Black Mass

Johnny Depp hefur lengi dúsað í bíófangelsi hjá þeim sem muna eftir hversu góður og skemmtilega djarfur hann gat verið, áður en Disney-vilgengnin gaf honum alltof mikið frelsi. Inn á milli leyfði hann sér að gera eitthvað fullorðinslegra en aldrei með eftirminnilegum hætti. Þurfti svo ekki nema merkilega raunasögu um alræmdan glæpóna til þess að fá hann til þess að allavega reyna að skora á sjálfan sig og finna dekkri, rólegri og ákafari leik-lög til þess að móta með og finna sósíópatann í sér. Margir hafa talað um Black Mass sem stóra ‘kombakkið’ fyrir Depp, en áður en fólk tapar sér í svo stórum orðum skal hafa það í huga að næstu titlarnir hans eru Alice in Wonderland 2, Pirates 5 og síðan heil aukamynd með fransk-kanadíska fíflinu sem hann lék í Tusk.

Hér má finna leifar af óhuggulegri sögu glæpaforingjans James ‘Whitey“ Bulger, og lauslega er s.s. rekin upprisan til fallsins  – í anda góðrar Scorsese-myndar. Black Mass er klárlega skref í réttu áttina fyrir Depp, þökk sé þess að hann tekur sjálfan sig aftur alvarlega – án þess að setja upp skrípalega rödd, þvælast með Tim Burton eða ganga með fyndinn hatt, kómískt skegg, jafnvel syngja eða leika í svefni (The Tourist, Transcendence…). Þess vegna er það súrt að segja að loksins er hann gleyptur af frammistöðu sem er helmingi betri en útkoman virðist eiga skilið. Að öðru leyti hef ég enn ekki séð Joel Edgerton eða Benedict Cumberbatch standa sig beint illa og þó þeir lifi sig báðir vel í þessa mynd er lúmskt gaman að sjá þá keppast um hvor getur betur haldið upp Boston-hreim án þess að trufla.

bulger

Eins og algengt er með fókuslausar biopic-sögur kemur þessi út eins og flott mínísería þjöppuð niður í tvo klukkutíma. Leikstjórinn Scott Cooper hefur núna gert þrjár myndir sem allar sanna að hann getur kreist út eitthvað af því besta úr leikurum sínum (skoðum m.a. Jeff Bridges í Crazy Heart eða Woody Harrelson í Out of the Furnace). Kemur líklegast ekki á óvart fyrst hann var sjálfur áður leikari en hann nær litlu gripi með neinu öðru, og kemur út eins og hann viti ekki alveg hvenær á að skipta yfir í hærri gír með strúktur sínum.

Cooper getur verið sterkur með litlar stakar senur, og á tæknilegu stigi hefur hann nokkuð vandaða mynd á milli handanna, en handritið velur allar mögulegu leiðir til þess að slíta sig við mikilvægan dramaþunga. Samtölin eru misklígjuleg, Persónudýptin takmörkuð út í gegn og með því að segja söguna í ‘flassbökkum’ frá sjónarhorni þeirra sem sviku Bulger úr innsta hring hans er búið að þurrka út mestalla óvissu og þá lágmarks spennu sem ríkir á milli hans og allra í kringum hann. Mér fannst ég heldur ekkert mikið fróðari um þennan mann eftirá heldur en fyrir sýningu.

mass1

Bulger átti son, stirt samband við eiginkonu sína og bróður sem var einn voldugasti pólitíkus fylkisins á þessum tíma, svo eitthvað sé nefnt. Það er margt til að tína úr og varpa ljósi á. Í þessari niðurstöðu er hlupið yfir meirihlutann af öllu svona, alla atburði og ‘hápunkta’ svo úr verður aldrei nein kröftug heildarmynd eða snyrtileg samantekt. Þræðir hanga í lausu lofti og handritið hefur ekkert sérstakt að segja. Stendur þá bara eftir dautt loft, mikið af því, og niðurtalning í óhjákvæmilegu endalokin.

Black Mass hefði getað einbeitt sér að sálinni í skepnunni og stúdera aðeins hvað lætur hann tikka. Í staðinn sættir hún sig við fullt af atriðum þar sem hann hótar einhverjum eða drepur, hótar eða drepur, auk margra sena þar sem frábærir leikarar koma bara og yfirgefa síðan (þ.á.m. Peter Sargaard, Corey Stoll, Juno Temple og óvenju traust Dakota Johnson – sem öll ná að gera eitthvað gott úr þunnildum sínum).

Einbeitta og lúmskt grípandi túlkun Depps á Bulger gæti hugsanlega haft jákvæð áhrif á ferilinn hans héðan í frá, en hún nær ekki að bjarga myndinni.
Krimmaepík um þennan mann, með þessu fólki, á ekki vísindalega séð að geta orðið svona flöt og hálf leiðinleg. Myndi segja að þetta væri svolítil sóun á hæfileikum ef þeir væru ekki svona glimrandi fínt til sýnis.

 

mehh

Besta senan:
Bulger hittir á eiginkonu Edgertons.

Sammála/ósammála?