Webcam

Það sést svo greinilega að Webcam er mynd gerð af nýrri kynslóð indí-kvikmyndagerðarmanna sem hefur lítið fengið að spreyta sig héðan áður, sérstaklega með umfjöllunarefnið sem hún hefur tekið að sér. Hún er mynd sem er svo morandi í fingraförum leikstjóra síns og handritshöfundar, Sigurðar Antons, gæja sem vantar alls ekki eldmóðinn hjá til að reyna að hugsa stórt út fyrir lítinn ramma. Hann gæti gert margt þrælfínt í framtíðinni og ekki síður með aðeins meira fjármagn. Webcam sýnir þessi merki enda á tíðum skemmtileg og skörp en nær ekki alveg að hanga saman.

Pínu gredda, lítið sjokk og minna bit. Webcam er víst önnur mynd Sigurðar á eftir hinni lítt(…sem ó)séðu Ísabellu, og hún býr yfir sterkt kómískri kaldhæðnisrödd og fær plús fyrir forvitnilegt viðfangsefni. Framleiðslugæðin eru þó að mestu leyti viðvaningsleg (og leikarar stundum úr fókus!) og myndin er í algerri handaglímu við sjálfa sig um hvort hún eigi að vera stefnulaus, léttgróf kómedía eða „raunsæ“ og opin vináttusaga með meiru.

webcam-camgirl

Robert Altman sagði einu sinni að fyrsta sena vandaðrar bíómyndar á að segja þér allt sem þú þarft að vita um söguna. Webcam hefst allavega á því að Rósalind, sögupersóna myndarinnar, fær brundslettu beint í andlitið – fyrir kómískan effekt, og þar með er subbulegi „sannleikstónninn“ gefinn. Ég kann að meta ömmufælandi attitjúdið hennar en ekki hve klofin og flöt hún getur orðið fljótt.

Sagan er fókuslaus og ósamkvæm sér sjálfri; hrjáð af nákvæmlega þeirri sýniþörf sem hún gerir svo mikið grín af, þykist vera einlæg og snýr svo út úr öllu með tilgerðarlega „súbversívum“ samtölum, og gallinn er að langflestar persónurnar (sem eru ekki alveg til fyrirmyndar á pappír) hljóma oft allar eins og þær komi frá sama pennanum.

824533

En þegar Webcam virkar þá er það vegna þess að leikararnir eru flestir trúverðugir eða gæddir fyndnum (og einnig, reyndar, ekki-svo-fyndnum) persónuleikum. Hún spilar sig líka eins og hún hafi spikfeitt hjarta en hefur ekki alveg hugmynd um hvernig hún á að vinna fyrir því – sem er mestu leyti því að kenna að aðalpersónunni er vísindalega ómögulegt að halda með, þykja vænt um eða skilja til fulls.

Það er aldrei byggt nægilega vel upp af hverju Rósalind ákveður að taka þetta djobb eins og ekkert sé sjálfsagðara, annað en að hafa upplifað það nokkrum sinnum að láta góna á sig. Handritið varpar heldur ekki neitt merkilegu ljósi á netkúltúrinn sem hún fjallar um. Allt camgirl-stússið hjá Rósalind verður meira farið að virka eins og uppfylling því lengra sem á líður.

Rósalind þráir að vera séð og metin fyrir galla sína en handritið málar hana oft sem tilitslausan hræsnara sem tekur hvorki spennandi né trúverðuga þróun. og allur sjarmi sem kemur frá henni er ekki frá því hvernig hún er skrifuð, heldur hvernig Anna Hafþórs virðist fíla sig í botn í hlutverki sem er eins krefjandi og það er tvívítt. Betri er Telma Huld Jóhannesdóttir sem leikur æskuvinkonu Rósalindar. Það eru blíðari aspektar við hennar karakter sem gefur myndinni eitthvað í líkingu við tilfinningakraft, en báðar smella einnig með helfínu samspili sem styrkir myndina mest. Hér um bil allir aðrir koma ekki út eins og annað en sketsakarakterar; Júlí Heiðar, Ævar Már Ágústsson og m.a.s. Gunnar Helgason sem er reyndar þrælskemmtilegur, áður en hann hverfur úr myndinni eftir miðbikið…

2f302c0c9c7ddda25632da8457293da3

Ég hef alltaf verið fylgjandi því að íslenskar bíómyndir mættu oftar leyfa sér að spilast lengur út en þessar stöðluðu 90 mínútur ef þær hafa einhverju við innihaldið að bæta. Webcam býr til þægilegt svigrúm fyrir leikara sína og hefði ýmislegt getað spunnið úr þessum tíma ef hún hefði ekki svona oft misst sig í yfirdrifið teygðum uppfyllingarsenum, oftast þá með pínlega langdregnum bröndurum (gestahlutverk leikstjórans og framleiðandans voru beyond pínleg).

Tímahoppin í sögunni eru líka djókur, og það leynir sér varla að myndin hefur verið skotin á stuttum tíma, og um hávetur. Framvindan gerist yfir rúmt ár (og viti menn, aldrei neitt sýnt frá sumrinu! Við stökkvum bara úr bláköldu vori yfir í haust, svo jól, svo áramót, svo aftur haust). Það er tímapunktur þar sem mér leið eins og myndin væri að klárast, og á tímapunkti þar sem hefði verið sniðugt að slútta henni. En hún heldur áfram og græðir minna á því (fyrir utan þegar handritið kommentar loksins á einhverjar afleiðingar sem gætu fylgt þessum lífsstíl Rósalindar…). Tónlistin kemur fantavel út sum staðar.

Webcam er umfram allt mynd sem talar til margra í sínum markhópi og það fer ekki milli mála að hann sé til staðar þó bíóaðsóknartölurnar voru ekki voða sterkar. Margt gott í henni, en sagan virkar ekki til fulls og fyrir mitt leyti missir stór hluti af húmornum marks. En vonum endilega í sameiningu að hún marki pósitíf upphaf af nýrri flóru fyrir íslenska indí-kvikmyndagerð.

5

Besta senan:
Pabbinn fer yfir nokkra ‘skilmála’.

Sammála/ósammála?