Everest

Eftir að hafa klifrað hægt og að mestu virðulega upp Hollywood-stigann tekst Balta að formlega planta stóra flaggi sínu, fyrstur íslenskur kvikmyndagerðarmanna til að stýra fjölda Óskarstilefndra leikara á þessum skala. Metafórískt er hann hér kominn á toppinn, faglega og kaldhæðnislega með sögu sem gengur út á það að klífa hæsta fjallstind jarðar, hindranirnar og fórnirnar sem fylgja í stóra markmiðinu sem fólst. Eins getur það varla verið tilviljun að leyfa íslenskum leikara að stíga fyrstur á toppinn í myndinni.

Köldu, norrænu víkingatöfrarnir mæta hér glæsilega því besta af því sem reynslan af ‘amerískum’ spennumyndum hefur kennt honum Balta. Everest er alls ekki laus við það að vera týpísk Hollívúdd-dramatísering en trúverðugleikinn sem leikstjórinn gæðir efninu tryggir mátulegri áferð, og verður hún þ.a.l. aldrei of væmin, glampandi, manipúlerandi eða melódramatísk. Svo margir aðrir leikstjórar sem hefðu eflaust hlupið í þennan efnivið með glans og verðlaunabeitu í huga. Baltasar kemur þess vegna sterkur inn og tæklar þetta mátulega hrátt og örsjaldan með áhrifalausum árangri.

thumbnail_22781

Miðað við allt brjálæðið sem maðurinn lagði á sig fyrir krefjandi sjó- og fjallatökur Djúpsins held ég að hann hafi glaður gengið í gegnum hvaða veðuráskorun sem er, og agressívar snjótökur með vindbilum eru ekkert sem einn frambærilegur íslenskur leikstjóri harkar ekki af sér. Balti hefur ekki gert þessum leikurum það auðvelt í tökunum. Ánægður með hann!

Hér eru landslög, tæknibrellur, sólid leikarar, grimmur viljastyrkur og reiði móður náttúru í sinni fínustu mynd með harmleikinn stöðugt vofandi yfir. Handritið eftir William Nicholson (Unbroken) og Simon Beaufoy (127 Hours) kemur með beinþunna en örugga meðhöndlun á endursögninni. Engin klénd tilgerð, lítið um listrænt leyfi svo úr verði gapandi skekkja í trúverðugleika og enginn karakter er málaður neitt góður eða slæmur. Það er nóg að fjallið og óhuggulegu náttúruöflin sjái um að vera ‘illmennið’. Eins og Ingvar E. – sem Anatoli Boukreev – segir sjálfur: (og lesist með þykkum rússahreim…) „The mountain always has the last word.“

Ég hef því miður ekki lesið bókina Into Thin Air eftir John Krakauer.  Hann var einn meðlimur grúppunnar sem upplifði alvarlegasta slysið á Everest árið ’96 (og já, úps… spoiler: hann lifði af og skrifaði bók!). Ég mæli aftur á móti sterklega með samnefndu heimildarmyndinni frá ’98. Orð Krakauers sjá eflaust miklu betur um að koma okkur í hausinn á þeim sem upplifðu hörmungarnar en afrekið hans Balta kemur okkur rakleiðis þarna á staðinn með þeim, með mikilli hjálp frá frábærri kvikmyndatöku, stórkostlegri hljóðvinnslu (Glenn Freemantle á kreditið þar, og sá m.a. um sándið í Gravity), tónlist sem passar án þess að vera yfirþyrmandi og býsna vel földum tölvubrellum. En hinn helmingurinn á heildardílnum lendir á ábyrgð leikaranna, og með aðeins hnitmiðaðri persónufókus hefði verið hægt að sigla þessu kvikindi enn lengra í höfn.

everest-post1

Við fáum einvíða/mesta-lagi-tvívíða persónur í bombandi 3D upplifun, en að sama skapi er hér um að ræða stóra brellumynd sem leggur tilfinningar og andrúmsloft í allan forgang. Lítill tími gefst samt til þess að gera eitthvað annað við persónurnar en að stilla þeim upp, enda talsvert stór hópur í þessum tiltekna leiðangri (og það hjálpar að muna litinn á snjógöllum hvers, svo betra sé að halda tölu á hverjum þegar baulandi blindbylir hrúgast yfir skjáinn). Þarna kemur sér vel af hendi að vera með það gimmick að setja þekkta leikara í mestöll hlutverkin svo við munum betur eftir þeim. Klassískt. En virðist virka.

Alflestir gera hins vegar heilan helling við það litla sem þeir hafa. Jason Clarke hirðir mesta sviðsljósið, og stórgóður í því. Á eftir honum fylgja John Hawkes, Josh Brolin, Jake Gyllenhaal, Sam Worthington, Michael Kelly, m.a.s. Martin Henderson (hvert fórst þú??) og þrælfínn Ingvar E. sem Boukreev, gæi sem hefði alveg mátt gera ögn meira. Nálgunin á honum er merkilega hlutlaus miðað við hve umdeildur hann þótti í augum Krakauers – trúlega til hins betra. Emily Watson, Robin Wright og Keira Knightley eru hvað besta dæmið um leikara bæta svakalega miklu ofan á þunn hlutverk, og allar frábærar.

everest-movie-trailer-iamge

Þunnu karakterprófílarnir leiða til þess að oft detta heilu þræðirnir með þeim úr myndinni og ekkert útskýrt hvað varð um þá (Toli hefði þar sérstaklega mátt fá meiri athygli). Flæðið á myndinni er líka pínu rispað í byrjunni og heldur flýtt í lokin. Hún hættir eiginlega bara nokkuð skyndilega, kastar framan í okkur texta með hálfan afganginn af týndum eftirmála. En til að spegla fjallgönguferðina miklu heldur Baltasar heldur rólegu – en aldrei of rólegu – flæði í fyrri hlutanum áður en allt fer til fjandans í tens og vönduðum seinni hluta, og þar sérstaklega gígantískt grípandi miðju sem er í sjálfu sér peninganna virði.

Senubygging hættuatriðanna og skerí-sannfærandi útfærslan á þeim ýtir upplifuninni á hærra level. Þetta er líka mynd sem krefst þess að þú sjáir hana stóra og háværa. Það segir sig svolítið sjálft en hún missir talsvert gildi ef þú sættir þig við að horfa á hana á litlum skjá eða spjaldtölvu (félagi minn og förunautur á myndinni kallar þetta “Gravity-syndrómið“).

En „Af hverju Everest?“, spyr Krakauer ‘áhættufíklanna’ í leit að svarinu með hvaðan drífandinn kemur. Það sama spurðu margir sig eflaust um leikstjórann áður (og pottþétt einhverjir kanar sem aldrei hafa heyrt um Balta sem annað en ‘Gæjann sem gerði 2 Guns’). En þetta negldi hann! Everest er hvorki Óskarskalíbera-mynd né eitthvað sem verður séð sem einn af hápunktum ársins, og þess vegna skal ekki horfa á hana sem drama- og karaktersögu heldur sem sannsögulegan stórslysaþriller með bítandi magni af manneskjulegum og brútal litlum augnablikum. Þannig gengur hún glæsilega upp. Leitt að titillinn Vertical Limit hafi verið frátekinn.

8Rétt slefar í áttu.

Besta senan:
„Hillary-þrepin.“

Sammála/ósammála?