Pan

Upphafssaga um Pétur Pan var ekki alveg efst á blaði yfir það sem afþreyingarheimurinn þurfti á að halda (sérstaklega ekki AFTUR, ef þú gerðist svo óheppin/n að horfa á Syfy-„seríuna“ Neverland frá 2011), þrátt fyrir að koma frá tilþrifaríkum stílista eins og Joe Wright, sem færði okkur m.a. Atonement, Hönnu og „lifandi-leikhússútgáfuna“ af Önnu Kareninu. Góður gæi tekur hart fall.

Þessum efnivið var svosem ekkert algerlega óviðbjargandi, en þegar sígildar sögur fá ‘origin’-tæklunina standa þær frammi fyrir stórum hindrunum frá getnaði. Þú veist cirka hvar allir karakterarnir enda í lokin og verstu tilfellin eru of upptekin við að stilla upp stykkjum og vísa í þekktari söguna. Pan er núna gott dæmi um þetta. Hún gerir sér það miskunnarlaust að sporti að fleygja út tilvísunum með vonir um að allir krakkarnir fatti hvaða molum er verið að skófla ofan í þá. Liggur samt við að hefði verið ferskari vinkill að segja bara aftur gömlu söguna eftir J.M. Barrie frekar þess að bomba út illa gerðum snúningi á upphafssögu sem í óþokkabót notar allar „Chosen one“ klisjur sem til eru í bókinni.

Pan-xlarge

Pan er vond, vond mynd, og ef þú ert eldri en 7 ára feilar hún á helstu lágmarkröfum sem hægt er að gera til fantasíuævintýris: leiðinleg, hallærisleg og töfralaus út og inn, þannig að þeir fáeinu sprettir sem skila af sér einhverju jákvæðara virðast hafa hitt í mark af slysni. Þetta er mynd sem vill vel, hugsar stórt og áberandi bjartsýn á að hér sé búið að marka upphaf nýrrar seríu (eitthvað sem sláandi aðsóknartölurnar hafa skotið niður…). Hvað sem Joe Wright hefur ætlað sér að gera, þessi yfirleitt fíni leikstjóri, það hefur verið gert af miklum áhuga… en með stóískt flatri útkomu.

Ég skal alveg trúa því að concept-teikningarnar fyrir þessa mynd hafi verið frábærar. Þær hafa þó ekki náð að skila sér út í framkvæmdinni, þrátt fyrir allan þennan pening. Brellurnar eru hræðilegar oft, „bluescreen“ effektar sömuleiðis svo áberandi að erfitt er að fá tilfinningu fyrir því að neinn eða nokkuð sé fljúgandi (a.m.k. í 2D útgáfunni sem ég sá…). Sumir ofleika af bestu lyst, haldandi að þeir séu staddir í teiknimynd, á meðan aðrir eru taktlausir og alvarlegir. Þetta speglar alveg skitsó-tón myndarinnar. Hún mjakar sér í litríku fantasíudýrðinni, með nokkrum dekkri skuggum annað slagið, en með svo köldum, sjarmalausum svip að sjálft Hvergilandið nær aldrei að vera þessi heillandi eða grípandi staður sem það ætti að vera.

Myndin fer svosem ásættanlega af stað. Það er ekki fyrr en við erum mætt til Hvergilands þar sem leikstjórinn tekur fullt af óskiljanlegum ákvörðunum með þennan tón, eins og best sést þegar myndin vippar út stuttum „söngnúmerum“ og notar Smells Like Teen Spirit (!) og Blitzkrieg Bop (?!). En utan þess hvað lagavölin eru mikil mistök er nógu púkalegt að sjá skafaðan, fiðraðan og leðurklæddan Hugh Jackman – með stórfenglega hárkollu – stíga inn og taka annað lagið í 15 sekúndur og síðan búið… og kemur aldrei nokkuð annað aftur í líkingu við svona jukebox-mix. Annaðhvort voru aðstandendur svona abstrakt djarfir með þennan stílbrotsgraut eins og hann leggur sig, eða þeir köstuðu bara fullt af hugmyndum í loftið og vonað það besta.

