The Gift

Fortíðardraugar eiga það yfirleitt til að bíta þá grimmt í feisið sem ætla sér að ýta þeim langt að baki, og loksins þegar kemur að því að horfast í augu við þá gæti mögulega verið of seint. Þannig hljómar nokkurn veginn kjarninn og lykilþemað á bakvið The Gift, þessum laumulega tens, karakterdrifna og mest megnis óútreiknanlega litla sálfræði(drama-)þriller. Og með honum er merkilega búið að fletta af glænýjum hæfileikum frá leikaranum Joel Edgerton, sem skrifar og leikstýrir.

Af öllum leikurum sem hafa reynt að spreyta sér undanfarið á bakvið kameru (sbr. Gosling, Bateman, Jolie, Crowe…) hafa örfáir spreytt sig með svona tilkomumikilli og stingandi frumraun eins og Edgerton hefur gert, þ.e. hægum bruna sem snertir ákaflega vel á kraumandi umræðurnar undir yfirborðinu. Edgerton markar sig af í lokuðum (borderline leikhúslegum) ramma og skellir allri byrðinni á helst tvo einstaklinga í aðalhlutverkum, Jason Bateman og Rebeccu Hall, auk þess að leika sjálfur þriðja hlutverkið.

the-gift

Það gildir sjálfsagt um alflestar kvikmyndir en The Gift er ein af þeim sem nýtur sín albest ef vitað er sem minnst um söguþráðinn og ekki mikið lagt í sýnishornin. Þetta dregur ekkert kvikindislega úr glápinu eða spennunni og ef eitthvað stenst myndin annað áhorf glæsilega frá mínum enda. Mystíkin í sögunni er í sjálfu sér aukaatriði og eins geggjaðslega vel handritið nær að snúa út úr ákveðnum formúlum og væntingum eru alltaf læst tök á þemunum og sér í lagi persónunum.

Þú veist að það er eitthvað vont í aðsigi en kemur ekki alveg puttanum á hvað það er. Persóna Edgertons er sérstaklega tvísýn og um leið og við kynnumst honum erum við ekki viss um hvort hann sé bara ófélagslynt og brothætt grey eða snjallt kvikindi og framvindan vinnur frábærlega úr þeim vangaveltunum á meðan spennan og tilfinningakvarðinn magnast alltaf smátt og smátt.

REBECCA HALL stars in THE GIFT. FACEBOOK.COM/GIFTMOVIE TWITTER@GIFTMOVIE INSTAGRAM@GIFTMOVIE #GIFTMOVIE

Sagan er um tvo menn í rauninni en á milli þeirra flækist eiginkona annars þeirra. Edgerton er traustur undir sínum eigin tökum en myndin er í séreigu Bateman og Hall. Bateman er fínn gamanleikari en krónískt ófjölhæfur. Hann er yfirleitt hann sjálfur, á góðum degi með fáeinum aukastillingum sem velta á handritsvalinu. The Gift hefur fundið fullkomin not fyrir persónuleika hans á skjánum og leyfir honum að gefa layeraða frammistöðu sem kemur á óvart. Hall er algjörlega sympatísk og gefur brothættri persónu mjög viðtengjanlega og öfluga áru.

Edgerton dressar upp drungann með óhuggulegu andrúmslofti og nýtur þess klárlega að rugla svolítið í áhorfendum. Það er skringilega töff ’90s-þriller’ áferð á myndinni og hafa margir réttilega borið hana saman við m.a. Single White Female og The Hand that Rocks the Cradle. Cache kemur líka sterkt upp í hugann og væri ekki langsótt ef Edgerton hafi stúderað Heneke og nokkurn Hitchcock í döðlur. Ég dreg það frá honum að sumar ‘stærri’ flétturnar mættu vera ófyrirsjáanlegri, en lokakaflarnir skilja eftir sig óneitanlegt högg sem brennir myndina eftirminnilega í heilabúið að henni lokinni.

drvwqp2vlukzcst6wk5m

The Gift er þegar geysilega umræðuverð í tengslum við hvernig hún dílar við leyndarmál og afleiðingar. En ef gamaldags dramaþrillerar með drungalegu ívafi eru þinn tebolli, þá ætti álit þitt á Edgerton að hafa hækkað umtalsvert. The Gift er algerlega málið. Köld, spennandi, lágstemmd, frábærlega leikin og kemur sér beint að mjög mikilvægum skilaboðum. Niðurstaðan skilur mann eftir á sætisbrúninni og skilur hárrétt magn af spurningum eftir ósvaraðar.

8

Besta senan:
Síðasta gjöfin…

Sammála/ósammála?