Love (3D)

Eins mikið og ég er viss um að Gaspar Noé kunni að meta hæperbólið, þá er LOVE (3D) ekki beinlínis nógu transgressíf til að hljóta titilinn ‘djarfasta kvikmynd ársins’ eins og svo margir halda, enda lítil ástæða til þess. Í henni er ekkert sem ekki er hægt að finna á nokkrum sekúndubrotum á internetinu hvað hasar í svefnherberginu varðar og myndin er sannarlega ekki að segja neitt nýtt eða betur um ástina, og undarlegra þykir mér að hún er klárlega mildasta og þar með meinlausasta mynd leikstjórans til þessa – en í staðinn er hún hans persónulegasta.

CMHUGNFXAAAPvOG

Gaspar er alls ekki maður sem kallar fram volgar tilfinningar, sama á hvorum endanum þú lendir með myndirnar hans. Það er erfitt að klára af heila Gaspar-mynd án þess að fussa og sveia nafni hans með bæði lúmskri fyrirlitningu og heilmikilli aðdáun. Hann elskar að ganga fram af áhorfendum sínum, með grimmd, óþægindum, ögrun eða einfaldlega einhæfum brögðum. Því er hann ákaflega góður í því að gera kvikmyndir sem snerta erfið og merkileg efni en umfram allt myndir sem mann langar ekkert sérstaklega mikið til að horfa á aftur.

Love hefur ekki miskunnarlausa bitið sem t.d. Irreversible hafði né fílósófíurnar og einstöku, draumakenndu stílbrögðin á pari við Enter the Void en þrátt fyrir alla sýniþörfina hefur hún gallhörð tök á sínu umfjöllunarefni, kemur skilaboðunum áleiðis og vinnur úr þeim með eftirminnilegum hætti.

Þegar James Cameron kom þrívídd aftur í bólgandi tísku bjóst hann að öllum líkindum seint við því að listrænn og opinn argentískur furðufugl myndi nýta sér formið til að sýna ástarleiki og stinna líkamsparta í ólgandi nærmynd. Lostaleikirnir í LOVE 3D eru kannski ekki allt sem býr henni að baki en þeir gefa klárlega mynd eins og Fifty Shades of Grey mikið til að hundskammast fyrir og lítur hún í samanburði út eins og Inside Out, eins hirðir Gaspar til sín heitið ‘óbeisluð gredduepík’ sem Lars von Trier taldi sig sjálfsagt áður eiga með Nymphomaniac.

love-skip-crop

Ekki er mikið um sögu að ræða eða narratífu. Myndinni er stillt upp eins og sveittri og dramatískri minningarhrúgu, enda saga sem er mest sögð í tættu endurliti um ástarsamband frá aðallega sjónarhorni kynlífsins. Hún virkar fyrir vikið pínu stefnulaus en er alls ekki merkingalaus. Áhorfandinn gerist fluga á vegg – og óbeinn þátttakandi hvort sem honum líkar það betur eða verr. Það hefði verið hægt að segja þessa sögu án þess að fókusa svona skýrt á kynlífið. Þá hefði hún verið stílískur og pínu athyglisverður grautur – í dæmigerðari kantinum – um hæðir, lægðir og geðköst ástarinnar og eðli manneskjunnar. Kynlífið gegnir oftast tilgangi og gefur myndinni annars vegar (fyrirgefið frönskuna…) mikið „bragð“.

Noé leikur sér með ákveðna fjölbreytni innan einhæfa rammans sem hann hefur með því að sýna ýmsar ólíkar týpur af svipuðum athöfnum; Reitt kynlíf, blítt, stutt, langt, persónulegt, ópersónulegt, undir áhrifum, innandyra, almannfæri, trekantur, léttar orgíur o.fl. En meðan ég rifja upp ógleymanlegu orð Ridleys Scott um þetta mál („Sex is boring, unless you’re having it“) verður að segjast að graðhundurinn Noé reynir afskaplega á þolinmæðina með í völdum tilfellum, og þó kynlífið sé oftast smekklega gert (að frátöldum þeim skotum sem sýna fullt afl 3D-tækninnar í brandaralegri nálægð) og hann missir sig aldrei of mikið í subbulegum nærskotum, er bara takmarkað sem hann vill eða nær að bæta við með nálguninni og þessu myndmáli. Eins og hann freistist til að ýta viðtengjanlega ‘innihaldinu’ frá á köflum til að víkja fyrir rúnkefninu.