maxresdefault

Blessaður Jackman er pikkfastur á milli tónaskiptinga myndarinnar og leikur sér að því að vera bæði yfirdrifinn eða fiskandi eftir alvöru manneskju í karakter Svartskeggs… sem er pínu erfitt þegar hann er fastur í búningi  Frammistaðan virkar ekki en það er allt annað en leiðinlegt að sjá hvernig einn maður virðist vera að njóta sín með svona áttavillt hlutverk. Það jákvæðasta sem ég get sagt er að Jackman tekur fleiri sénsa með þennan karakter í samanburði hvað t.d. Ian McShane gerði við hann í lélegustu Pirates of the Caribbean-myndinni.

Garrett Hedlund reynir að gæða lífi í misheppnaðan James T. Hook (sem á hér meira sameiginlegt með Han Solo/Indy Jones eftirhermu en sjóræningjanum) með botnlausum camp-ofleik. Rooney Mara gerir hið öfuga sem Tiger Lily og gæti ekki virðst vera með minni áhuga á rullunni og línunum sem hún fær, enda karakterinn hvort sem er gerður að þunnri stereótýpu, einungis uppfylling í handritinu til að stafa út lykilþræði og gefa Hook einhvern til að daðra við.

Levi Miller, í sínu fyrsta hlutverki, er býsna góður Pan reyndar, og þjáist aðallega grimmt fyrir það að persónan er þurr og pirrandi. Öllum prófílnum hans má súmma upp í þessi orð: hann er ævintýrasjúk grenjuskjóða með frekar lítið sameiginlegt við upprunalegu sköpunina sem hann á að stefna í að vera, og líkt og Robin Williams gerði í Hook eyðir hann mestallri myndinni í að efast um sjálfan sig og reyna að fljúga (þótt fiskar og sjóræningjaskip fari víst nú létt með það). Það er reyndar með ólíkindum hvað framvindan í Pan og Hook eru líkar.

Ég hef persónulega aldrei skilið hatrið gagnvart Hook, ekki einu sinni ef ég tek nostalgíugleraugun af. Hún er meingölluð en hefur sinn sjarma líka. 2003 aðlögunin er hins vegar sorglega vanmetin; heillandi, ýkt, flott og bæði fullkomlega krakkaleg en morandi í (sækósexjúal…) undirtónum sem aðeins hinir fullorðnu lesa í.

wk-pan1009-14

Slæm mynd verður alltaf slæm mynd, en stundum þarftu haug af fagfólki til þess að gera eitthvað ólýsanlega athyglisvert úr einu klúðri. Pan flýgur beint í „Hvað-voru-þeir-að-hugsa??“ dálkinn. Hún er fókuslaus og með litla virðingu fyrir þeim uppruna sem hún vill blóðtengja sig við en samstundis endurmóta frá grunni. Meira að segja ef öll íkonógrafía Pan-heimsins yrði strípuð burt stæði samt eftir ekkert nema klisjuhaugur. Uppfullur af alls konar metnaðarfullu punti og glingri sem hefur litlu við að bæta og engan séns til að bjarga svona úldinni persónusköpun. Barrie þurfti ekki aðra ástæðu til að hringsnúast í gröfinni á ný.

 

vond
Besta senan:

Trampólín-slagurinn.

 

PS.
Hér er dæmi um hræðilega „sjálfmeðvitaða“ reference-díalog myndarinnar:

Blackbeard: You lost him?
Sjóræningi #2: Yes. He is a lost boy. ™

 

Og lokalínan…!!

 

 

(spoiler…(?))

 
Pan: „We’ll always be friends, right?“
Hook: „Of course! What could possibly go wrong?“

Sammála/ósammála?