The Martian

Hérna sannast það aftur að þegar Ridley Scott hefur gjörsamlega frábært handrit í takinu, þá tekst honum yfirleitt að standast væntingar með því að láta allt líta vel út, velja rétta fólkið og merkja verkin með förum sínum. Það mætti svosem gerast oftar en þetta kemur frá einhverjum sem er ekkert truflað hrifinn af flestum myndum hans (þó ég muni ávallt verja The Duellists, Matchstick Men og The Counselor). Ég hef þó alltaf dáðst að fjölbreytileika hans, smámunasemi og virkninni. Kallinn er að nálgast áttrætt og dælir næstum jafnmörgum myndum út og Woody Allen, að lágmarki tuttugu sinnum stærri. Það er varla ár liðið síðan Exodus kom út og enn líður mér eins og þar hafi farið fínasti biti í hundskjaft.

Sci-fi myndir voru óumdeilanlega það sem skutu Ridley hæst á loft en lét hann geirann alveg í friði í nokkra áratugi þangað til hann færði okkur Prometheus ásamt handritshöfundi sem var bæði rangur og týndur (sem vill svo til að heitir Damon…). Þeirri endurkomu náði hann ekki alveg að lenda en með The Martian hefur hann gripið í virta og vel skrifaða skáldsögu eftir Andy Weir og með Drew Goddard (manninn sem m.a. leikstýrði Cabin in the Woods og sá um Daredevil þættina) upp á arminum á bakvið aðlögunina. Þar að auki frábæran aðalleikara í forgrunninum og óteljandi aðra ágæta til þess að fylla upp í.

The-Martian-Mark-Watney-Matt-Damon

The Martian er faglega gerð spennu- og dramasaga, en samt svo létt í tón. Ekkert sérlega djúp en með pósitífu og hvetjandi hugarfari alla leið. Hún kemur því hnökralaust til skila að ekki er til betri drífandi fyrir manneskjuna til að hugsa í lausnum heldur en nauðsynin eins og hún leggur sig. Þó að eigi stundum til að loka fyrir spennu og alvarleika sögunnar hefur hún líka mikinn húmor fyrir sér og þar helst í tónlistarvalinu, sem er alveg meiriháttar. Ég held líka að það verði aldrei hægt að finna betri nýtingu á Bowie-hittaranum Starman. Pjúra dásemd.

Ég elska að stórar, flottar ‘vísindalega smámunasamar, metafórukenndar ‘óldskúl’ sci-fi bíómyndir-um-viljann-til-að-komast-lífs-af ‘ virðast vera orðið árlegt ‘thing’. Seinasta vetur kom út stór geimmynd þar sem Matt Damon sat strandaður, í gestahlutverki, á plánetu að missa vitið, og í þeirri sömu mynd horfði Jessica Chastain endalaust upp til stjarnanna án þess að fá að sjálf fara þangað upp. Merkilega í sameiningu hafa þau stigið í aðra vísindaskáldsögu þar sem rullurnar breytast þeim í hag. Damon situr nú strandaður á skárri plánetu í dúndurfínum gír og Chastain fær loksins að svífa í þyngdarleysi eins og Sandra Bullock.

Það er lengi hægt að ræða þá slatta af samanburðum sem liggja á milli Gravity, Interstellar og The Martian, eins og þær myndi eins konar óformlegan þríleik. En að þessum samanburðum slepptum er líka ýmist hérna sem má svipa til mynda eins og Moon, Cast Away og Apollo 13. Bræðingur að mínu skapi, og ó-svo fókusaður á vísindalegu díteilana með akfeitu nördahjarta.

THE MARTIAN

Scott er fókusaður og nýtir einfaldleikann best og fer létt með tæknilega umgjörð. Þyngdarleysisatriðin eru þar að auki klikkuð (og það eina sem annars máttlausa þrívíddin hefur eitthvað við að gera). Matt Damon leikur geimfarann og garðyrkjufræðinginn Mark Watney eins og rullan sé bein sérsniðin honum. Ég hef ekkert út á hann að setja, og allt þetta færiband af fínum aukaleikurum – en á móti skelgrunnum hlutverkum – hefur heilmiklu við að bæta (og draga þarf andann inn til að telja þetta lið upp: Sean Bean, Chewetel Ejiofor, Jeff Daniels, Donald Glover, Kristen Wiig, Mackenzie DavisMichael PeñaSebastian Stan o.fl.). Scott nær makalaust að breyta hin berustu hlutverk í litla senuþjófa. Heildin er samt öll umfram allt í séreigu Damons og handritsins.

Myndin hefur úr svo miklum efnivið og „plotti“ að moða að hún er stöðugt flakkandi á milli stjórnstöðvar NASA á jörðu (eða Chastain og co.) og Watney í gúddí fílíng á Mars. 140 mínútur er kannski löng seta fyrir suma og einhverjum gæti þótt þessi langdregin, en ég upplifði hið þveröfuga, eins og kannski allir sem lásu bókina. Flæðið leyfir ekki alveg kyrrðinni og einmanaleikanum á mars að settla og anda meira út, og sama þótt ýmsum tölum sé varpað upp finnur maður aldrei nægilega fyrir tímaskyninu (og…! það hefur sýnt sig áður að ýmsar bíómyndir Ridleys eru betri í lengri útgáfum).

The-Martian

Framvinda myndarinnar reiðir sig stíft á heppni og klisjur, en aldrei með of skemmandi áhrifum eða gegn anda hennar. Langbestu partarnir við eru þó yfirleitt þegar áhorfendurnir eru einir með Watney, og það eru alveg sprettir sem hefðu þolað það að lengjast smávegis út. Scott mátti líka leika sér aðeins með að balansera meiri þunga í tóninn í stað þess að halda henni svona ítrekað léttri, án þess að setja beint út á það. Vantaði bara meira drama og sterkari örvæntingu hjá hinum hetjulega, og óviðjafnanlega hressa Watney. Finnst líka leiðinlegt hve mikil áhersla er sýnd á svo marga aukakarakera, létt tengsl og nokkur fjölskyldumóment þegar myndin kemur aldrei inn á familíu Marks.

En þrumugóð aðlögun verður að frábærri afþreyingu um hugrekki og samvinnu með sameiningu Scott, handritsins og leikaranna og pottþétt laglistans, eins mikilli mæðu og hann veldur grey Watney þarna uppi. Útkoman hefur sína galla en myndin er allavega þrælskemmtileg, mannleg, skörp, bjartsýn og tekst líka að trekkja upp hamrandi spennu á lokametrunum. Toppmynd.
gedveik

Besta senan:
Með Bowie á fóninum.

Sammála/ósammála?