Leikararnir eru vissulega hugrakkir fyrir að stunda raunverulegar samfarir á kameru og bera hold sitt eins og ekkert sé eðlilegra (partur af tilganginum er einmitt til að sýna hversu náttúrulegt þetta allt er…) og setja sig í hvaða stellingar sem leikstjórinn hefur beðið um, en það gefur þeim svosem ekki frípassa til að afsaka heildarframmistöðu þeirra. Myndin er ekki alltaf vel leikin og karakterarnir hvorki marghliða né sérlega áhugaverðir, en það sem reddar þeim rétt svo er að umfjöllunarefnið sjálft ristir aðeins dýpra. Love er realísk mynd sem hefði þó getað orðið ógleymanlegri ef helstu leikarar væru ögn meira sannfærandi, og sama gildir oft um díalóginn. Yfirleitt hljóta klámmyndir einmitt svipaða gagnrýni en þessi er ekki alveg svo illa stödd þar. Lykilparið í myndinni nær ágætlega saman í samtalssenum, hitinn svosem til staðar en kemistrían misjöfn. Ég held að Gaspar hefði komið betur út úr því að skrifa og gera myndina á frönsku.

346782.jpg-c_640_360_x-f_jpg-q_x-xxyxx

Ef það er hægt að reiða á eitthvað í Noé-myndum – a.m.k. undanfarið – þá er það kröftug og nýjungarík kvikmyndataka. Hvernig hann leikur sér með uppstillingar, litafiltera og lýsingu gefur öllum myndum hans einkenni sem eru hér um bil dáleiðandi, reyndar ‘trippí’, og fjandi góð tónlistarnotkun vantar heldur ekki upp á skreytinguna að gera.

Það liggur þó við að mig langi til að draga nokkur stig frá Noé fyrir að reyna að sprauta egóinu sínu í myndina við hvert gefið tækifæri. Hann kemur ágætlega út í smáhlutverki listadólgs en þegar tveir karakterar í myndinni eru nefndir eftir honum og reglulega er vitnað í sláandi Love-hótelið úr Enter the Void er öruggt að hann sé fyrstur og líklegastur til að gæla við sjálfan sig á meðan lengdinni stendur. Og myndin er heldur ekki stutt. Hún er lengi að líða og hefði mikla snyrtingu mátt þurfa að halda í klippingunni (ofnotkunin á blikkandi, svörtum römmum verður einnig pirrandi) en hins vegar er áhrifaríkur tilgangur með tímahoppinu og byggingunni og endirinn hreyfir smávegis við, á einn hátt eða annan.

enhanced-buzz-wide-2833-1432298231-11 (1)

Miðað við kynningarefnið lítur Love 3D varla út fyrir að vera annað en óvenjulega vel skotin klámmynd, en á bakvið alla gredduna leynir hún á sér sóðalega hreinskilna, ágenga, sannleiksríka og prakkaralega litla sögu um nánd og eftirsjá í mjög skerandi mynd. Hún veitir ekkert gríðarlegt innsæi í sitt umfjöllunarefni og Noé nær sjálfsagt best að ganga þá línu með að sýna hvernig titilfyrirbærið hjá ástarsjúkum og þröngsýnum ungum manni jaðar við hreina geðveiki, enda fátt meira sem getur blindað okkur eða kallað fram úr okkur sterkustu tilfinningar, jákvæðar sem neikvæðar undir gefnum kringumstæðum.

Lítið sjokk í þessu, bara vönduð og villt eðlilegheit. Ég á enn eftir að sjá margar beinar klámmyndir sem hafa eins mikinn áhuga á mannlega eðlinu og litlu mómentunum sem tengja okkur oft saman, þó innihaldið sé lítið sem var ekki t.a.m. betur höndlað og næstum jafn bersýnislega í Blue is the Warmest Color eða jafnvel Lie with Me. Myndin er heldur ekki linnulaus ríðingarveisla í líkingu við 9 Songs en það sem skilur eftir sig er alveg þess virði að skoða.

Hver áhorfandi metur bara fyrir sig hvort hann vilji spóla yfir „söguþráðinn“ eða drekka þetta allt í sig.

thessi

Besta senan:
Noé fær á baukinn og Disco Science (úr Snatch, muniði?) flýgur í gang.

Sammála/ósammála?