Straight Outta Compton

Aðeins hörðustu pjúrítanar og – feisum það – rasistar geta sagt að Straight Outta Compton fjalli ekki um stórmerkilegan tíma í sögu rapp- og poppkúltúrs, þar sem heill músíkgeiri öðlaðist nýtt líf og var ljósi varpað á viðbjóðslega valdamisþyrmingu, opinbera fordóma og bælingu sem á enn við í dag, því miður

Hvort sem þú þolir ekki eða hefur margsinnis hlustað á gangsta-rapp ætti ekki að vera neinn ákvörðunarfaktor í því hvort þessi bíómynd gæti virkað á þig. Hún er býsna aðgengileg og fjandi vel gerð dramatísering á upprisu og sundrun N.W.A. grúppunnar og öllum litlu látunum í kringum hana.

Í lykilfókus eru vitanlega Ice Cube, Dr. Dre og Easy-E, semsagt helsti textasmiðurinn, pródúserinn og aðalröddin. Með öðrum orðum: tveir framleiðendur myndarinnar og hinn látni – og aukalega vill svo til að þriðji framleiðandinn er ekkja E. Þeir MC Ren og DJ Yella virðast sumsé bara vera þarna að mestu til þess að fylla upp í ramma og atriði til skrauts.

Straight Outta Compton

Þegar mynd eins og þessi hefur verið í áraraðir í þróun og framleidd af tveimur aðilunum sem hún fjallar um (og báðir tveir hafa ýmsa fortíðarskugga að baki sem hefði getað virkilega djúsað upp innihaldið hér) getur maður stólað á það að trilljónir funda fóru í það að skoða hvað færi inn og hvað ekki, og allra hörðustu aðdáendur N.W.A. eru ekki lengi að spotta ýkjurnar. Nokkrar þeirra álíka sannfærandi og hárkolludruslan á (annars fyrirsjáanlega frábærum) Paul Giamatti.

Þunna línan sem myndast milli sannleiks og skáldskaps á ekki að skipta neinu – myndin á að standa sjálfstæð, en gerir það samt smávegis þegar hún hoppar úr takt við stórfrægu, filterslausu hreinskilni drengjanna sem fjallað er um. Það fúla er líka hve miklu handritið reynir að kremja fyrir á litlum tíma (þó tveir og hálfur tími sé ekki alveg brött seta) og daðrar á köflum við stífar gubbklisjur í samtölunum.

Straight-Outta-Compton-Movie-Recording-Boyz-N-tha-Hood-Scene

Lógískt séð hefði virkað betur að gera míní-seríu, en fyrst það var aldrei í boði mátti alveg valhoppa minna yfir helstu atburði og punkta og gera meira úr tengslum og forsögu grúppunnar, með meira rými fyrir fleirum en þessum þremur. Baksviðs hafa Dre og Cube sérstaklega fundið sér  leiðir til að blása í sín eigin gjallarhorn. En um leið og E byrjar að hósta í seinni helmingnum vitum við hvert restin fer og hvernig mynd þetta verður, þ.e.a.s. ögn dæmigerðari, hægari og sækist stundum í tilfinningalega hápunkta sem hún hefur ekki fyllilega unnið sér fyrir. Myndin hefur ekki einu sinni propper endi. Hún bara hættir. Alltaf jákvæður hlutur að vilja meira þegar átt er við 140 mínútna mynd nema þegar kemur út eins og fullt vanti. En þessi hefði alveg mátt vera lengri.

Leikstjórinn F. Gary Gray á nokkrar ágætar myndir að baki (þar helst The Negotiator og Italian Job…) og hárrétti gæinn fyrir einmitt þessa mynd, m.v. hans perspektív fyrir efninu, tímabilinu og persónulegum tengslum við Cube. Gray m.a. leikstýrði eitthvað af sóló-myndböndum hans að ógleymdri stónerperlunni Friday (’95) sem hann átti hlut í að skrifa – og tvisvar sinnum er vitnað í þá mynd hérna.

Gray varpar upp orkuríka og vandaða mynd af tímabilinu og virðist hafa mikið lagt upp úr smáatriðum, þess vegna vantar ekki að manni líði eins og períódan gleypi mann heilan. Gray heldur afþreyingargildinu gangandi og finnur fínan balans milli drama og húmors, harðákveðinn í að koma í veg fyrir of mikinn ‘Hollívúdd-glans’ með nálgunina og leikinn. Bætist svo ofan á það geggjuð myndataka (snillingurinn Matthew Libatique beitir enn og aftur sínum hráu töfrum) og ansi mögnuð hljóðvinnan.

comp

Það er varla út á einn punkt að setja við neina frammistöðu… og eftirhermu. Leikstjórar mega kalla sig heppna í biopic-myndum þegar leikarar ná að fanga réttu takta og stíleinkenni viðkomandi aðila en það er helbert kraftaverk ef þeir eru útlitslega svipaðir líka… eða eins og í þessu tilfelli með hárréttu raddirnar í kaupbæti. Það hversu lengi Straight Outta Compton sat í framleiðslu-limbói virðist líka að hafa margborgað sig í mögnuðu vali á leikurum, og það virðist vera einhverjum stórkostlegum cast-leikstjóra að þakka myndi ég giska.

Corey Hawkins og Jason Mitchell breytast áreynslulaust báðir tveir í Dre og E, trúverðugir, áhrifaríkir jafnvel, og O’Shea Jackson fékk greinilega, og heppilega, hlutverkið sitt út á meira en bara að vera djók-líkur pabba sínum. Ég get ekki horft á þennan dreng í myndinni án þess að sjá Cube-klóninn allan tímann en það hversu mikið hannþe týnir sér í fótsporum föðursins eykur þann styrkleika. Hann er e.t.v. betri sem Ice Cube heldur en öll skiptin þar sem Ice Cube sjálfur leikur einhvern annan en sjálfan sig í bíómyndum. Glittir einnig mjög svo sannfærandi í Snoop Dogg og Tupac eftirhermur, og miklu fleiri þekkta.

Straight Outta Compton er umdeilanlega heldur áhættulaus og ‘snyrtileg’ miðað við umfjöllunarefni sem setur hvað hvössustu rappara síns tíma undir smásjánna, en þó… leikararnir eru góðir, skilaboðin sterk, tónlistin ‘dóp’ og myndin heldur fokk-fínum dampi. Hljómar ekki illa.

7

Besta senan:
Löggan pirrast á tónleikum í Detroit.

Sammála/ósammála?