hjá þeim ágæta gæja. Dinklage er grátlega vannýttur og kemur alltof seint inn í myndina. Meistararnir Cox og Bean fá akvondan díl út úr þessu öllu og er það handan míns skilnings hvernig þeir blekktust í þessa mynd. Þeir gera algerlega ekkert. Og ef það er eitthvað sem getur gert pirrandi Happy-Madison mynd alveg ögn meira pirrandi, þá er það krakkaleikari. Þeim hefur reyndar Columbus yfirleitt getað náð skítsæmilegum tökum á í fortíðinni. Ekki hér.

Eina sem stendur almennilega upp úr eru þessar pixla(…reyndar voxla-)brellur og býsna kúl nýting á Queen-laginu We Will Rock You, og hvort tveggja má finna í trailerunum. Haldið ykkur helst við þá, eða stuttmyndina.

thrirBesta senan:
Eh…

Sammála/ósammála?