Klovn Forever

Ég veit ekki hvað það er sem togar mig svona endalaust að þessum tveimur trúðagerpum. Klovn eins og það leggur sig er eins og óbjóðslegt eitur fyrir hina meðvirkustu og þá sem auðveldlega móðgast, þættirnir voru margir frábærir en náðu kannski sjaldan þessum hnyttna stalli sem Curb mótaði fyrir þá, þó þeir gengu vissulega lengra. En það er þolraun út fyrir sig að fylgjast með hversu félagslega heftir tveir einstaklingar geta svona verið með svona trúverðugum hætti.

Klovn er samt yndislegt guilty-pleasure fyrir mér. Þrælgott heimskingjaklám frá frændum okkar, og dásamlegt demó um hvað á aldrei að gera í samskiptum við fólk, eða dýr. Frank Hvam og Casper Christensen eru óðir í að testa velsæmismörkin og finna út hvenær þeim verður endalega óviðbjargandi, og eins skrúfa frá ómeðvitaða rasismanum og kvennahatrinu. En ekki hvað?

170315833-Klovn%20Forever_Casper%20Christensen,%20Shondrella%20Avery,%20Amber%20Friendly%20og%20Frank%20Hvam

Auðvitað er þessum mönnum sjálfsagt að reyna að toppa stórkostlegu lokasenu fyrstu myndarinnar. Klovn Forever er nálægt því takmarki, og það fer henni vel að reyna að vera allt öðruvísi bíómynd heldur en sú fyrri. Hún nær ekki alveg sömu ‘sjokk’-hæðum svosem en það er enn mikil aulaorka í þessum ofvöxnu drengjum og nóg af bráðfyndnum, dásamlega óþægilegum aðstæðum.

Í Klovn Forever halda félagarnir áfram að sækja í ýktar útgáfur af sjálfum sér og þykir mér sérstaklega gaman að sjá Iben Hjele (sem er sjálf skilin við leikarann Casper) þarna aftur, þó ekki nema í smáhlutverki, og koma með hvað skýrustu viðbrögðin gegn fíflunum tveimur. Frank er heilmikið félagslegt frávik út af fyrir sig, þó hann vilji tæknilega séð öllum alltaf vel, og Casper alltaf hlægilegur hellisbúi sem hugsar með tittlingnum. Myndin fókusar hvað mest á félagatengsl þeirra beggja, hvernig þeir hafa sundrast og hvernig þeir virðast alltaf draga út það versta úr hvorum öðrum.

Það er fyrir mér algjör geimvísindi hvernig grey Mia, kona Franks, tekst að vera svona meistaralega umburðarlynd gagnvart krónískt lygasjúkum manni sem í fortíðinni hefur fitlað á strák, fróað sér á tengdamóður sína (og klárað sig af með þrumuskoti í augað), slegið óvart fatlafól með svipu, ítrekað – á jólunum, og síðan seinna óbeint drepið sömu manneskju úr kulda – svo aðeins fátt sé nefnt! En leikkonan Mia Lyhne hefur miklu meira að gera í þessari mynd en síðustu, og er frábær sem fyrr í þeirri hugsanlegu sjálfsblekkingu um þroskagetu mannsins síns og meiriháttar trúverðug í að selja það að hún virðist elska þennan aula sama hvað.

klobi

En óskiljanlega eru þau Frank enn saman í byrjun þessarar myndar. Nú eiga þau tvö börn, lífið farið að hægjast á og myndast nóg af atvikum sem reyna á það a) hversu hæfur faðir hann er, b) hver forgangsatriði hans eru, og c) hvort vináttan milli þeirra Caspers hafi nokkurn tímann þýtt eitthvað öll þessi ár, og d) hvort ein öryggismyndavél gæti orðið að stóru óláni… Myndin teygir auðvitað smávegis á þessum þunna þræði sínum, verður hreint og beint niðurdrepandi á örfáum stöðum og losnar ekki við veikina að spilast út eins og langur þáttur, sem fyrri myndin fannst mér aðeins betur smeygja sér hjá.

Ef þú fílar þættina eða fyrri myndina ertu líklegast í góðum málum. Ef hvorugt þá máttu draga einkunnina niður um einn – eða tvo, fer eftir því hvort þú endist út myndina án þess að langa að kirkja óvitið úr þeim félögum. Þetta voru allavega 90 truflandi mínútur sem ég skemmti óviti mínu yfir, og hversdagslega og sannfærandi samspil þessara manna heldur sér enn áreynslulaust. Mynd sem er best að sjá með sem flestu fólki í salnum. Djóklaust.

 

7

Besta senan:
Hótelplanið.

Sammála/ósammála?