Sicario

Denis Villeneuve hefur verið að sækja í sig veðrið sem einn af áhugaverðari leikstjórum samtímans. Þegar Prisoners kom út hafði ég ekki minnstu hugmynd um hver hann var en síðan þá hefur hann vaxið í froðufellandi uppáhald hjá mér, ekki síður eftir að ég kíkti á Incendies og kannski sérstaklega Enemy (mynd sem verður sí betri með hverju skiptinu). Tilhugsunin um Blade Runner 2, sem er sú næsta á planinu hans, hefur mér aldrei þótt neitt kitlandi en Villenuve er bara ÞAÐ góður með spennu, andrúmsloft og táknmyndir í myndmáli sínu að hann er trúlega sá eini sem á einhvern séns í að rokka það.

Sicario sýnir enn og aftur fram að hér er leikstjóri sem lætur ekki einn einasta ramma fara til spillis, skilur ekki neina frammistöðu eftir ómjólkaða og þó myndin virðist vera að fjalla um eitthvað eitt, kemur síðar í ljós að undirliggjandi þemun eru í allt öðru. Leikstjórinn hefur hingað til oftast vaðið í sögur sem virka heldur einfaldar við fyrstu sín en áhugi hans liggur gjarnan í því að rífa siðferðislegar vangaveltur upp frá rótunum og skoða grimmt mannlegu þættina í því viðtengjanlega.

Villeneuve spilar (aftur) með hægan, stanslaust dáleiðandi bruna í uppsetningu sem er truflandi, raunsæ, hljóðlát en stílísk út og inn. Með Sicario nær hann að byggja upp gríðarlega þrúgandi stemmingu í, og skrúfar fastar og fastar eftir því sem á líður þangað til maður er farinn að naga neglurnar undir það síðasta.

sicario

Þétt og öflugt handrit keyrir þetta lágstemmda en áþreifanlega tensjón, en svo koma töfrar meistarans Roger Deakins. Flesta daga er hann ósigrandi á kamerunni en hér er kvikmyndatakan hans nánast með undantekningu MÖGNUÐ. Það virðist engu skipta hvað þessi maður er að skjóta, hversu hversdagslegt, þurrt, dautt, lokað eða opið rýmið virðist vera sem hann vinnur í, hann finnur leið til að láta það stíllúkka (og ég mæli hjartanlega með að sjá myndina í 4K upplausn!).

Flott klipping og skerandi tónlist Jóhanns Jóhannssonar styrkir helling án þess að láta of mikið bera á sér, en framlag Jóhanns til þessarar myndar þykir mér guarantera að hann eigi mun fleiri Óskarstilnefningar í vændum. Hvort það verði fyrir þessa mynd eða ekki skiptir engu máli, hann er enn bara rétt að byrja.

1280x720-EnE

Þau skilaboð blæða út alla myndina hvað stríðið gegn eiturlyfjum er fast í stjórn- og stefnulausri lúppu. Börn og fjölskylda spila líka mikilvægan þátt þemunum, sagan hnoðar ýmsum pælingum úr því hvernig siðferðislegur áttaviti fólks getur glatast þegar fjölskylda einstaklings er í húfi eða tekin burt.

Hvað persónusköpun varðar hefði Emily Blunt mátt fá örlítið meira til að bíta utan um. Hún er skrifuð sem algjör klisuspýta; alríkislöggan sem gerir allt samkvæmt bókinni en feisar síðan allt sem skorar á hennar hugsjónargildi. Með öðrum orðum, fáum er treystandi, ekkert er það sem sýnist og þá á svæðum þar sem erfitt er að halda reglum á. Persóna Blunts, sem gerir sitt albesta til að halda sínum prinsippum og kúlinu í leiðinni, er í rauninni skrifuð inn sem eins konar samviska myndarinnar, eða staðgengill áhorfandans. En krefjandi og firnasterk frammistaða sem hún virðist fara létt með.

Benicio Del Toro man bara ekkert hvenær ég sá seinast svona öflugan og kemur hvað bestur út úr myndinni sem markmiðadrifinn sérsveitarmaður sem grípur til sinna eigin aðferða þegar þörf eru á því. Það sýður svoleiðis af honum einbeitingin en því lengra sem á líður fylgja honum ógnvægilegri og harðari lög sem gera þennan leik manískt grípandi. Josh Brolin klikkar heldur ekki, né væntanlegi Refsarinn hann Jon Bernthal í litlu hlutverki.

1280x720-CRg

Af spennumynd að vera þykir mér eins og Sicario hafi dregið mikinn innblástur frá Michael Mann á sínum bestu dögum. Fyrst og fremst þó eru það stöðugt karakterarnir sem keyra söguna og aksjónið. Hasarbygging, tónn og skotbardagar (sér í lagi rafmögnuðu senurnar við mexíkósku landamærin) eru snilldarlega útfærðir, spennandi og hráir. Mjög ‘Mann’-legir.

Sicario er margt í einu; hefndardrama, móralssaga og jökulköld spennu/hasarmynd sem stílfærir aldrei ofbeldið svo úr því verði eitthvað kvikindislega töff, heldur mynd sem kann algjörlega að nota hausinn og púlsinn. Hér snýst allt um höggið, afleiðingarnar, þjáningarnar og manneskjurnar sem bera skotvopninn og hvað ýtir þeim áfram í aðstæðum sem þessum. Aldrei er heldur predikað of stíft né mokað mann bleksvörtu vonleysi, bara vakið til umhugsunar.

Myndin hélt mér í gripþéttu taki út alla lengdina sína. Hún er bullandi skylduáhorf fyrir alla sem kunna að meta vandaða ‘slowburn’ þrillera sem hafa meira í sér að fela og þar sem leikur, handrit og tæknivinnsla er í toppgæðum.

Ein albesta mynd ársins.

 

brill

Besta senan:
Óboðinn Benicio.

2 athugasemdir við “Sicario

  1. Finnst þessi snilldarmynd alveg eiga tíuna skilið. benicio var grjótharður.

  2. Já snilldar mynd í alla staði, gaf henni sjálfur 8, en já mér fannst karakterin hennar Emily Blunt (Kate Macer) ekki nægilega vel skrifaður. Já og það var aldrei spurning með besta atriðið í myndinni, „Óboðinn Benicio“ ert magnaðasta atriði sem maður hefur séð lengi!!!
    Takk fyrir vel ígrundaða dóma sem virkilega gaman er að lesa.

Sammála/ósammála?