Þrestir

Tæknilega séð gerast íslenskar kvikmyndir ekki týpískari en þetta. Þrestir fyllir í öll helstu tékkbox uppskriftarinnar sem er löngu orðin alkunnug. Þunglynt andrúmsloft, áfengisvandi, flækjur í fjölskyldumálum, depurð í smábæ, óspéhræddir leikarar og atburðarás sem seint skal kalla viðburðaríka.

Við höfum öll greinilega séð þessa mynd áður, með eða án Ingvars Sigurðssonar. En þó megi vera að staðlaða formið dragi Þresti eitthvað niður virðist það á móti bjóða upp á eitthvað af hennar betri kostum sökum þess eins að hún tappar fókusað inná þemun sem hún tekur fyrir. Sannarlega niðurdrepandi mynd en leynir sér ekki að hún er persónuleg og unnin af ástríðu. Feyknavel leikin, sveigjanlega strúktúruð og varla vottur af melódramatískri tilgerð í allri framsetningu. Myndin er ekkert pökkuð innihaldi per se, það er meira hvernig hún leyfir einfaldleikanum að blása út. Styrkurinn liggur í því hvernig litlar upplýsingar flettast af karakterum smám saman á réttum tímapunktum.

Þrestir-still

Rúnar Rúnars er langt frá því að vera fjölbreyttasti kvikmyndargerðarmaðurinn sem við eigum að okkur ef við skoðum umfjöllunarefnið sem hann sækist í, og allir sem sáu Smáfugla eftir hann ættu strax að þekkja hvaðan ein lykilsena úr þessari mynd kemur (og sami aðalleikari og allt!). Hins vegar hefur hann sýnt í bæði styttri formum og fullri lengd að að hann er á meðal þeirra manneskjulegustu og aðdáunarverðustu þegar kemur að því að fanga blákaldan realisma með listilegri stílíseringu. Eldfjall greip mig svosem ekkert geysilega. Fannst hún heldur volg, fullniðurdrepandi og ekkert sérlega eftirminnileg heldur. Svipaða lýsingu má svosem líma við Þresti en hún mótar meira úr því litla sem hún hefur og launar að mínu mati betur þá þolinmæði sem Rúnar biður um af áhorfendum sínum.

Rúnar stillir upp hversdagsleikanum og nýtir sér kyrrðina til að leyfa þögninni að spilast oftar út frekar en að hella öllu út með samræðum. Hann hugar að viðtengjanlega þurru múdi, myndmáli og tilfinningum. En sálin er öll hjá aðalleikaranum hans. Þetta er mynd sem væri svo auðvelt að gera mökkleiðinlega ef lykilkarakterinn næði absolút engu sambandi við áhorfandann. Þar hefur ungi leikarinn Atli Óskar Fjalarsson yfirstigið mjög erfiða áskorun.

SPARROWS

Atli virðist vera orðinn þrælreyndur í tökunum að mastera lokað, einmanalegt ungmenni á barmi hormónafulls breytingarskeiðs, og þó hann hafi sýnt frábæra takta í Óróa var hann þar umkringdur ólíkum jafningjum. Í Þröstum hvílir mest öll myndin á öxlum hans. Titill myndarinnar á sér mikla tengingu við 16 ára borgarbarnið og kórdrenginn hann Ara, sem er óaðfinnanlega leikinn af Atla, og til að varpa meira ljósi á augljósar metafórur heitisins er Ari söngfugl mikill sem neyðist til þess að yfirgefa hreiður sitt og þægindasvæði. Móðir hans sendir hann vestur á fjörð til að búa hjá föður sínum, sem í fortíðinni hefur sýnt lítið effort til þess að vera virkur í foreldrarullunni. Við tekur kasjúal og á marga vegu hefðbundin þroskasaga drengs sem feisar nýjar aðlaganir og uppsafnaða angist í þurru smábæjarlífi sem gengur ekkert alltof vel að gerast þátttakandi í.

Pabbi hans Ara sem vill gera betur en hefur ekki hugmynd um hvernig skal fara að því frekar en að brjóta upp sína eigin rútínu.  Ingvar E. er galltraustur á móti Atla; með lágstemmdan og layeraðan í hlutverki pabbans, sem virðist vera fullkomlega meðvitaður um eigin galla en er of veiklyndur til að geta unnið úr þeim eða ýtt sér áfram. Það er mikill sannleikur, empatía og einlægni í þessari frammistöðu. Kristbjörg Kjeld hefur líka tonn við að bæta sem huggulega opinskáa amma Ara.

Aukaleikarar fylla gallalaust í smærri hlutverk, frá Valgeiri Skagfjörð til Víkings Kristjáns að dilla sér á sprellanum og allra þar á milli. Ekki leiðinlegt heldur að serbneski karakter-leikarinn Rade Šerbedžija poppi inn í cameo-i og á meðal nokkurra annarra í myndinni sem hefði verið hægt að gera miklu meira með. Rakel Björk Björnsdóttir er annars veikasti hlekkurinn, bæði persónan og leikurinn.

Þó ég skilji sögutilganginn með því að halda henni í bakgrunninum þá hefði heildin getað notið góðs af því að finna betri prófíl á hana. Hún er ‘blank’ karakter í leit að persónuleika og það á því miður við um alflestar stelpurnar í myndinni (Rúnari virðist einnig liggja á því að ýta móður Ara úr sögunni sem allra fyrst án þess að gera meira við hana). Kemistríuleysi Rakels og Atla virðist þó hjálpa sögunni og merkilega nær sá vandræðaleiki að virka á milli þeirra og vera í takt við karakterana.

Íslenskar þroska- og dramasögur hafa oft í gegnum tíðina reynst einsleitar en þessi sýnir að ef efnið er tæklað af nærgætni geta jafnvel þessar dæmigerðustu skilið eitthvað eftir sig. Þó ekki nema örlítið. Þrestir er ekki allra, en hún er mynd sem skoðar tengingarleysi og tilfinningaspennur á sniglahraða og kemur manni alveg í kollinn á persónum sínum með fáum orðum, bítandi áherslum og trúverðugleikanum söltuðum yfir. Meira að segja kvikmyndatakan lekur af þurri, náttúrulegri fegurð og Rúnari gengur algerlega að samsvara einmanaleika Ara í uppstillingum umhverfisins. Góð mynd.

 

7

Besta senan:
Vísað í Smáfugla.

Sammála/ósammála?