Vacation (2015)

Næsta kynslóð Griswold-famelíunnar er tekin við, komin til að minna á góða tíma og gera eitthvað öðruvísi. Nýja Vacation-myndin segir reyndar sjálf í byrjun að hún ætli sér ekki að endurgera þá gömlu… en gerir það í rauninni samt. En góðu fréttirnar eru að hún er talsvert fyndnari en Vegas Vacation!

Fortíðarþrá er alls staðar í Hollywood núna. Vacation fer sömu leið og helstu undanfarnir ‘hipp’ nostalgíugrautar (þ.á.m. Jurassic World og Terminator Genisys) hafa farið, með því að halda utan um rætur sínar við originalinn og telja sig vera bæði framhald og ferska endurræsingu á sama tíma. Ef á að kalla þetta Vacation „endurgerð“ er hún a.m.k. virðingafull og í réttum gír. Hún á ekki roð í frummyndina og varla heldur jólauppaáhald margra. En ég hló.

vacation2015b

Fyrsta myndin, sem Harold Ramis leikstýrði og John Hughes skrifaði, eldist ekkert alltof vel en hún er samt enn fyndin. Hún þótti subblega djörf á sínum tíma en þar er nýja myndin í aðeins verri stöðu. Í tilraun til þess að koma með svipuð sjokkáhrif lendir hún að mestu á misþreyttum neðanbeltishúmor, klósettbröndurum og fyrirsjáanlegum útkomum. Heilmikil pressa fellur á fyndni og samspil nýju Griswold-famelíunnar, og hún ein bjargar myndinni frá plebbalegum vídeómeðmælum.

Ed Helms hefur hingað til komið best út sem gígantískur drullusokkur (það er brosið, sjáið til). Dæmi: The Goods, We’re the Millers, Jeff Who Lives at Home og They Came Together. Sem arftaki Chevy Chase vantar aðeins meiri klikkhaus í hann, en að öðru leyti er hann óborganlegur sem sonurinn Rusty (áður leikinn af m.a. Anthony Michael Hall, Johnny Galecki og Ethan Embry). Rusty er fullkomlega lúðalegur, þvingður og þurr fjölskyldufaðir. Veruleikafirrtur auli en alltaf með hjartað á réttum stað, einkenni sem hann hefur óhuggulega fengið beint frá föður sínum.

_DSC0793.DNG

Christina Applegate er einnig frábær á móti honum, óhrædd við að gera að samskonar fífli, og drengirnir tveir sem leika syni þeirra, tilfinninganördið og Satanbarnið, voru heldur ekki slæmir. Ofan á það fáum við fínustu cameo, og því miður bömmerandi máttlaust innlit frá Chevy Chase og Beverly D’Angelo. Ef þér finnst gamla Vacation-myndin eldast illa, það er ekkert miðað við útganginn á Chase, en aðkoma hans að myndinni er aðallega bara til að hnýta endanlega tenginguna milli þess nýja og gamla. Af aukaliðinu hafði ég mest gaman af Reginu King sem „Like„-óð vinkona og Chris Hemsworth, sem stelur allri myndinni sem gortandi kanadrjóli. Stúlkur fá nægan tíma til að hlæja og dást að stykkinu hans.

Eins og búast mátti við er Vacation algerlega sketsabundin. Hún er keimlík upprunamynd sinni þó hún sé færð í nútímann og hafi skipt út staðsetningum og bröndurum… en bara rétt svo. Það er lítið sem nær meiriháttar hæðum en kætandi ruglið útvigtaði vel út það slæma myndi ég segja, fyrir utan það að myndin er áberandi búin að tapa talsverðu eldsneyti í lokahlutanum (cirka eftir að Charlie Day hverfur). Handritshöfundarnir hefðu alveg getað kreist út hugmyndaríkari bröndurum og meira fjöri þegar áfangastaðnum er náð.

vacation-remake-2015

Gamla Vacation-serían var þó heldur ekki síspunnin úr gulli, og fór hún margsinnis í gegnum sömu rútínur og þónokkra drullupolla (eins og afleita tilraunin sem hét Christmas Vacation 2). Ef þú leyfir heilanum að fokkast í frí í 90 mínútur gætirðu endað með glottið uppi út hálfa lengdina og meira. Dómarnir hafa verið alltof harðir, Nýja Vacation er brött, nokkuð skemmtileg og ef einn brandari eða katastrófa hittir ekki í mark er mjög stutt í næstu aðstæður eða smekkleysu. Góð lög þarna líka inn á milli, gömul, ný og sígilda Holiday Road þemalagið fær m.a.s. að fljóta með.

Það býst enginn við langlífri seríu úr þessari núllstillingu en ég skal kalla mig dauðafeginn yfir að þessi mynd nái a.m.k. að græja sér einhvern persónuleika og hristi örlítið til í kunnuglegheitunum til þess að hún lendi ekki á eins vondum stað og t.d. Dumb & Dumber 2. Það er eitthvað.

sexa

Besta senan:
Kóreska GPS-ið í skapsveiflu.

Sammála/ósammála?