Legend

Tvöfaldur skammtur af Tom Hardy þykir mér ekki vera vondur díll. Allir sem sáu t.d. Locke hljóta að muna hvað hann gat einn gert magnaða hluti, sitjandi í bíl með sjálfum sér út fulla lengd. Í Legend sést einnig hvað hann getur gert þegar hann deilir einn sviðsljósinu… með tveimur, og leikur hann tvíburanna báða Reggie og Ronnie Kray, einhverja þekktustu og öflugustu krimma í sögu Bretlands sem lögðu hálfa London-borg undir sig á sjötta og sjöunda áratugnum.

Ef menn eru að leitast eftir djúsí frásögn um starfssemi, samband og innri karakter bræðranna er því miður ekki úr miklu að moða, en Hardy er bara það góður að manni er sama um það hvað myndin er þunn og á tíðum einbeitingarlaus. Skítsæmileg afþreying lyftist yfir í frábæra sýningu á tvískiptu talenti. Maðurinn leikur á móti sjálfum sér án þess að nokkrir saumar sjáist og breytist þetta þ.a.l. aldrei í truflandi gimmick. Það er mikið hjarta í tengslum þessara afbrotaóðu bræðra, og sólid ‘kemistria’ þeirra á milli kemst til skila, merkilega.

N5rQ_

Brian Helgeland hefur gert marga fína hluti, og þrælreyndur á ýmsum sviðum sem handritshöfundur og leikstjóri; í spennu-, drama-, krimmageiranum (frá Man on Fire til Mystic River og Payback) eða léttum skyndibita eins og A Knight’s Tale. Það mun koma mér á óvart ef honum tekst einhvern tímann að toppa L.A. Confidential handritið sitt en Legend dregur allavega út hans betri leikstjóraeinkenni hans en líka nokkra veikleika hans sem penni.

Helgeland fiktar talsvert með tónaskiptingarnar. Alvarleg eða brútal sena getur á svipstundu orðið meinfyndin eða jafnvel breyst í dökkan skrípaleik, og öfugt vissulega. Legend er almennt í hressari kantinum og dettur sem betur fer ekki eins alvarlega í gildru sem sannsögulegar myndir um þekkta glæpamenn oftast gera, þ.e.a.s. að skauta yfir lykilpunkta í endursögninni frá upprisu til falls þeirra án þess að leggja meira effort til þess að rista neitt dýpra (þarna horfi ég á þig, Black Mass!).

Helgeland hefur verið eitthvað gagnrýndur fyrir að einblína of mikið á samband Reggies við konu sína, Frances Shea, leikin af Emily Browning. Mér finnst sú nálgun að segja söguna að mestu leyti frá hennar sjónarhorni koma fínt út, þó aðeins meira innlit í sækólógíu bræðranna hefði aldrei sakað, og Frances er mátulegur tilfinningakjarni sem bindir saman sundruðu frásögnina. Browning gerir líka mikið úr því sem hún hefur, sem er tvívíður en tragískur karakter sem er á meðal fárra sem slær á stuðning og sympatíu áhorfandans. Að mínu mati var samt röng ákvörðun að gera hana að þulinum líka, og það bitnar allra mest á seinustu senunum. En aftur á móti hefur leikstjórinn almennt góð tök á því að varpa períódunni upp og lífgar hana upp með fínu soundtrack-i. Maður fær að vísu litla tilfinningu fyrir því að sagan spanni öll þessi ár. Hjálpar lítið til að Browning lítur alltaf út eins og hún sé 25 ára, max.

imgID37765758

Aðrir leikarar eru góðir hér og þar en aðallega bara uppfylling (m.a. Christopher Eccleston, David Thewlis og Taron Egerton úr Kingsman, sem er reyndar ansi líflegur viðauki í félagsskapinn). Hardy sér allavega einn (sem tveir) um það að bera allt innihaldshlassið á öxlum sér og gefur báðum bræðrunum og þ.a.l. myndinni sterkan persónuleika.

Hardy spilar alveg þvert með það hvað bræðurnir Reggie og Ronnie Kray eru svipaðir en umfram allt gríðarlegar andstæður. Reggie er stabílli gæinn af þeim tveimur, án þess að það segi mikið, og meira gefinn fyrir að baða sig úr siðspilltum ‘töffaraskap’ gangster-glamúrsins. Ronnie aftur á móti (sem hljómar stundum eins og hann detti í hvíslandi Bane-rödd) leyfir Hardy að gíra upp og samtímis gera örlítið grín að sósíópatatísku töktum hans (enda ákvarðanir hans sumar svo ruglaðslega yfirdrifnar að varla er annað í boði en að hlæja að honum). Hann er aðeins athyglisverðari; hvatvís, skammsýnn, óvæginn, sérstaklega gefinn fyrir ofbeldisköst og félagsskap ungra, myndarlegra karlmanna.

Handritsgerðin hefði virkilega mátt rísa upp á þann fókusstandard sem aðallleikarinn er límdur við. Myndin er pínu langdregin líka og skilur nokkra þræði eftir hangandi í lausu lofti. Skildi viðkomandi þó ekkert þekkja til sögu Kray-bræðranna og kunni að meta sannsögulegar glæpamyndir með kjaft, kómík og passlegt magn af lausum skrúfum er Legend léttilega eyðslunnar virði, tíma- og peninga. Myndin sjálf stendur kannski ekki undir heitinu sínu en Hardy gerir það svo sannarlega þar sem ég hef sjaldan séð einn mann slást eins skemmtilega við sjálfan sig.

7

Besta senan:
Reggie setur partíið á stopp.

Sammála/ósammála?