Crimson Peak

Þeir eru fáir þarna úti sem gera eins útlitslega grípandi bíómyndir og leika sér svoleiðis að sviðsmynda- og hönnunarkláminu með dökkri fantasíugleði eins og Guillermo Del Toro. Þegar hann gerir ekki brelludrifna skepnugrauta hefur hann meiri áhuga á yfirnáttúrulegum metafórum á smærri, ógnvægilegri skala (systkinatvennan Devil’s Backbone og Pan’s Labyrinth standa sem hans ótoppandi meistaraverk fyrir mér). Crimson Peak hallast í áttina að seinni flokknum en hún er jafnframt hans fyrsta tilraun til þess að gera eitthvað annað en sérkennilega poppkornsmynd á ensku. Og sagan hefur sýnt að hann mun sterkari penni á móðurmálinu, á meðan auga hans og tillit til smáatriða feilar aldrei.

Crimson Peak ætlar sér að vera miklu meira en bara standard hrollvekja eða draugasaga. Hún hverfur grimmt til gamla skólans, tekur sinn tíma með byggingu, reiðir eingöngu á andrúmsloft og reynir sem allra minnst að stóla á ódyrar bregður. Stílíst séð dregur myndin mikinn innblástur frá t.d. Edgar Allan Poe, Henry James og Mario Bava – svo einhverjir séu nefnir – sem Del Toro mótar síðan algjörlega að sínu. Úr því verður gotneskt horror-melódrama með yfirnáttúrulegu ívafi og nett truflandi ástarsögu.

wasikowska2-xlarge

Öll góðgætin sem eru þarna ættu að ganga upp en myndinni gengur illa að komast á almennilegt flug með þau. Augljóslega nýtir Del Toro allan aurinn hvað útlit varðar; settin, litirnir, hönnunin, hvað sem er! Meira að segja setrið sjálft er eins og heill karakter út af fyrir sig. Del Toro fyllir líka myndina með alls konar draugagangi sem gegnir aðallega hlutverki myndlíkinga, en allt svoleiðis kemur bara út eins og handritsuppfyllingar þegar á heildina er litið. Það er of lítið og sterílt innihald og einhliða persónusköpun til að styðja við þær, þrátt fyrir að það sé sama og áþreifanlegt að leikstjórinn hafi hellt miklu passjóni í verkið.

Samtölin geta verið pínu stíf (og sýndist mér hljóðdöbbið detta furðu oft úr sync’i), sagan ekkert voða spennandi, hvorki á meðan henni stendur né þegar öll spilin raðast á borðið. Mestallri mystíkinni sóað þegar Del Toro skilur eftir skýrar slóðir fyrir öll svörin. Síðan, þegar svörin og móteveringar koma allar betur í ljós fer líflegur afgangurinn alveg á sjálfsstýringu og myndin verður að bragðlausri, yfirdrifinni horror-klisju. Hér er líka mynd sem hefði getað lyft sér aðeins upp með mögnuðu score-i, hefði slíkt verið í boði.

Crimson-Peak-Trailer

Leikararnir koma sumir út eins og hliðarskraut á meðan fókusinn liggur á gullfallegu búningum þeirra eða listrænu stjórninni sem umkringir þá. Mia Wasikowska, þrátt fyrir að hafa sýnt stórfínan leik í m.a. Stoker og Maps to the Stars, þykir mér oftar en ekki vera merkilega líflaus leikkona og hefur verið það síðan hún frontaði Alice in Wonderland. Í Crimson Peak leikur hún viðkunnanlega en sjarmalausa persónu sem hefur litla örk, og eins miklum tíma og fyrri hluti myndarinnar notfærir sér til að byggja hana upp, verður á endanum ekkert úr henni. Sons of Anarchy-leikarinn Charlie Hunnam lak heldur ekki af neinum gífurlegum persónutöfrum í Pacific Rim – en slapp. Í þessari mynd virðist hann vera kolrangur gæi í hlutverkinu sem hann hefur. Þannig er alls ekki raunin með Jessicu Chastain og Tom Hiddleston. Bæði tvö eru meiriháttar enda þau einu sem fá einhverja tvíhliða og að lágmarki athyglisverða karaktera til að föndra með. Chastain fer sérstaklega létt með að stela allri myndinni.

Crimson Peak er myrk og skuggaleg út í gegn en eins og Del Toro er lagið er eitthvað um grípandi fegurð að finna í ljótleikanum. Hún vekur sjaldan upp hroll, óhugnað og hefur furðu lítið bit. Keyrð á mörgum styrkleikjum og þar á meðal áferð sem a) fengi stílista eins og Tim Burton til að trompast af öfundsýki, og b) breytir meðalgóðri sögu í sjónrænt listaverk. Samt svo furðu ‘venjuleg’ og óspennandi mynd frá visjúal bíónörda og sögumanni sem hefur einmitt hingað til verið svo dásamlega óvenjulegur. En meira að segja hugmyndasnauðasta myndin frá honum er eitthvað þess virði að sjá.

 

fin

Besta senan:
Hnífbeitt systkinaspjall.

Sammála/ósammála?