Hotel Transylvania 2

Augljóslega er úr stórum sarpi að taka, en bara núna nýlega má segja að allir sem gerðust svo óheppnir að þrauka gegnum Blended, The Cobbler og (ef til vill sérstaklega!…) Pixels gætu skiljanlega átt erfitt með að selja sér hugmyndina að þrauka meira af Adam Sandler í smátíma, eða hverju sem hann framleiðir með einhverju móti, teiknuðu eða ekki. Mest á þetta við foreldrana. Nema þeir vilji skýla sér á bakvið íslensku talsetninguna… en því mæli ég ekki með.

Hotel Transylvania leið ákkúrat fyrir þennan flæðandi ‘Sandler’isma’, eða að minnsta kosti geðveika hugmyndin sem hún byggði á. Þar af leiðandi fannst mér rússnesk-ættaði teiknisnillingurinn Genndy Tartakovsky ekki fá nógu mikið að leyfa sínum einkennum að skína nóg í gegnum prumpgrínið, stefnuleysið og átótjún-ógeðið sem hún tapaði sér í. Sagan var krúttlega einföld en ber og farin að dragast undarlega á langinn.

Sandler sjálfur var aldrei sérlega mikið vandamál. Hans útgáfa af viðkunnanlega kvíðarfullum og hressum Drakúla kom alltílæ út í þessu. En Genndy gerði samt helling fyrir myndina, enda þekktur fyrir að brennimerkja sig með klassískt ‘broad’ teiknistíl, þar sem ýkt svipbrigði, hreyfingar, og pósur leyfa sér með stolti að vera algjört skrípó. Sjónrænt séð var Hotel Transylvania pínu geggjuð; litrík, með karakter og mikla dýnamík, og fáeinum fyndnum fullorðinsdjókum sem laumuðust inn.

1280x720-Etm

Hotel Transylvania 2 er merkilega betri en sú fyrsta, ögn fyndnari, með stærra hjarta og flýtur hærra á kostunum sem fylgdu áður með. En núna er aaaðeins meiri „saga“, eins mikið og er svosem teygt á henni, framvindan skilaboðin eru ofurkjút og ekki ælukennt væmin.

Í alflestum Sandler myndum hefur egghausinn notið þess að benda og hlæja að öllum sem eru ‘öðruvísi’ eða í minnihluta, en í þessum myndum er tólerans og opinn hugur ráðandi þema, sömuleiðis aðlaganir gegn úreltum hefðum, með tillit til ólíkra kynslóða. En eðlilega er hér faðmað öllum skrímslatýpum að sér fagnandi, þó við hlæjum bæði að þeim og með líka. Fyrir sjálfskipaðan konung „aulahúmorsins“ er þetta allt saman kærkomin gírskipting fyrir Sandler, en hlýtur nú eitthvað af þessu að skrifast á teiknifagmanninn líka.

hote

Fúlt samt hvað yngstu-kynslóðar músíkin innsiglar myndirnar báðar of mikið í núið, tryggir þ.a.l. að þær munu fljótt eldast illa. Það var verra seinast en þegar þú ert að díla við svona flippsnúning á gamla góða ‘Universal’ skrímslagengið (þ.e. Drakúla, Úlfamaðurinn (ennþá þrælskemmtilega talsettur af Steve Buscemi), Múmían, Ósýnilegi maðurinn og Frankenstein-skepnan) mætti alveg a.m.k. REYNA að vanda meira til verka og prufa eitthvað sem gæti átt sér lengra líf.

Hotel Transylvania 2 er stutt, ódýr í djókdælingunni (en ég viðurkenni samt að Bluetooth brandarinn náði mér) en saklaus og kætandi líka, örfáum sinnum dökk…ish ef beint er að allra yngstu hópum. Hún hefur örlítið meira af lifandi Genndy-töfrunum heldur en Sandler-óbragðinu. Seinast skiptust hráefnin eiginlega öfugt, en breytir því augljóslega ekki að allir sem elskuðu fyrri myndina munu léttilega éta þessa upp. Það er enn slatti af rými fyrir nýjungar og fjölbreytni ef annað eintak bætist óhjákvæmilega við. Styð líka við þá hugmynd að loka Sandler bara af í teiknimyndum næstu tíu árin.

fin

Besta senan:
Mel Brooks, í hlutverki pabba Drakúla (Vlad), andsetur bleikt gerviskrímsli.

Sammála/ósammála?