Knock Knock

Ég býst við að þetta sé það sem kallast Eli Roth að hemla á sjálfum sér. Allan splatt og viðbjóð lætur leggur hann frá sér og trekkir upp sálfræðilega hryllinginn áfram í staðinn. Seint bjóst maður við því að hann myndi leggja í einfaldan heimainnrásar-hrollvekjuþriller af gamla skólanum, en sniðinn sérstaklega handa kynslóð samskiptatækninnar. Það má líka kalla þetta dökka skilaboðasögu – sem er drifin af aðeins þremur aðalleikurum – um afleiðingar gifts manns eftir óheppilegan trekant, býst ég við.

Fjölskyldan er í fríi, hann einn heima, ein stórmistök og tvær óbeislaðar ástæður fyrir því að þrælfína líf hamingjusama eiginmannsins breytist í bilaða martröð. Það furðulega er samt hversu lítið myndin virðist viðurkenna það að vera endurgerð á Death Game, frá ’77. Roth skrifaði handritið með tveimur öðrum handritshöfundum en samt hefur myndin fengið mest alla beinagrindina frá henni, fyrir utan að ‘lagfæra’ endinn.

knock-knock-keanu-reeves

Engu að síður er handritið fínt. Það hefur tök á flæði sínu og nær að halda spennunni og klikkuninni magnandi. Myndin virkar næstum því. NÆSTUM því! Stærsta hindrunin kemur í formi eins viðkunnanlegasta leikara heims, Keanu Reeves, manni sem er nýbúinn að plaffa sig upp í eina hörðustu hasarhetju seinustu ára með John Wick. Fyrir Roth er þetta kannski flott og skemmtileg þróun fyrir hann í djobbinu en fyrir aðalleikarann er þetta miskunnarlaust röng mynd.

Sumt fer bara ekki vel saman í sömu setningu, og ‘Keanu Reeves’ og ‘dramaleikur’ á þar vel við, að minnsta kosti tilfinngasprengja af þessari gráðu. Það sem gerði hann t.d. svo sturlað flottan í Wick seinast var hvernig hann hnoðaði saman þjáninguna og reiðina í augnarráðið, attitjúdið og líkamstjáningu, lukkulega í hlutverki fámáls manns. En þegar þessi maður er í órgandi örvæntingu – og þá meina ég órgandi! – og losar í æðum hans af brjálæði í löngum tökum er svo erfitt að taka hann alvarlega að frammistaðan verður að frábærum brandara, sérstaklega þegar hann er farinn að æpa og samtímis líkja strengjalausu framhjáhaldi við „fría pizzu“. Stórkostlegt! (ef Nic Cage gæfi út verðlaunastyttur fengi þessi performans eina slíka… umhugsunarlaust). Þetta blörrar allavega spennumörkin ógurlega því myndin er líka að reyna að vera sjúklega fyndin á milli þess að vera bara ljúft rugluð í hausnum.

Roth hefur mikið týnst af radarnum eftir hörmungina Hostel: Part II. Einhvers staðar á hillunni liggur þó The Green Inferno, virðingavottur hans til Cannibal Holocaust, mynd sem var kláruð fyrir tveimur árum og hefur illa gengið að fá dreifingu. En fyrir gírbreytinguna sem þarf til að sigla Knock Knock í höfn er Eli bara enn of mikill prakkari í sér og með lítil tök á sannfærandi mannlegri hegðun… utan geðveikinnar. Senurnar með Reeves og fjölskyldu hans í byrjuninni eru viðbjóður, og stóra tilfinningalega blaðra myndarinnar frussar strax þarna öllu lofti í úr sér. Keanu leikur við börnin sín eins og hann hefur aldrei séð þau fyrr og eiginkonan hans ekkert skárri.

knock-knock-image-3

Klikkpíurnar tvær, sem Lorenza Izzo (eiginkona Roths) og Ana De Armas leika, eru hins vegar nokkuð sólid, með fegurðina að vopni og stórskemmda sækólógíu uppmálaða í farteskinu. Svo fyrirlítanlegar, óútreiknanlegar og snilldarlega barnalegar í ógeðfelldum plönum sínum gagnvart Sad Keanu. Það breytir því ekki að einhverjar aðrar leikkonur hefðu getað tekið þetta lengra og betur selt suma parta. Hálf myndin algerlega á þeirra trúverðugleika og ógn, en ég keypti þær.

Með öðrum leikstjóra og nánast hvaða öðrum aðalleikara sem er hefði efniviðurinn (sem er hvort eð er þegar „í láni“) átt séns á því að tvinna betur saman viðtengjanlega (?) óhugnaðinn við bleksvarta grínið með þessum eldhressum (segjum) ‘karma’-skilaboðum. Mátulega rugluð, fyndin á vitlausum stöðum, grípandi á örfáum réttum. Vel gerð frá tæknilegri hlið en mikill bömmer að hún skilur ekki meira far eftir sig. Því hún ætti að gera það. En búist við því næstu árin að sjá oftar glitta í klippur af leiktöktum Keanu úr myndinni heldur en lokavöruna sjálfa.

 

5


PS.
Lokalagið er öflugt en þjáist fyrir það að aðrar bíómyndir hafa gripið það svo oft áður. Þar á meðal ein beinhörð klassík.


Besta senan:
Keanu öskrar á símann sinn. Ómetanlegt.

Sammála/ósammála?